Vandi skipasmíðaiðnaðarins

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:42:55 (3700)


[13:42]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. fór með þessa þulu um það hvað ríkisstjórnin er búin að ákveða að gera og allt var það gott og blessað en það er tilgangslítið að fara í aðgerðir af slíku tagi ef grundvöllurinn undir þessari starfsemi er ekki fyrir hendi og hann verður ekki fyrir hendi á meðan erlendir aðilar geta komið aftan að þessum fyrirtækjum okkar með þeim hætti sem við höfum séð að undanförnu. Á meðan menn geta ekki komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að koma í veg fyrir að hægt sé að bjóða niður verð okkar fyrirtækja með þessum hætti þá mun engin endurreisn verða í skipasmíðaiðnaði og þá er þeim peningum kastað á glæ sem hið opinbera leggur í þennan iðnað. Ég held að það sé engin spurning um það að undirboðs- og jöfnunartollar geta leyst þetta vandamál. Aðalvandamálið, og sem búið er að vera það allan tímann, er að það hefur aldrei verið vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til þess að nota undirboðs- og jöfnunartolla. Sá vilji er hreinlega ekki orðinn enn.