Starfsmannaíbúðir sjúkrahúsa

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:39:35 (3612)


[16:39]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram fsp. á þskj. 501 til heilbrrh. um starfsmannaíbúðir sjúkrahúsa og annarra sjúkrastofnana. Fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að taka undir ráðuneytið alla umsýslu með starfsmannaíbúðir sem sjúkrahús og aðrar stofnanir hafa til umráða?``

    Virðulegur forseti. Samkvæmt reglugerð nr. 480/1992 ber ríkinu eða fjmrn. að hafa yfirumsjón með íbúðum í eigu ríkisins. Það er hins vegar tekið þar fram að það sé heimilt að fela heimaaðilum umsjón með eignum þar sem því þykir betur fyrir komið á þann hátt og þannig hefur verið með þessar íbúðir sjúkrastofnana. En á síðasta ári var ákveðið að taka alla umsýslu inn í ráðuneytið og í kringum þetta er komin í gagn mikil pappírsmylla og sér ekki fyrir endann á því máli. Um þessi mál eru einstaklingar farnir að fjalla suður í Reykjavík sem oft og tíðum hafa aldrei komið á viðkomandi staði og hvað þá séð viðkomandi íbúðir. Þetta er á sama tíma og menn eru uppi með hugmyndir um valddreifingu og færa verkefni heim til héraðanna. Þarna er um að ræða aðila sem sjá um þennan rekstur sem er treyst til þess að fara með allt að einum milljarði kr. í rekstrarfé í sínum stofnunum en þeim er ekki treyst til þess að hafa forræði yfir nokkrum íbúðum.
    Ég vil nefna í þessu sambandi að á ákveðnum stöðum hefur þessi ákvörðun orðið til þess að lækka leigutekjur ríkisins af þeim íbúðum sem viðkomandi stofnanir hafa haft umsýslu með áður. Það getur ekki verið meiningin með þessu að ætla sér að fara að hafa umsjón með viðhaldi á þessum íbúðum á sama tíma og þessar stofnanir hafa í þjónustu sinni viðhaldsmenn sem geta unnið þetta á mjög hagkvæman hátt, það er nánast óskiljanleg ráðstöfun.
    Má vera, virðulegur forseti, að einhvers staðar sé pottur brotinn í þessu máli en þá má framkvæmdin ekki vera á þann hátt að það sé verið að refsa þeim sem hafa staðið sig í málinu, það verður þá að taka á þeim tilfellum sem ekki hafa tekist sem skyldi.