Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:58:28 (3653)


[15:58]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kom oft fram í ræðu þingmannsins á undan að hann hefur ekki mikið farið út fyrir Reykjavíkursvæðið því hann var að tala um fyrirhyggjuna sem fólk ætti að hafa og var þá að tala um 11. gr. frv. þar sem fólk ætti að hafa fyrirhyggju á því ef það fengi einhverja erfiða sjúkdóma allt í einu þá mætti lyfjafræðingurinn ekki láta sjúklinginn hafa lyf í litlum umbúðum og setti svo samasemmerki við júgurbólgu í kúm þar sem bændur ættu að sýna fyrirhyggju og eiga lyf. Þessi ræða þingmannsins sýnir bara að hann horfir bara yfir Reykjavíkursvæðið og ekki lengra heldur en það. Hann veit ekkert hvað er að gerast úti á landi. Það er það alvarlega við alla þessa frjálshyggju að hún er einmitt bara stödd á þessu svæði og ekkert hugsað um landsbyggðina.