Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:31:09 (3683)


[17:31]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. félmrh. þá er hér um að ræða frv. sem innifelur þrjú atriði sem öll snerta Húsnæðisstofnun ríkisins og rekstur hennar en eru innbyrðis ólík.
    Þegar þetta frv. liggur fyrir vakna spurningar um vinnubrögð þingsins og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu, hvort það séu rétt vinnubrögð að leggja fram eins og hér er gert, frv. um þrjú atriði sem eru tiltölulega ólík innbyrðis og þarfnast kannski ólíkrar vinnslu. Mér er fullkunnugt um að það er lögð töluverð áhersla á að atriðið varðandi skyldusparnað nái fljótt fram að ganga í hv. Alþingi og ég mun koma aðeins að því síðar. Fyrstu greinar frv. varða mál sem er miklu stærra í sniðum, þ.e. ávöxtun þeirra fjármuna sem eru inni hjá Húsnæðisstofnun.
    Ég vil mæla þau varnaðarorð í upphafi hvort það sé ekki ástæða til að endurskoða vinnubrögðin að þessu leyti þannig að frv. sem lagt er fram fjalli um afmörkuð atriði og sé ekki verið að hræra saman annaðhvort í bandormum eða slíku frv. sem hér um ræðir óskyldum atriðum sem þarfnast ólíkrar vinnslu. Ég segi þetta ekki síst í ljósi þess að hæstv. forsrh. hefur haft þau fleygu ummæli hér í fjölmiðlum að annar ráðherra kynni að hafa lætt, eins og sagt er, frv. í gegnum þingið og síðan hefur þetta verið hent á lofti í þjóðfélaginu og talið okkur þingmönnum mjög til lasts. Það hefur verið dregið í efa jafnvel að þingmenn séu læsir. Það hefur verið orðað svo í fjölmiðlum að þeir séu yfirleitt læsir.
    Ég held satt að segja að þegar koma á borð okkar þingmanna frumvörp í bunkum um ólík atriði þar sem óskyldum atriðum er slengt saman í eitt þingmál þá aukist hættan á því að þessi þingmál séu ekki nógu vel unnin. Það eru miklu markvissari vinnubrögð að hafa einn afmarkaðan þátt í frv. þó að það kosti fleiri framsöguræður í þinginu, en nóg um það.
    Fyrsta atriði þessa frv. fjallar um ávöxtun þess fjármagns sem er varðveitt í Húsnæðisstofnun ríkisins, fjármagn byggingarsjóðanna. Þetta er mjög stórt mál og varðar heimild til þess að varðveita þetta fjármagn á öðrum stöðum en í Seðlabanka Íslands. Þá vakna þær spurningar hvers vegna þessar breytingar eru gerðar. Er knýjandi þörf á þessum breytingum eða hvað liggur hér að baki? Er þetta til að þjóna hinni margumræddu frjálshyggjuáráttu hæstv. ríkisstjórnar eða liggur einhver knýjandi þörf hér að baki? Hvert er verið að stefna með þessu? Það hefur komið fram m.a. hjá hv. 6. þm. Vestf. að það er búið að rýmka mjög reglur í þjóðfélaginu um ávöxtun fjármuna og það er heimilt núna að ávaxta sitt pund erlendis eins og verið hefur í umræðunni.
    Í þessu frv. er skrefið ekki stigið nema til hálfs. Það er verið að auka frelsi en þó er ekki verið að auka slíkt frelsi til fulls þar sem hæstv. félmrh. verður hverju sinni að samþykkja ráðstöfun húsnæðismálastjórnar að þessu leyti. Mér er því spurn og ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvers vegna þessi breyting sé í rauninni gerð. Það virðist ekki verið að breyta að fullu í frjálsræðisátt því ákvörðun í þessu máli á í raun að vera undir ráðherra áfram. Er þá ekki einfaldast eða mælir því eitthvað í gegn að hafa þessi ákvæði óbreytt áfram þannig að þessi ávöxtun sé hjá Seðlabanka Íslands? Eða hvaða knýjandi þörf er á því að breyta þessu?
    Það kemur reyndar fram í athugasemdum frv. það álit Ríkisendurskoðunar að þessi ávöxtun hafi verið viðunandi til þessa og ekki sé hægt að sjá sjáanlegan mun á ávöxtun Seðlabankans og ávöxtun annarra fjármálastofnana. Ég held því að þegar þetta mál kemur til félmn. sé ástæða til þess að skyggnast í ástæður þessara breytinga og hverju þetta breytir í raun. Og hvort þá sé ástæða til ef verið er að rýmka þessar heimildir að félmrh. sé með stimpilinn á ákvörðunum húsnæðismálastjórnar í þessu efni.
    3. gr. frv. fjallar um það að stofna nýjan lánaflokk við Byggingarsjóð verkamanna sem veitir sveitarfélögum lán til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum. Í 4. gr. er kveðið nánar á um lánafyrirkomulag í þessu efni. Ég tel að hér sé um réttlætismál að ræða og styð þessi ákvæði frv. og mun ekki hafa mörg orð um það. Það er ástæða til þess að fara yfir þessi ákvæði í nefnd og það lánafyrirkomulag sem um ræðir. En ég tel að þessi ákvæði séu til bóta og til þess fallin að auka jafnræði í þessum efnum. En þörfin á byggingu þessara íbúða er fyrir hendi.
    Þá er komið að 5. gr. frv. sem fjallar um heimildir til að greiða út skyldusparnað til þeirra sem hafa verið atvinnulausir eða hafa átt við langvarandi veikindi að stríða eða eru námsmenn. Greinin felur í sér heimildir til að greiða út skyldusparnað til þessara aðila en í raun er búið að ákveða að leggja skyldusparnaðinn niður með lögum frá 19. maí 1993. Þetta er því ákvæði um að flýta útgreiðslum til þessara aðila. Mér er kunnugt um að það er þrýst á að þessi ákvæði nái fram að ganga og er satt að segja ömurlegt að vita til þess að atvinnuástandið skuli vera orðið þannig á Íslandi að atvinnulaust fólk sér sér ekki aðra möguleika til framfæris en að taka út þær krónur sem það á inni í skyldusparnaðinum sínum. Það segir mikla sögu um hvernig er komið fyrir okkur og það er satt að segja ekki skemmtileg reynsla að standa frammi fyrir atvinnulausu fólki sem er að spyrja um hvenær þetta frv. verði afgreitt svo það geti náð út þeim krónum sem það á inni í skyldusparnaðinum og það er ungt fólk sem hér um ræðir. Og það er ekki um háar upphæðir að ræða. En það er sjálfsagt að greiða fyrir því að þetta ákvæði nái fram að ganga. Það er ekkert um annað að gera, því miður, og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að þessi ákvæði nái fram að ganga á ekki löngum tíma hér í Alþingi. Þess vegna tel ég að það hefði átt að flytja þetta ákvæði sér en ekki blanda því saman við önnur atriði og flóknari sem einnig eru í þessu frv.
    Það kom fram í umræðum um atvinnumál utan dagskrár sl. fimmtudag hjá hæstv. félmrh. að atvinnuástand í landinu er þannig að atvinnuleysi er útbreiddast meðal ungs fólks á aldrinum 20--30 ára. Það er einmitt þetta fólk sem á inni þennan skyldusparnað og það er satt að segja alveg ömurlegt að þurfa að standa í því að breyta lögum svo að það sé hægt að flýta þessum greiðslum til atvinnulausra. Það hefði svo sannarlega verið skemmtilegra að standa að einhverri löggjöf sem yki atvinnu og framtíðarsýn fyrir það fólk sem hér á hlut að máli.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að sinni að hafa í rauninni langt mál um þetta frv. Ég er samþykkur ákvæðum þess um félagslegar íbúðir í sveitum. Ég vil stuðla að því að þau ákvæði sem varða skyldusparnaðinn nái fram að ganga og ég vil stuðla að því að þau nái fram að ganga á skömmum tíma. En ég vil að sjálfsögðu kanna þessi mál vel í nefnd, ekki síst ákvæðin sem varða ávöxtun byggingarsjóðanna sem eru stórmál og þurfa auðvitað skoðunar við í hv. félmn. Þar vil ég að þau ákvæði verði grandskoðuð sem og önnur ákvæði frv.