Jöfnun á rekstraraðstöðu mjólkursamlaga

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 17:02:16 (3618)


[17:02]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra svo langt sem þau náðu. Eins og fram kom síðast í máli ráðherrans þá var verið að vinna það verk einmitt eftir að þessi fsp. er fram komin að gefa út reglugerð vegna ársins 1993 sem átti auðvitað að liggja fyrir fyrir löngu síðan og heimildir voru til staðar í lögum. En eitthvað bögglaðist þetta fyrir lögfræðingum í ráðuneytinu og skal ég ekki kveða upp dóm varðandi þær efasemdir sem þar var um að ræða, en hér er auðvitað afar slæmt mál á ferðinni þegar slíkur dráttur verður á. Enn er ekki komin fram reglugerð eins og hæstv. ráðherra greindi frá á grundvelli þeirra lagabreytinga sem síðan var framkvæmd og studd af þinginu fyrir jól í sambandi við hagræðingu innan mjólkuriðnaðarins, hvernig að honum skuli staðið. Þetta finnst mér mjög til baga og ég heyrði að hæstv. ráðherra kvartaði undan því að mál skyldu standa þannig og ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann hafi fullan vilja á að bæta úr þessu en þarna virðist þurfa að koma eitthvað til og þarna virðist skorta ákvarðanir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er það sem stendur í mönnum í þessu efni? Hvernig stendur á því að þetta er ekki fram komið? Er það hugmyndin að fara lengra en svo í sambandi við nýtingu á því fjármagni sem þarna er til umráða en að verja því til þess að treysta stöðu þeirra stöðva sem af landfræðilegum ástæðum geta ekki staðið undir sínum rekstri nema til komi stuðningur á grundvelli settra laga? Ég hef þá m.a. í huga mjólkurstöð á Ísafirði, Vopnafirði og í Neskaupstað. Ég vona að hæstv. ráðherra geti skýrt þetta nánar á eftir.