Starfsmannaíbúðir sjúkrahúsa

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:48:14 (3614)


[16:48]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ekki væri ég ánægður með það að öllu leyti. Það virðist sem sagt vera meiningin að halda til til streitu að ráðuneytið taki þessi mál öllsömul inn á borð til sín hvernig sem menn hafa staðið að málunum heima fyrir, jafnt hjá þeim sem hafa staðið vel að þessu og hinum. Það á þá að framkvæma þá leikfimisæfingu gagnvart þeim sem hafa staðið vel að þessum málum að setja þessa pappírsmaskínu í gang, flytja þetta allt inn á skrifborð í ráðuneytinu, hafa það einhver ár þar í gangi. Ég vil, virðulegur forseti, leyfa mér að fullyrða að það séu litlar líkur á því að þau mál verði þá í eins góðu horfi þegar þeim verður skilað aftur heim til viðkomandi stofnana eins og þegar þau voru tekin þaðan. Ég skil ekki slíkar leikfimisæfingar. Ég get nefnt Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem rekur núna þó nokkuð margar íbúðir við Kristnesspítala og menn þar telja sig hafa gert það af mikilli prýði. Oft þarf að grípa til snöggra aðgerða við að flytja til fólk milli íbúða í hagræðingarskyni og það væri ansi tafsamt ef um það þyrfti allt saman að fara bréfaskipti milli stofnunarinnar og viðkomandi starfsmanns í ráðuneytinu.
    Ég nefni sjúkrahúsið á Sauðárkróki sem hefur staðið þannig að þessum málum að það hafa verið meiri tekjur af íbúðunum en nú er samkvæmt reglum ráðuneytisins og þegar ráðuneytið fer að innheimta.
    Mér er lífsins ómögulegt að skilja þá stjórnvisku að færa þetta allt saman yfir á skrifborð í ráðuneytinu um eitthvert árabil að því er mér skilst til þess að laga til hjá einhverjum öðrum annars staðar.