Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:55:33 (3633)


[13:55]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Mér er ljóst að hæstv. forseta er vandi á höndum en þegar bein spurning kemur úr ræðustól og bein tilmæli um að taka ákveðið mál fyrir í síðasta lagi fyrir ákveðinn tíma, þá finnst mér eðlilegt að hæstv. forseti svari slíkri spurningu, hann gefi boltann upp hvort það sé hugsanlegt að hægt sé að verða við þeim tilmælum eða hvort forseti telur að svo sé alls ekki því að þetta getur að sjálfsögðu kallað á að það verði óskað eftir fundarhléi til að fá svör við þessu. Hér er ekki um venjulegt mál að ræða heldur þá staðreynd, að máli var ýtt út af dagskránni við þingslit og þingi slitið vegna málsins, hvort það fáist nú tekið fyrir eftir að afleiðingar þess gjörnings liggja fyrir. Staðreyndin er náttúrlega sú að Hæstiréttur hefur ekki skapað réttaróvissu. Hæstiréttur eyddi réttaróvissunni. Það liggur alveg fyrir hvaða lög eru í landinu í dag í þessum efnum. Það er staðreyndin sem liggur fyrir.
    Ég óska eftir svari frá hæstv. forseta.