Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:29:48 (3664)




[16:29]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá málefnalegu umræðu sem um þetta frv. hefur farið fram í dag, hún hefur um margt verið upplýsandi þótt ég leyni því ekki að í fyrsta lagi undrar mig og í annan stað kom mér eilítið á óvart hversu almennur stuðningur og nánast fölskvalaus stuðningur virðist vera við ástand þessara mála. Það kemur auðvitað á óvart í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa í þessum efnum. Í fyrsta lagi þeirrar staðreyndar að íslenskir notendur lyfja eru að greiða í sömum tilfellum tvöfalt miðað við það sem gerist í nálægum löndum. Láta hv. þm. sér það í léttu rúmi liggja að sjúklingar á Íslandi þurfi að greiða fyrir þennan þátt heilbrigðisþjónustu í sumum tilfellum nánast tvöfalt á við það sem annars staðar gerist? Er það þá fyrirkomulag og niðurstaða mála sem ekki einasta hv. þm. sætta sig við heldur lýsa yfir sérstökum stuðningi við og segja í besta lagi? Ég er þessu auðvitað í grundvallaratriðum ósammála.
    Ég segi það horfandi á þennan veruleika, horfandi á þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar jafnkostnaðarsaman fyrir einstaklingana sem greiða 30% beint úr eigin vasa og fyrir ríkissjóð, fyrir skattgreiðendur sem greiða hin 70%, að hér er um hlut að ræða sem við hljótum og okkur ber skylda til að takast á við og reyna að leita leiða til að lækka álagningu lyfja, til að lækka kostnað við þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar. En auðvitað að sama skapi að tryggja það og gæta þess að þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar sé skapaður rammi öryggis, það sé tryggt aðgengi allra sem á þurfa að halda. Þetta frv. sem hér um ræðir miðar auðvitað að þessum höfuðatriðum, þessum höfuðþáttum sem ég hef hér lýst. Þess vegna árétta ég, virðulegi forseti, að það hefur valdið mér ákveðnum vonbrigðum, satt að segja í annars ágætri og málefnalegri umræðu hér, ég bjóst við því að þótt ýmsir teldu sitthvað í þessu frv. sem mætti betur fara þá heyrðust hér ábendingar um það í hvaða veru við ættum að fikra okkur í þessu sambandi. Því að minni hyggju hljóta hv. þm. að vera sammála þegar þeir skoða fyrirkomulag þessara mála grannt og tala til samvisku sinnar að það skömmtunar- og kvótakerfi, þeir viðskiptahættir sem gilda í þessum efnum, og ég segi viðskiptahættir og segi það af því að ég meina það að það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það að í heilbrigðisþjónustunni --- að hún fái að njóta heilbrigðra viðskiptahátta og gæða en fyrir sem minnstan pening. Það er ekkert lögmál af því að þjónustan er kennd við heilbrigði þá eigi íslenskir skattgreiðendur, þá eigi sjúklingar að sætta sig við að það skipti ekki máli hvað hún kostar. Það er alger grundvallarmisskilningur. Þannig að það hlýtur að vera skylda okkar sem er trúað fyrir fjármunum skattborgaranna, trúað fyrir því að ala önn fyrir og kappkosta að veita sem besta þjónustu fyrir sem minnsta fjármuni, að leita sífellt leiða til að ná þessum ja, stundum mótlægu sjónarmiðum, en oft sjónarmiðum sem fara saman, þ.e. gæði og lágt verð.
    Þess vegna segi ég það og vil undirstrika að það kerfi sköttunar sem hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir og byggist á því að ráðherra heilbrigðismála velur úr umsóknum, gjarnan 10--20 apótekara, sem hafa verið mismunandi lengi í biðinni eftir brauðinu eins og það hefur verið orðað hér, hafa dvalið eins og þeir orða það gjarnan sjálfir í ,,útlegðinni`` nægilega lengi til að njóta nú ætlaðrar gósentíðar í henni Reykjavík, er þetta fyrirkomulag sem hv. þm. vilja festa í sessi?
    Í minni stuttu tíð í heilbrigðisráðherraembætti hef ég þurft að mæla með til forseta Íslands ef ég man rétt skipan tveggja ef ekki þriggja apótekara. Ég hef tæpast haft tíma til annars í mínu ráðuneyti heldur en að svara síma stuðningsmanna umsækjenda sjálfra. Finnst mönnum þetta vera eðlilegt fyrirkomulag mála? Mér finnst það ekki. Þá tek ég nú kannski einn veigalítinn þátt úr úr.
    Ég held og segi það skyldu okkar og ræði þessi mál út frá því að við hljótum að ráðast að því fyrirkomulag þar sem kostnaður frá framleiðenda til notanda hefur í flestum tilfellum tvöfaldast. Ég held að við hljótum að ráðast á kerfi og fyrirkomulag mála þar sem álagning í smásölu er þetta að meðaltali um 60% og þó að sönnu hafi álagning í heildsölu lækkað þá er hún enn þá of há, hún er um 13% ef ég man rétt. Við hljótum líka að fagna því að með tilkomu EES og þess frv. sem hér um ræðir horfum við til þess að í innflutningi verði á verulegar breytingar, verði á hvati til að ná sem hagstæðustum kjörum erlendis fyrir sambærilega vöru með hliðstæðum innflutningi með því sem kallað hefur verið ,,parallel import``. Þess vegna er auðvitað ekkert að því eins og hér hefur verið haldið fram að innflytjendum kunni að fjölga. Við byggjum auðvitað á þessum ströngu reglum og heilbrigðissjónarmiðum varðandi innflutning og meðferð

þessa viðkvæma varnings frá framleiðanda til notanda en það er ekkert að því, nákvæmlega ekkert að því að þessum aðilum fjölgi og almennir viðskiptahættir viðgangist þar.
    Nú er það þannig auðvitað að það eru örfáir aðilar sem hafa þennan innflutning og þessa heildsölu með höndum. Örfáir aðilar sem eru eðli máls mjög ráðandi á markaðnum. Það gerist vegna þess einfaldlega að þetta er háð einkaleyfum og að framleiðslulandið eða það land sem við kaupum frá er alla jafna eitt og hið sama. Nú verður á þessu breyting. Og ég held að við eigum að nota það lag og þær breytingar sem sannarlega verða hér og hv. þm. hygg ég hafa nú allir viðurkennt að væru óhjákvæmilegar til þess að skoða líka aðra þætti þessa gamla og um margt úrelta kerfis í lyfjadreifingu hér á landi.
    Ég vil ekki taka undir það, virðulegi forseti, að á frv. frá síðasta vori og til þessa frv. sem hér er fram lagt endurskoðað hafi ekki verið gerðar neinar breytingar. Þvert á móti hefur hv. þm. Geir Haarde bent réttilega á að það var horft til ábendinga frá hv. þm. og raunar fleirum um tiltekin atriði eins og lyfjaverslunar í dreifbýli. Ég rakti framsögu minni að sérstaklega hafi tveir þættir verið þar skoðaðir. Í fyrsta lagi að tryggja að í samkeppni á smáum svæðum sem hugsanlega mundi leiða til þess að markaðurinn hryndi, þ.e. tveir eða fleiri aðilar færu í hár saman þar sem markaðurinn þyldi það tæpast, væru ákveðnar skorður settar. A.m.k. mundu heimamenn, stjórn viðkomandi heilsugæslustöðva hafa umsagnarrétt þar um og reyna að vega og meta hvernig þróun mála yrði. Í annan stað þar sem lýst var þeim áhyggjum að lyfjafræðingar mundu flykkjast allir hingað á Reykjavíkursvæðið og skilja héruðin sín eftir mannlaus sem ég held að sé alrangt. Ég held það sé alrangt. Staðreyndin er sú að lyfjafræðingum á Íslandi hefur fjölgað allverulega. Það er almennur og mjög mikill áhugi hjá þeim að þeir fái að komast inn í þetta skömmtunarkerfi. Því þetta er um margt ekkert ólíkt því sem þekkist í kvótakerfinu okkar þar sem það er ekkert hægur vandi lengur fyrir aðila sem vilja láta til sín taka með breyttri áherslu, með bættri þjónustu, því hringurinn er lokaður. Það eru aðeins örfáir á ári hverju sem fá til þess tækifæri að bætast við og skapa sér sess á þessu sviði, fá að vinna heilbrigðisþjónustunni vel í lyfjaversluninni. Hvers eiga þeir að gjalda?
    Ég trúi því og veit og treysti því að þessir aðilar, margt ungt fólk með mikinn metnað til að standa sig vel, muni sinna þessari þjónustu út um land. En á sama tíma er þó girt fyrir það með ákveðnu öryggisneti að ef það gerist ekki þá er í þessum undantekningartilfellum heimamönnum og stjórnendum viðkomandi heilsugæslustöðva heimilt að hafa þessa þjónustu með höndum. Þannig að vissulega hefur verið horft til þeirra ábendinga sem fram komu í umræðum um þessi mál. Auðvitað mun reynslan verða ólygnust í þessu og hér staðhæfi ég og reyni að binda það við rök um að við náum þeim meginmarkmiðum okkar að halda úti betra aðgengi gagnvart þessari heilbrigðisþjónustu með jafnmiklu öryggi fyrir lægra verð. Sumir vilja halda því fram hér í þessari umræðu að áhrifin verði í einu og öllu þveröfug. Auðvitað mun reynslan ein kenna okkur í því sambandi.
    Ég vil hins vegar árétta það og undirstrika enn frekar en hér hefur komið fram að við erum að ræða frelsi í verðlagningu á lausasölulyfjum sem eru á bilinu 10--20% af heildarlyfjanotkun þeirri sem hér um ræðir. Stærri er nú sá þáttur ekki. Hinum þættinum er auðvitað markaður mjög ákveðinn og skilmerkilegur bás vegna þess eins að það er ekki nema að litlu leyti á valdi lyfsalanna sjálfra að ákvarða um notkunina, ákvarða um það hvort hún verði mikil eða lítil, heldur eru það auðvitað trúnaðarmenn okkar í heilbrigðisþjónustunni, læknar, sem hafa þessa ábyrgð með höndum. Og heilbrigðisyfirvöld hafa eins og kunnugt er reynt að auka enn frekar á þessa ábyrgð lækna sem auðvitað hefur alla tíð verið fagleg og miðað að því að þessar lyfjaávísanir bættu líðan sjúklingsins en ekki eingöngu það heldur höfum við gert fjárhagslegar kröfur til þessara sömu lækna þannig að þeir hefðu í huga frá einum tíma til annars hina fjárhagslegu hlið málsins. Þar eru bestukaupalistar eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson kom að réttu lagi inn á og þessar merkingar R- og S-lyf, sérlyf og samheitalyf. Þar hefur mjög verulegum árangri verið náð en betur má ef duga skal. Heilbrigðisyfirvöld og heilbrrn. munu kappkosta það enn frekar á næstu mánuðum að fá lækna til liðs um að lækka lyfjaverð gagnvart stóra greiðandanum, ríkinu, skattborgurunum og hinum sjúklingunum, notendum þessara lyfja. Með öðrum orðum, þar verður ekki slakað á eitt andartak heldur enda er verðmyndunin ekki síst á þeim vettvangi. Þess vegna er rétt að undirstrika það að í þessu frv. er ekki verið að létta á þessum náttúrulegu takmörkunum sem fylgja verðmyndun lyfja, þ.e. þessum lyfseðlum sem læknar taka ákvörðun um, nú eða þeim ramma sem hv. Alþingi setur í fjárlögum. Í þriðja lagi, sem er auðvitað ekki veigalítið, því hámarksverði sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þannig að það er auðvitað alls ekki rétt að hér sé verið að umbylta kerfinu í einu vetfangi, skapa stórhættu á því að lyfjanotkun aukist stórkostlega, ég held að það sé allsendis óraunhæft og órökrétt að ætla það. Þvert á móti, virðulegi forseti, þá er markmiðið það að ná fram bættu aðgengi, lægra vöruverði og auðvitað betri heilbrigðisþjónustu á þessum vettvangi eins og öðrum því auðvitað miðar okkur þar fram á við þó það kreppi að og ákveðnar breytingar hafi verið óhjákvæmilegar í þeim efnum.
    Ég vil árétta það, virðulegur forseti, að vissulega er ég opinn fyrir ábendingum um það sem betur má fara um einstök atriði þessa frv. Það er auðvitað ekki rökhelt frekar en önnur mannanna verk. Ég vænti þess og vona að í hv. heilbr.- og trn. fari fram jákvæð og málefnaleg umræða um einstaka þætti frv. En mikilvægt er engu að síður að minni hyggju að það nái fram að ganga nú á þessu vorþingi.