Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:20:50 (3643)


[15:20]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þegar mælt var fyrir þessu frv. á síðasta þingi gerði ég grein fyrir andstöðu minni við það og tel ekki ástæðu til að endurtaka þá ræðu. Þingflokkur Alþb. hefur farið vandlega yfir frv. og fulltrúi þess í heilbr.- og trn., hv. 4. þm. Suðurl., hefur gert ítarlega grein fyrir skoðunum okkar á þessu frv.
    Það eru þó örfá atriði sem mig langar til að ítreka hér án þess að ég þurfi að lengja mjög þessa umræðu því að þetta frv. snýst um grundvallarbreytingar. Lyfsala er hluti af heilbrigðisþjónustu og má ekki og á ekki að vera annað. Íslendingar geta fagnað þeirri gæfu að þeir eru hraust fólk og langlíft og við teljum okkur eiga góða heilbrigðisþjónustu og lyfjasala hefur verið örugg og áfallalaus enda lyfjaeftirlit hér í landi mjög ábyrgt. Mikið starf var unnið hér fyrir nokkrum árum í skoðun á notkun lyfja í landinu undir forstöðu Almars Grímssonar lyfjafræðings og núverandi lyfsala og við búum enn að því verki. Það hefur verið viðtekin venja hér á landi og viðtekin skoðun að lyf séu ekki markaðsvara heldur hluti af því að hjúkra fólki og lækna. Sú breyting er nú á döfinni að gera lyf að almennri markaðsvöru. Þetta tel ég mjög hættulegt og tvímælalaust til skaða fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu.
    Það hefur margkomið fram hér hjá ýmsum hv. ræðumönnum að aukin samkeppni er til þess gerð að hvetja til aukinnar notkunar þar sem hver berst um bitann við annan. Víst er að þátttaka okkar í EES mun að mörgu leyti eyðileggja fyrri stefnu fyrir okkur, við erum tilneydd að leyfa auglýsingar á lyfjum sem við höfum hingað til ekki tekið í mál og fundist með öllu óeðlilegar en við því er sjálfsagt ekki að gera. En það er annað sem gerist með inngöngu okkar í EES og það er að alls kyns framleiðsla sem Íslendingar hafa ekki kallað lyf, svo sem alls kyns náttúrumixtúrur af öllu tagi, lyf sem ekki eru gerð af lyfjafræðingum heldur af alls kyns hómópötum, koma nú til sölu sem lyf og ég held að það sé fullkomlega ófyrirséð hvað þetta á eftir að þýða. Slíkar vörur má nú auglýsa sem lyf þó að töluvert skorti á að samkomulag sé um það að þau séu öll til bóta. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur gert sér fulla grein fyrir því hver grundvallarbreyting þetta er á meðferð lyfja í landi hér.
    Íslendingar hafa ekki misnotað lyf í miklum mæli, það liggur fyrir í skýrslum. Með þau hefur verið farið af ábyrgð og ég tel alvarlegt mál ef þessu á að fara að breyta. Það hefur þegar komið fram og ég benti einmitt á það í ræðu minni í fyrra að Danir hafa tekið þá ákvörðun að hætta við að breyta lyfjakerfinu hjá sér en Bandaríkjamenn og Japanir, sem hafa búið við þetta fulla frelsi í sölu lyfja, eru aftur á móti að reyna að snúa frá þeirri stefnu. Og það liggur fyrir að í Bandaríkjum Norður-Ameríku er smásala lyfja frjáls en kostnaður hins opinbera þar er orðinn svo óheyrilegur að bandarísk yfirvöld líta til norræna fyrirkomulagsins á lyfsölu til þess að fara eftir. Þannig að við erum dálítið seinheppin að mínu viti að fara að breyta þessu nú. Eins og hv. 10. þm. Reykv. benti á hér áðan tel ég afar óæskilegt að taka við breytingunum sem eru óhjákvæmilegar vegna EES-samningsins og ráðast jafnframt í þessa grundvallarbreytingu á löggjöfinni. Ég held að það hefði verið nær að bíða með hana þangað til sýnilegt væri hvaða áhrif EES hefur á lyfjasölu í landinu.
    Ég tók það fram í ræðu minni í fyrra að ég óttaðist að hér gysu upp lyfsölur á öðru hverju horni í þéttbýlinu en í minna mæli á landsbyggðinni. Sannleikurinn er nú sá þó að menn sjái ofsjónum yfir ríkidæmi nokkurra lyfsala að ég er ekki viss um að þeir hafi auðgast svo mjög á lyfjunum. Þessir lyfsalar hafa selt í miklum mæli alls kyns aðrar vörur, snyrtivörur, nærföt, hreinlætisvörur af öllu tagi og slíkar vörur hafa án efa verið meiri gróðavegur í lyfsölunum heldur en sjálf lyfin, sem betur fer liggur mér við að segja.
    Eitt er þó einkennilegt í sambandi við lyfsölu í landinu sem lítið hefur komið upp á borðið en það er hvers vegna lyfsalar t.d. úti á landsbyggðinni mega ekki selja dýralyf. Þegar spurst er fyrir um þetta þá er svarið það að sala á dýralyfjum sé eins konar tekjuuppbótt fyrir dýralækna á afskekktum stöðum. Ég hafði ekki gert mér alveg grein fyrir því að málið væri hugsað þannig og tel að það væri nær að tryggja dýralæknum mannsæmandi tekjur án þess að leita þessarar leiðar því vitaskuld gæti það skipt lyfsala úti á landsbyggðinni miklu máli að sinna meira sölu dýralyfja.
    Síðan getum við komið að því í hversu miklum mæli verður um samkeppni að ræða. Ég veit ekki til þess að það hafi komið hér fram að t.d. fyrirtæki eins og Pharmaco hefur umboð fyrir 70% innfluttra lyfja. Hver verður þá samkeppni í smásölu á lyfjunum frá Pharmaco? Ég held að hún geti varla orðið mjög mikil. Þannig að allt þetta samkeppnishjal held ég að sé meira en vanhugsað. Það hefur hins vegar komið fram að auðvitað verður samkeppni á lausasölulyfjunum. Þar eru menn alfrjálsir að leggja á eins og þeim sýnist og það munu þeir auðvitað nota því að þeir hafa ekki alveg ráð á öllum lyfjum. Það er þak á lyfseðlalyfjum þannig að það verða lausasölulyfin sem verða samkeppnislyfin og þar með þessi hómópatísku lyf sem við fáum af fullum þrótti inn á markaðinn sem lyf sem þau hafa ekki kallast hingað til. Þannig að ég held að hér sé að mörgu að huga.
    Í þessu frv. er heimild til heilsugæslustöðva að stofna til lyfjasölu ef ekki er lyfjafræðingur á staðnum eða lyfsala. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að þar með er ríkið komið í samkeppni við einkaframtakið þannig að þetta æpir allt hvað á annað að mínu viti.
    Ég ætla ekki að eyða tímanum í að endurtaka það sem hér hefur þegar verið sagt að allar þær nefndir sem nú skal stofna til að stýra þessum málum eru að mínu viti í allt of miklum mæli í valdi hæstv. heilbrrh. Það nær auðvitað engri átt og er ólýðræðislegt með öllu að ráðherra geti skipað heilu nefndirnar sem fagmenn ættu auðvitað að hafa um að segja að því er lýtur að stjórnun líka. Ráðuneytið hefur ekkert það til að bera sem nægir til þess að það geti lagt faglegt mat á það hverjir skuli sitja í slíkri nefnd og ég tel að hv. heilbr.- og trn. sé tilneydd til þess að breyta þessu.
    Enn er það atriði sem ég tel vert að minna á og það er það að því fleiri apótek, því fleiri lyfsölur sem settar eru á stofn í landinu, því meiri hætta er á að áhangendur eiturlyfja reyni að verða sér úti um lyf. Það hefur verið töluvert verk að verja lyfsölur fyrir slíku fólki og því fleiri sem apótekin eru því erfiðara verður það að sjálfsögðu. Í landinu eru um 43 apótek og ég hef engan heyrt kvarta yfir því að það væri ekki nóg, svo einfalt er það nú. Mér er ekki kunnugt um að afgreiðsla lyfja hafi nokkurs staðar verið með þeim erfiðleikum að fólk hafi ekki fengið þau lyf sem það þarfnaðist. En að ætla sér að fara að gera lyf að almennri markaðsvöru þar sem menn eiga, að mér skilst, að hlaupa á milli staða og líta ofan í það hvar lyfið sé ódýrast held ég að sé eins og hver annar barnaskapur. Auðvitað fer veikt fólk með sinn lyfseðil í næsta apótek hvort sem hæstv. heilbrrh. vill endilega koma á einhverri samkeppni. Ég hef enga trú á því að fólk sé hlaupandi á milli einhverra apóteka, jafnvel þó þau væru í samliggjandi götum. Venjulega vill fólk fá sín lyf sem fyrst og mun að sjálfsögðu ekki sinna því mjög mikið hvort það er aðeins ódýrara á einum stað en öðrum. Ég held að Íslendingar eigi langt í land með að fara að líta á lyf sem einhverja vöru sem þeir eru að kaupa. Menn kaupa slíkt ekki allajafna nema af brýnni nauðsyn.
    Ég held því að það sé mikil vinna fram undan hjá hv. heilbr.- og trn. við að gera frv. þannig úr garði að stjórnvöld missi ekki öll tök á þessum málum.

    Í ritgerð eða skýrslu sem unnin var á vegum Háskóla Íslands fyrir viðskipta- og hagfræðideild og Hrannar Erlingsson stjórnaði segir svo í lokaorðum, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa niðurlag þessarar skýrslu en þar segir Hrannar Erlingsson svo:
    ,,Markmiðið með þessari ritsmíð var að hún yrði innlegg í umræðuna um hvernig fyrirkomulag við viljum hafa á smásölu lyfja hérlendis. Þar sem flestar hugmyndir sem fram hafa komið undanfarið hafa beinst að auknu frjálsræði í lyfsölunni, þá einbeitti ég mér að þeim þáttum, kostum og göllum. Niðurstaðan varð ótvíræð: Aukið frelsi í smásölu lyfja er við núverandi aðstæður afar óæskilegt. Ástæður þess eru fjölmargar en nefna má þætti eins og aukinn kostnað, hættu á aukinni neyslu, mismunun milli landsbyggðarfólks og höfuðborgarbúa og svo mætti lengi telja. Það verður að viðurkennast að sem fylgismanni frjálsrar samkeppni á flestum sviðum þá olli þessi niðurstaða mér talsverðum vonbrigðum. Vonandi er þetta þó undantekningin sem sannar regluna.``
    Svo segir Hrannar Erlingsson í lokaorðum ritgerðar sinnar. Og ég hygg að hann hafi rekið sig á einmitt þetta atriði að lyf eru engin venjuleg markaðsvara, eiga ekki að vera það og mega ekki vera það. Og það er skylda Alþingis Íslendinga að standa ekki fyrir lagabreytingu sem leysir upp það ágæta kerfi sem við höfum haft bæði í notkun og afgreiðslu lyfja. Það hefur enginn kvartað yfir að þau mál væru ekki í góðu lagi og Íslendingar hafa ekki hingað til hlaupið eftir auglýsingum sem nú munu koma bæði á lyfjum sem eru viðurkennd lyf og þeim lyfjum sem ekki eru viðurkennd af fagfólki og það er skylda okkar að koma í veg fyrir að slíkri óáran verði hleypt lausri.