Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:54:18 (3649)


[15:54]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst aðeins eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún sé að sverja af sér íhaldssemina sem ég taldi mig greina hjá stjórnarandstöðunni. En ég held að það sé alveg ljóst að okkur greinir á um það hvað geti orðið þessari ríkisstjórn sem við höfum í dag til hróss. Þó ég telji að það sé henni til hróss að hún sé jafnvel á undan ríkisstjórn Carls Bildt þá er greinilegt að hún telur svo ekki vera.
    En hvað varðar þær umræður sem áttu sér stað í þingflokki sjálfstæðismanna á sl. vetri og afstöðu þingmanna flokksins, annarra en mín, þá ætla ég að biðja hv. þm. að sýna örlitla þolinmæði því væntanlega gætu komið frekari upplýsingar um það í ljós þegar líður á umræðuna.