Vandi skipasmíðaiðnaðarins

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:39:23 (3698)


[13:39]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil beina spurningu minni til hæstv. iðnrh. vegna vanda skipasmíðaiðnaðarins.
    Nú liggur það fyrir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að hjálpa skipasmíðaiðnaðinum að keppa við erlenda aðila með niðurgreiðslum. Það sýndi sig í því fyrsta verkefni sem átti að beita þessari aðferð við að það dugði ekki til. Það hafa ekki borist neinar fréttir af nýjum hugmyndum frá ríkisstjórninni um það hvað eigi að gera.
    Það liggur hjá ríkisstjórninni þáltill., sem Alþingi vísaði til hennar, sem ég flutti hér í fyrra, um að taka til skoðunar jöfnunartolla á skipasmíðaverkefni. Ég er sannfærður um að það er eina leiðin til að koma í veg fyrir það að erlendir aðilar hafi af okkur þessi verkefni að taka upp slíka undirboðs- og jöfnunartolla og ég spyr: Er samkomulag um það í ríkisstjórninni að gera það? Hvenær verða teknar um það ákvarðanir? Hvað líður athugunum á stöðu fyrirtækjanna sem þarna eiga hlut að máli, þ.e. skipasmíðastöðvanna, og hvaða fyrirætlanir eru að líta dagsins ljós og hvenær um það að fara í endurskipulagningu á þeim fyrirtækjum?