Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:26:37 (3662)


[16:26]
     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta síðasta sem kom fram hjá hv. þm. er hálfsérkennilegt vegna þess að með hverjum nýjum skemmtistað sem opnar eða hverjum nýjum veitingastað sem opnar þá eykst auðvitað samkeppni á sviði vínveitinga en það er ekki aðalatriði þessa máls. Út af því sem hv. þm. sagði um Sjálfstfl. og ágreininginn innan hans þá held ég að hv. þm. sé að kasta grjóti úr glerhúsi. Hún er að tala um 26 manna þingflokk og það er ekki óeðlilegt þó stöku sinnum séu eitthvað skiptar skoðanir í svo stórum hópi. Það sem er hins vegar athyglisvert er það hvernig í fimm manna þingflokki er jafnoft hægt að gera ágreining um mál eins og virðist vera hjá Kvennalistanum, þar sem er ágreiningur um mál af öllu tagi, stór og smá, m.a. eitt af því sem snertir þetta frv. sem hér er verið að tala um, þ.e. hið Evrópska efnahagssvæði. Þannig að ég held að hv. þm. Kvennalistans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ætti að spara sér frýjuorðin í garð sjálfstæðismanna vegna ágreinings innan flokksins --- já, hún getur hlegið að því. Ég man ekki betur en að hún hafi ein tekið sig út úr í EES-málinu og farið gegn sínum flokkssystrum. Út af fyrir sig var það gott hjá henni í því máli en það sýnir að það er víðar en í Sjálfstfl. þar sem menn geta haft skiptar skoðanir.
    En út af þessu með fyrirkomulag í smásölu lyfja þá skildi ég hv. þm. svo að hún vill hafa þetta í aðalatriðum óbreytt en þó mætti taka upp einhver markaðssvæði. Hvað þýðir það með leyfi, hv. þm.? Hvað eru markaðssvæði á þessu sviði? Er það svo að í sérhverri 5.000 manna byggð, fyrst sú tala er nefnd, eigi að hafa eitt apótek og menn megi þá kannski ekkert versla á öðrum markaðssvæðum, eða hvernig vill hún hafa þetta? Mætti ég biðja þingmanninn að útskýra það aðeins betur hvað er markaðssvæði á þessu sviði.