Starfsmannaíbúðir sjúkrahúsa

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:50:40 (3615)


[16:50]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að árétta það sem ég sagði áðan að hér er um ákveðna neyðarráðstöfun að ræða. Hún helgast fyrst og síðast af þeirri staðreynd að í stað 34 millj. kr. leigutekna sem eiga að renna af þessum embættisbústöðum hafa skilað sér 12 millj. Það gefur auga leið án þess að ég fari að tilgreina einstök héruð í því sambandi að það er þriðjungur sem skilar þessum leigutekjur eins og ráð er fyrir gert.
    Það er líka eftirtektarvert og auðvitað brýn nauðsyn á því að það sé fyrirlagt og nokkuð ljóst hver kjör skuli vera gagnvart starfsfólki þessara viðkomandi stofnana. Hér hefur hv. fyrirspyrjandi bent á það að sum sjúkrahús hafi innheimt hærri leigutekjur, haft hærri viðmiðun en reglugerð gerði ráð fyrir og telur óeðlilegt að við því sá amast. Ég er honum ekki sammála, ég held að þarna þurfi að vera nokkuð skýrar línur einmitt þegar fyrir liggur að mörg þessara héraða eru í samkeppni um þær starfsstéttir sem þarna um ræðir. Ég hef ekki heyrt miklar kvartanir yfir því í raun að reglugerðin geri hvorki ráð fyrir of háum gjöldum af þessu né of lágum en þarna hafi menn hitt á hinn gullna meðalveg.
    Virðulegi forseti. Ég held með öðrum orðum að það sé mjög brýnt að það séu samræmdar reglur í þessu. Auðvitað er það hins vegar alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þegar samræming af þessum toga er gerð, þegar gerð er atlaga í þá veru að koma skikk á þessi mál, þá fylgja stundum með aðilar sem síst skyldi sem hafa haft þessi mál í ágætu lagi.
    Þess vegna vil ég árétta það enn og aftur að ég er ekki að horfa til þess að þetta fyrirkomulag, jafnafdráttarlaust og það er nú, standi til einhverra ára heldur hef ég horft á það til einhverra mánaða og þá megi mjög fljótlega vísa þessu heim í hérað á nýjan leik og þá á sem flesta staði en ekki aðeins til fárra

útvaldra því fyrst og síðast er markmiðið það að þarna sé full samræming á og í annan stað að unnt verði að nota þessa fjármuni til að halda við þessum húseignum. Það er brýnt því það hefur ekki verið gert fram undir þetta.