Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:11:41 (3676)


[17:11]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hvort sjúkrahúsapótekin og lítilvæg breyting á umfangi þeirra sem er sannarlega til hagræðis, réttur þeirra til að afgreiða lyf sem ávísað hefur verið á sjúklinga sem þaðan er verið að útskrifa kunni að stangast á við samkeppnislög. Ég þori ekki að fullyrða um það hér og nú. Ég mun gæta að því nánar og vænti þess að nefndin muni gera það sama. Ég vil hins vegar undirstrika og árétta að það er tekið á því að þessi rekstur sjúkrahúsapóteka sé aðskilinn frá annarri starfsemi sjúkrahúsanna. Með því er verið að reyna að fyrirbyggja að sá rekstur sé á einn eða annan hátt niðurgreiddur af öðrum rekstrarþáttum sjúkrahússins heldur sé hann afmarkaður, skýr og greinilegur og þar með samanburðarhæfur við aðra samsvarandi starfsemi úti í samfélaginu.

    Hvar í heiminum frelsi hefur leitt til lækkunar lyfja get ég ekki svarað einn, tveir og þrír. Hins vegar segi ég eins og ég stend hér að eðlilegir viðskiptahættir og samkeppnishættir hér á landi munu sannarlega leiða til lækkunar á álagningu lyfja. Ég trúi því að þetta frv., og þess vegna er það lagt fram, muni svo sannarlega leiða til þess að sjúklingar og notendur lyfja muni fá þau fyrir lægra verð án þess að slakað sé eitt andartak á því öryggi sem nauðsynlegt er.
    Eitt innskot vegna þess að menn hafa verið að bera saman smásöluverð lyfja og velt því fyrir sér af hverju það sé hærra hér en annars staðar. Það er einmitt, eins og hv. þm. Geir H. Haarde kom inn á, í Suður-Evrópu, í þeim löndum þar sem kaupgeta er hvað minnst, í Portúgal, Spáni, Grikklandi og Ítalíu sem verðlagning lyfja er hvað lægst. Það skyldi þó ekki vera að þær ástæður sem hann nefndi til sögunnar séu kannski þær veigaþyngstu í þessum efnum framar öðru.