Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:28:33 (3663)


[16:28]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ágæti þingflokksformaður, það ætti vissulega að vera frjálst að versla hvar sem sem menn vilja. Ef þingmaðurinn vill fara út á Seltjarnarnes og versla í apótekinu þar en ekki í vesturbænum þá á það vissulega að vera frjálst. En við erum einu sinni með það þannig í heilbrigðiskerfinu að við skipuleggjum ákveðnar heilsugæslustöðvar. Það er ekki hverjum sem er frjálst að setja niður heilsugæslustöð hvar sem er og fá framlag af opinberu fé til þess. Í lyfjaverslun er 70% af lyfjunum greitt af opinberu fé og ég sé ekkert athugavert við það að við skipuleggjum ákveðinn fjölda lyfjaverslana á landinu og miðum við fjölda íbúa á bak við hverja lyfjaverslun. Þetta er kerfi sem er víða notað og gefst vel. Þess vegna mætti fjölga lyfjaverslunum í Reykjavík og kannski á Stór-Reykjavíkursvæðinu öllu. En mér finnst eðlilegt að hafa ákveðna viðmiðun á bak við það og ég vorkenni í sjálfu sér ekkert lyfjafræðingum þó þeir verði að ganga að slíku kerfi. Þetta verða bara mjög margir að gera, það geta ekki allir læknar fengið vinnu sem þess óska, ekki allir hjúkrunarfræðingar, því skyldu allir lyfsalar vera frjálsir að því að setja upp lyfjaverslun? Ég get ekki séð nein sérstök rök fyrir því.