Afmæli heimastjórnar og þingræðis

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:32:13 (3620)


[13:30]
    Forseti (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Þess er minnst í dag að 90 ár eru liðin frá því að fyrsti innlendi ráðherrann, Hannes Hafstein, skáld og alþingismaður, tók til starfa. Stjórnarráð Íslands hóf störf þennan dag þegar æðsta handhöfn framkvæmdarvaldsins fluttist frá Kaupmannahöfn til landsins. Þess vegna markar þessi dagur, 1. febr. 1904, einn merkasta áfanga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og því vissulega ástæða til að halda minningu þessa atburðar til haga.
    En þessi tímamót eru líka merk í sögu Alþingis. Ber þar tvennt til. Annars vegar að Alþingi hóf þá að starfa með innlendum ráðherra og hins vegar það --- sem tíðindum sætti --- að þingræðisreglan hlaut viðurkenningu sem grundvöllur stjórnskipunarinnar.
    Samkvæmt stjórnarskipunarlögunum frá 1903 bar ráðherrann ábyrgð gagnvart Alþingi og starfaði í raun og veru í umboði þess.
    Um leið og Stjórnarráði Íslands eru sendar heillaóskir á þessum tímamótum minnumst við alþingismenn þess að þingræði á Íslandi festist í sessi á sama tíma og þess ber einnig að minnast.