Jöfnun á rekstraraðstöðu mjólkursamlaga

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:53:38 (3616)


[16:53]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 505 ber ég fram svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh. um jöfnun á rekstraraðstöðu mjólkursamlaga:
  ,,1. Hvað veldur því að ekki hefur þegar verið gefin út reglugerð um jöfnun á rekstraraðstöðu mjólkursamlaga?
    2. Hvernig hyggst ráðherra hafa áhrif á að tryggður verði hagur þeirra mjókursamlaga sem starfa á einangruðum svæðum í framtíðinni?``
    Tilefni þessarar fsp. er sá mikli dráttur sem orðið hefur á því að ráðherra nýti sér heimildir laga til útgáfu reglugerðar og sá veltingur allur sem orðið hefur varðandi þetta mál sem kemur fram í því að á þinginu haustið 1992 var flutt stjfrv. til breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum þar sem leitað var tiltekinna heimilda og breytinga en síðan var því frv. vísað frá og ekki talin þörf á þeim breytingum af hálfu hæstv. landbn. þar eð heimildir væru í lögum um þau atriði sem þetta varðaði. En það reyndist svo ekki vera og á sl. hausti kom fram af hálfu hæstv. ráðherra stjfrv. inn í þingið, eða það var flutt af landbn. að ósk hæstv. ráðherra, sérstakt frv. til breytingar á 19. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þar er ráðherra veitt heimild til þess að verja tekjum af verðmiðlunargjaldi m.a. til þriggja tiltekinna þátta. Ég vek sérstaklega athygli á c-lið þessarar tillögu þar sem segir að tekjum af verðmiðlunargjaldi skuli varið til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað. En þar er einnig í fyrri liðum tekið fram að það megi nota til að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum og til að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva.
    Hér er sem sagt verið að hverfa frá hinum almenna stuðningi í sambandi við reksturinn og ákvæðin þrengd verulega. Það er mjög tilfinnanlegt að reglugerð skuli ekki vera komin fram um þetta efni og raunar hefur til þessa dags ekki verið nein reglugerð til staðar varðandi liðið verðlagsár og síðasta reglugerðin sem út var gefin kom fram haustið 1992. Þetta er auðvitað embættisfærsla sem kemur sér afar illa. Ég skal ekki hafa harðari orð um það meðan ég veit ekki skýringar hæstv. ráðherra en vona að úr þessu verði greitt hið allra fyrsta.