Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:01:00 (3655)


[16:01]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Frv. um þetta efni var lagt fram á síðasta Alþingi en varð þá eigi útrætt. Það frv. sem hér liggur fyrir til nýrra lyfjalaga er að stofni til byggt á frv. sem þá var lagt fram og er í meginatriðum sambærilegt. Þó hafa verið gerðar á frv. nokkrar breytingar. Þær breytingar tel ég yfirleitt vera til bóta og vil þakka hæstv. ráðherra og þeim öðrum sem staðið hafa að þeim breytingum fyrir það að frv.

skuli hafa verið breytt í þá átt.
    Þrátt fyrir þetta tel ég mér bæði rétt og skylt að greina frá því hér þar sem þetta frv. er flutt sem stjfrv. að um þetta mál hafði ég fyrirvara í mínum þingflokki. Ég mun ekki taka tíma til þess að ræða frv. efnislega en það væri vitaskuld hægt að draga fram ýmis vafaatriði varðandi það kerfi sem frv. byggir á sem leiðir til þess að ég hef ekki sannfærst um að það kerfi muni leiða til heilla.
    Ég vil því óska eftir því að hv. heilbr.- og trn. sem fær þetta mál til meðferðar og hæstv. ráðherra taki mál þetta til gaumgæfilegrar athugunar áður en það kemur til 2. umr. og skoði gaumgæfilega þær umsagnir og þau gögn öll sem liggja fyrir í þessu máli sem fela í sér margháttaðar upplýsingar. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að leitast við að kynna sér reynslu annarra þjóða af lyfsölumálum, t.d. þar sem lyfsala hefur verið frjáls eða sem frjálsust, svo sem er t.d. í Bandaríkjunum og í Evrópu, eins og minnt hefur verið á í þessari umræðu, í Þýskalandi. En í þessum þjóðlöndum hygg ég að lyf hafi verið hvað dýrust miðað við önnur sambærileg lönd.
    Ég tel einnig, þó að það hafi verið komið aðeins að því í umræðunni áður, eðlilegt að nefnd sem um málið fjallar kynni sér hvað leiddi til þess að stjórnvöld í Danmörku hurfu frá því að breyta lyfsölumálum þar í landi í þá átt sem gert er ráð fyrir í þessu frv. þrátt fyrir það að slík breyting hafi verið undirbúin í mörg ár. Eftir alla þá umræðu sem þar hafði farið fram og eftir allan þann undirbúning sem þar hafi orðið til breytinga á lyfsölukerfinu í svipaða átt og liggur fyrir í þessu frv. hurfu stjórnvöld þar í landi frá því að taka upp hið nýja kerfi þegar menn höfðu kynnt sér það eftir allan þann tíma.
    Ég tel að í þessu séu mjög mörg vafaatriði svo ekki sé meira sagt og ég lít svo til að við getum ekki vegna þeirra orðaskipta sem hér fóru fram fyrir skömmu í umræðunni litið á þessi mál út frá hagsmunum markaðarins, eins og það var þar nefnt, heldur út frá hagsmunum þeirra sem nota lyfin og þeirra sem greiða fyrir lyfin. Það eru vitaskuld sjúklingar og það er hið opinbera í gegnum Tryggingastofnun ríkisins.
    Ýmislegt fleira væri hægt að tína til sem ég vildi óska eftir að hv. nefnd tæki til athugunar en við 1. umr. tel ég ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt um þetta efni. Ég vil aðeins láta koma fram minn fyrirvara þannig að það komi þá ekki neinum á óvart ef frv. kemur síðar á þinginu til 2. umr.