Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:59:36 (3638)


[13:59]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að í ljósi þeirrar umræðu sem hefur orðið hér sé ástæða til þess að ég fyrir hönd þingflokks Alþb. taki undir þær kröfur sem hv. formaður þingflokks Framsfl. gerði hérna áðan um að þetta mál verði tekið til umræðu í þinginu og það strax á morgun. Ég held að þetta geti ekki gengið lengur.
    Við höfum hlustað á hæstv. ráðherra ræða þetta mál í fjölmiðlum. Þeir hafa svarað spurningum hér í þinginu, það hefur ekkert gerst af því sem menn hafa talað um að ætti að gerast og tíminn er auðvitað runninn út. Og hv. Alþingi getur ekki beðið endalaust eftir því að menn nái samkomulagi um það sem hér hefur verið á ferðinni og menn hafa kallað ýmsum óvirðulegum nöfnum. Ef þessi ríkisstjórn er ekki fær um að koma sér saman um það sem hæstv. forsrh. kallar tittlingaskít þá á hún að fara frá.