Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:21:44 (3659)


[16:21]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir svörin og ætla kannski að snúa mér aðallega í þessari umræðu að hans seinna svari en það snýr auðvitað að því hvort hægt sé að tryggja sama verð alls staðar í landinu. Ef menn ætla að líta á lyfsöluna og lyfjadreifinguna í landinu sem hluta af heilbrigðisþjónustunni og menn líta á það að heilbrigðisþjónustan eigi að vera á sama verði fyrir alla landsmenn, þá er það alveg klárt af 39. og 40. gr. frv. að það er útilokað að tryggja öllum einstaklingunum í landinu sama verð á lyfjum. Það kann að vera í lausasölunni, erfitt að gera það innan viðkomandi svæða, en aðalverðmunurinn myndast milli svæða vegna þess að það er engin forsenda fyrir rekstri litlu apótekanna víða um land ef menn ganga út frá hámarksálagningunni. Því munu þau apótek þurfa að hækka verðið á lausasölulyfjunum upp úr öllu valdi til þess að hafa rekstrargundvöll fyrir apótekin því það er alveg klárt að það verður hærra verð á magnylpillum, eins og ég tók dæmi um áðan, á Höfn í Hornafirði heldur en í Reykjavík eða á Hellu eða Hvolsvelli heldur en í Reykjavík. Þannig að menn eru með þessu frv. ekki að stefna að því að þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar sé á sama verði fyrir alla landsmenn.