Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 14:42:51 (3641)


[14:42]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Frv. nokkurn veginn samhljóða því frv. til lyfjalaga sem hér liggur fyrir var til umfjöllunar í þinginu og í heilbr.- og trn. þingsins sl. vor og var lögð mikil áhersla á það þá að afgreiða það frá þinginu og unnið af miklum ákafa í nefndinni að því. Það verður að segjast eins og er að það tókst blessunarlega að forða afgreiðslu málsins á því þingi. Ég hygg nú að að öllum öðrum ólöstuðum hafi það kannski verið þingflokkur Sjálfstfl. sem kom í veg fyrir að þetta mál færi í gegnum þingið þá þó að það hafi vissulega verið einnig mikil andstaða við frv. í stjórnarandstöðunni eins og reyndar hefur komið fram hér við 1. umr. um þetta frv. Í sumar hefur síðan verið unnið með frv. og á því hafa orðið talsverðar breytingar sem að mínu mati eru flestar til bóta. Þessar breytingar eru reyndar ekki veigamiklar, þetta eru ekki breytingar á meginefni frv. en engu að síður breytingar allnokkrar á einstökum liðum sem eins og ég segi eru flestar til bóta. Meginefnið stendur þó óhaggað og það má kannski segja að það megi lista það upp í fjórum liðum í hverju meginbreytingin í lyfjamálum felst ef þetta frv. nær fram að ganga.
    Í fyrsta lagi á að koma á frjálsri samkeppni í lyfjasölu og þá reyndar fyrst og fremst í smásölunni.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv. að verðlagning á lyfjum verði frjáls, fyrst um sinn eingöngu á lausasölulyfjum en síðar og það kemur fram í greinargerð með frv. einnig á lyfseðilsskyldum lyfjum. Í frv. er hins vegar sett hámarksverð á lyfseðilsskyldu lyfin til að byrja með meðan þessi tilraun um frjálsa verðlagningu er gerð.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv. að heimilt verði að auglýsa lausasölulyf og það er auðvitað alveg nýtt því að hingað til hefur verið bann við auglýsingum á lyfjum.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að heimila samhliða innflutning á lyfjum, þ.e. það sé hægt að flytja inn lyf frá öðrum markaðssvæðum en gert er í dag og þá er hugsanlegt að það verði farið yfir á

ódýrari markaðssvæði eins og Portúgal eða Suður-Evrópu og flutt inn lyf þaðan sem eiga í eðli sínu að vera eins og lyf sem fyrir eru á markaðnum. Að hluta til er hér um EES-mál að ræða eins og hér hefur komið fram og á það fyrst og fremst við um að það á að vera heimilt samkvæmt ákvæðum EES að leyfa lausasölulyf og það á að vera heimilt að stunda samhliða innflutning. Þessar tvær breytingar verðum við að gera vegna aðildar okkar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þessar breytingar eru umtalsverðar. Þetta eru stórar breytingar og mjög vandmeðfarnar.
    Við vitum öll hvert er markmið auglýsinga. Þó að þær hafi ákveðið upplýsingagildi og það sé að koma upplýsingum á framfæri við almenning og neytendur, þá er markmið þeirra auðvitað fyrst og síðast það að auka neyslu, að auka eftirspurn eftir einhverri vöru. Og í þessu tilviki er verið að stíla upp á það að heimila auglýsingar til að auka eftirspurn eftir lausasölulyfjum. Þetta er ekki bara spurningin um að koma lausasölulyfjum á framfæri heldur er verið að auglýsa til að auka neysluna.
    Samhliða innflutningur getur, ef vel tekst til og það er væntanlega markmiðið með þeirri heimild, haft það í för með sér að verð lækki. Það þarf þó ekkert að gerast að verð á lyfjum sérstaklega lækki við samhliða innflutning vegna þess að kröfur um uppruna lyfjanna, um merkingar, um upplýsingar sem fram koma á lyfjunum verða að vera mjög strangar. Og það er alltaf verið að gera þær kröfur strangari og strangari innan EES þannig að það er talsvert mikið batterí sem þarf í kringum þennan samhliða innflutning og mikið eftirlit. Það þarf t.d. að kanna uppruna lyfjanna og það kostar allt sitt og ég vil segja að þetta er mjög mikilvægt atriði, þessi eftirlitsþáttur, vegna þess að eins og málin standa í Evrópu núna, þá eru 5% lyfja fölsuð og þessi fölsuðu lyf eru stórhættuleg. Þau eru í mörgum tilvikum lífshættuleg. Þess vegna er mikilvægt að hafa eftirlit með upprunanum.
    Mér skilst að eins og málum háttar í dag, þá séu svona um það bil 3 þúsund lyfjategundir á markaði og aðeins 50--100 þeirra séu þannig að það borgi sig að fara í samhliða innflutning á þeim, það sé það mikil neysla í þessum lyfjum að það borgi sig að fara í samhliða innflutning. Og auðvitað getur samhliða innflutningur á þessum lyfjum haft í för með sér lækkun á vöruverði. Í Danmörku er samhliða innflutningur hvað öflugastur og það eru um 12% lyfja sem koma þannig inn í landið, þ.e. í samhliða innflutningi, og það þykir óvenju hátt hlutfall. Það má búast við því að það verði lægra hér, enda er það víst að breytast líka í Danmörku vegna þess að kröfur eru svo auknar um eftirlitið á samhliða innflutningi. En þessar breytingar sem eru EES-breytingar, annars vegar um að auglýsa lausasölulyfin og hins vegar að heimila samhliða innflutning, geta verið mjög afdrifaríkar og haft mikil áhrif og til þess að hægt sé að meta þessi áhrif hefðu heilbrigðisyfirvöld átt að láta þar við sitja, gera þessa breytingu á lyfjalögunum vegna þess að samningurinn býður að við eigum að gera það, en láta þar við sitja svo hægt verði að meta áhrifin af þessum gerðum. Hvernig í ósköpunum ætlum við að fara að því að meta áhrifin af þessum breytingum sem fylgja EES, ef við umturnum öllu lyfjakerfinu um leið? Það verður ekki nokkur leið að einangra þessa áhrifaþætti og það mun þýða það að ef þetta fer úr böndunum sem ég óttast, að lyfjakerfið okkar fari úr böndunum með þessum breytingum, þ.e. með frjálsu samkeppninni og frjálsu verðlagningunni, þá mun það þýða það að þeir sem hafa kannski verið hvað andsnúnastir EES munu koma og segja: Þetta er allt vegna aðildar okkar að EES. Allir þessir skafankar sem munu koma fram á lyfjakerfinu verða auðvitað settir á reikning EES og það er ekki nema eðlilegt að menn rökfæri með þeim hætti og alveg við því að búast.
    Ég vil vara eindregið við því að þetta sé gert og mér finnst lagasetningin hér og lagafrv. sem hér hafa komið fram bera svolítinn keim af því að hér eins og víða annars staðar sé reynt að gera ýmsar kerfisbreytingar í skjóli EES. Það eru ákveðnir hlutir sem fylgja EES og sem við verðum að ganga í gegnum og svo er skrefið stigið aðeins lengra og gerðar ýmsar kerfisbreytingar sem alls ekki eru nauðsynlegar. Og þetta er t.d. gagnrýni sem kemur sérstaklega frá þingmönnum á EB-þinginu á Svía vegna þess að Svíar eru að sækja um aðild að EB, að sænska ríkisstjórnin sé sýknt og heilagt að gera einhverjar kerfisbreytingar og segja: Við verðum að gera þetta, við verðum að laga okkur að Evrópumarkaðinum og EB, en það sé engin nauðsyn. Þeir gangi miklu lengra, Svíar séu orðnir kaþólskari en páfinn og geri ýmsar mjög vafasamar kerfisbreytingar með tilvísun til aðlögunar að EB og þessu vil ég vara við.
    Eins og ég sagði þá er frjáls samkeppni viðamikill þáttur í þessu frv. Það er í heildsölunni með samhliða innflutningi og smásöluna á að gefa frjálsa að vissum skilyrðum uppfylltum. Þarna er á ferðinni sú markaðshugmyndafræði að aukin samkeppni muni leiða til lægra vöruverðs. Það er svo sem reynslan í smásöluversluninni. Við vitum að Hagkaup og Bónus og fleiri stórmarkaðir hafa aukið samkeppnina á markaðnum og leitt til lægra vöruverðs hvort sem það er tímabundið eða varanlegt. En reynsla okkar í smásöluversluninni er líka sú að aukin verðmunur hefur orðið milli höfuðborgar og landsbyggðar í smásölu. Ég held að þetta muni gerast í lyfjunum vegna þess að ákveðið hámarksverð er sett á lyfin núna. Ekki lausasölulyf því þar er þetta algerlega frjálst heldur er sett hámarksverð á lyfseðilsskyld lyf. Ég hygg að það hámarksverð muni gilda á landsbyggðinni. Að litlu apótekin sem hafa ekki þessa stóru markaði muni vera með lyfin á hámarksverði en síðan muni stórmarkaðirnir --- við vitum að stórmarkaðirnir, svo sem Bónus og Hagkaup, ætla sér að koma upp lyfjahornum --- vegna mikillar veltu og vegna magninnkaupa og ýmissa slíkra hluta geta boðið lægra verð á lyfseðilsskyldum lyfjum. Þá erum við komin með tvö lyfjakerfi í landinu, þ.e. við erum ekki með sama verð á lyfjum fyrir fólk sem býr úti á landsbyggðinni og fólk

sem býr í Reykjavík nema fólk taki upp á því að panta öll lyf frá Reykjavík frá þessum stórmarkaðsapótekum. Þá fer nú að detta botninn úr lyfsölunni úti á landi.
    Þetta held ég að muni nánast óhjákvæmilega gerast. Það er alls ekki hægt að þola vegna þess að lyfsala er partur af heilbrigðiskerfinu og við eigum öll að sitja við sama borð þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og öll að borga sama gjald fyrir þá þjónustu sem þar er veitt, hvort sem við búum í Reykjavík eða úti á landi.
    Lægra vöruverð sem leiðir gjarnan af samkeppni byggir ekki síst á aukinni neyslu, þ.e. það er hægt að ná niður vöruverðinu með aukinni samkeppni vegna þess að neyslan eykst. Þannig náum við lægra vöruverði. Þetta mun ekki síst gilda varðandi lyf sem afgreidd eru án lyfseðils, þ.e. lausasölulyf. Um þetta eru allir umsagnaraðilar sammála. Allir sem hafa sent heilbr.- og trn. umsagnir um þetta mál og gerðu það í fyrra eru sammála um það að aukin samkeppni og um leið heimild til að auglýsa lyf muni leiða til aukinnar lyfjanotkunar á lausasölulyfjum
    Það þarf ekkert að velta vöngum yfir þessu. Þetta mun gerast. Um leið og það eru komnir fleiri útsölustaðir, aukin samkeppni, auglýsingar og hugsanlega lægra verð mun neyslan aukast. Þetta hefur gerst í löndunum allt í kringum okkur.
    Eins og ég sagði áðan á þetta fyrst og fremst við um lausasölulyfin eins og málið stendur í frv. en jafnframt segir í grg. með frv. að hugmyndin sé að færa frelsi í verðlagningu út í lyfseðilsskyldu lyfin síðar meir og þetta sé tilraun sem nú sé verið að gera með lausasölulyfin. Þetta er að mínu mati, eins og ég sagði áðan, algerlega andstætt öllum heilbrigðissjónarmiðum og algerlega fráleitt.
    Hér varð talsverð umræða um lyf og matvæli og kannski kastaði ráðherra upp boltanum þegar hann mælti fyrir frv. þegar hann bar saman lyf og matvæli. Lyf eru ekkert venjulegar vörur eins og matvara, ekkert frekar en áfengi og tóbak. Áfengi, tóbak og lyf er í sérflokki hvað vörutegundir varðar og mér finnst frelsishugtök, af því að þau eru svo gjarnan notuð þegar kemur að frelsi markaðarins, eigi ekkert erindi í slíka umræðu. Við hljótum fyrst og fremst að velta því fyrir okkur hvernig við getum tryggt góða heilbrigðisþjónustu sem allir eiga aðild að og hvernig við getum dregið úr lyfjanotkun vegna þess að lyf eru eitur eins og hér kom líka fram og við eigum að reyna að takmarka notkun þeirra eins og við mögulega getum. Og frelsishugtakið --- þ.e. frelsi manna til að setja upp slíkar verslanir --- ég gef mjög lítið fyrir í þessari umfjöllun allri. Því frelsi er ekkert hugtak sem lifir sjálfstæðu lífi heldur verða menn að hugsa: Frelsi til hvers og frelsi frá hverju líka erum við að tala um?
    Stéttarfélag lyfjafræðinga sendi umsögn þar sem tekið er á þessu og bent á að heilbrigðisþáttur lyfjadreifingarinnar sé ekki tryggður í þessu frv. Þeir benda á að 12% innlagna á sjúkrahús í Danmörku séu vegna rangrar notkunar lyfja. Það segir okkur að þetta er mjög vandmeðfarið efni sem þarna er um að ræða og það þarf að tryggja mjög vel lyfjafræðilega þjónustu við almenning og það virðist ekki vera nægilega vel byggt inn í lögin. Lyf eru nefnilega ekki venjuleg vara sem hægt er að selja yfir búðarborð. Og ekki bara vegna þess hvaða efni þarna er um að ræða heldur líka vegna þess að lyf eru fyrst og fremst greidd af almannafé. Þau eru að stærstum hluta greidd af almannafé. Þetta er því ekki bara spurning um að neytandi og kaupmaður eigi viðskipti yfir borð því að sameiginlegir sjóðir okkar koma þar mjög sterkt inn í. Það skerðir enn frekar þessa hugmynd um markaðsfrelsið að það skuli vera þarna alls ráðandi.
    Að mínu mati leiðir þetta frv., eins og það liggur fyrir, nánast til einskis annars en þess að lyfjaneysla aukist og það muni verða afleiðingin af þessu frv. ef það nær fram að ganga. Og mér finnst reyndar með þetta frv. í heildina tekið að það sé ekki mjög rismikið. Í grg. er t.d. engin fagleg úttekt á lyfjamálunum, á lyfjamarkaðnum, á markaðshlutdeild eða því hvernig lyfjamál standa almennt. Það er engin slík fagleg úttekt á ferðinni. Það eru engar vangaveltur um málið og hugsanlegar afleiðingar af þessu öllu saman. Nálgunin er eingöngu út frá samkeppnissjónarmiðum og fjárhagsleg út frá sjónarhóli ríkissjóðs vegna þess að menn virðast sjá það fyrir sér að verð á lyfjum lækki sem ég er ekkert sannfærð um að gerist nema þessir stóru aðilar nái þessu undir sig fljótlega og geti boðið lægra verð hver svo sem framtíðin verður þegar þeir eru búnir að ryðja öðrum samkeppnisaðilum út af markaðnum. Ég efast hins vegar mjög um að það verði nokkur þjóðhagslegur sparnaður af þessu og eiginlega þvert á móti. Ég held að þetta verði ekki til að bæta heilbrigðisþjónustuna.
    Í gær voru talsvert miklar fréttir af lyfjanotkun og mikilli notkun á geðlyfjum sem hér hefur tíðkast að undanförnu. Það sýnir sig að þetta er hlutur sem við verðum með einhverjum ráðum að taka á og ég held að við höfum miklu betri tæki til þess á meðan lyfjamálum er háttað eins og þeim er í dag en ef þetta verður algerlega gefið frjálst eins og lagt er til í frv.
    Heilbrigðisyfirvöld hafa verið að státa sig af því að hafa náð 2,5 millj. kr. sparnaði í lyfjaútgjöldum. Vissulega hefur mönnum tekist að ná niður t.d. notkun á fúkkalyfjum og eru núna að reyna að taka á notkun á magalyfjum sem við vitum að er allt of mikil. Það er ekki nema gott um það að segja. En ég held einmitt að þau hafi tækin til þess vegna þess hvernig lyfjadreifingunni er háttað og hvernig þessum málum öllum er háttað í dag. Mér finnst eins og menn séu að láta frá sér ákveðið eftirlit og stjórn með frv. sem hér liggur fyrir.
    Við vitum það öll að lyfsalar hafa gjarnan verið mjög hátt skrifaðir þegar kemur að skattamálunum. Þar hafa lyfsalar verið í hópi tekjuhæstu manna hér á landi og við sjáum öll, held ég, ofsjónum yfir þeim miklu tekjum sem margir lyfsalar hafa. Það er engin ástæða til þess að búa þannig um hnútana að örfáir menn geti setið að mjög svo feitum brauðum og kannski malað gull á kostnað almennings því eins og ég segi þá eru það sameiginlegir sjóðir sem fyrst og fremst greiða þetta. Hins vegar held ég ekki að það þurfi að breyta öllu kerfinu þó mönnum ofbjóði þessar tekjur og að það sé hægt að taka á því með öðrum hætti.
    Hins vegar eru ákveðnir lyfsalar og lyfjaverslanir sem eru ekki of sælar af sínum hag. Eins og málum er háttað í dag er fimmfaldur munur á veltu stóru og litlu apótekanna. Stóru apótekin hafa talsvert mikinn hagnað en litlu apótekin hafa mörg hver lítinn sem engan hagnað og jafnvel tap. Ef menn vilja taka á lyfjamálunum finnst mér að það eigi að gerast með það fyrst og fremst í huga að bæta heilbrigðisþjónustuna, því lyfsalan er partur af heilbrigðisþjónustunni, og reyna að draga úr kostnaði við lyf. Það held ég að við gerum með því að ná niður neyslu lyfja og þá þurfum við að einbeita okkur ekki síst að læknunum sem ávísa á þessi lyf. Ég held að menn geti gert það innan ramma þess kerfis sem við höfum núna og það sé mjög varhugavert að fara út í þær miklu kerfisbreytingar sem hér eru boðaðar.