Hækkun þjónustugjalda í bönkum og lánastofnunum

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:52:33 (3709)


[13:52]

     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er um að ræða stefnu sem viðskiptabankar og sparisjóðir höfðu mótað sér nokkru áður en til vaxtalækkananna kom, þ.e. að reyna að færa kostnað við bankastarfsemina í meira mæli frá því að vera tekið og greitt alfarið í vöxtum og yfir í það að greiða hana í meira mæli í formi þjónustugjalda fyrir þá þjónustu sem bankarnir veita. Þetta hafa þeir m.a. verið að gera til þess að reyna að draga úr mjög dýrum viðskiptaháttum eins og ávísanaviðskiptum þar sem það er einkenni á íslenskum peningamarkaði að ávísanaviðskipti eru mjög algeng og ávísanir eru gjarnan skrifaðar upp á mjög lágar fjárhæðir, jafnvel nokkra tugi kr. Hins vegar mun vinna við hverja ávísun kosta bankana um 80 kr., en ef ég man rétt þá greiðir notandi ávísunarinnar ekki nema u.þ.b. 10 kr. fyrir ávísunareyðublaðið. Þannig að það er gömul ákvörðun bankanna að reyna að breyta þessu og debetkortafyrirkomulagið var ein leið til þess. Ég bendi t.d. á að það mun vera nær undantekning að í greiðslukortaviðskiptum sé ekki innheimt neitt þjónustugjald. Það er ekki gert hér á Íslandi en er mjög víða gert þar sem slík viðskipti eru stunduð.
    Það er alveg ljóst að sú ákvörðun bankanna að draga mjög úr vaxtamun ýtir á eftir því að þeir framfylgi þessari stefnu sem þeir áður voru búnir að ákveða að reyna fremur að snúa sér að því að viðskiptavinir greiddu fyrir þá þjónustu sem þeir fá fremur en að láta lántakendur einvörðungu greiða þjónustuna í formi hárra vaxta. Viðskrh. getur að sjálfsögðu ekki haft nein bein afskipti af slíku. Ég hef látið mína skoðun í ljósi við bankana í bréfi varðandi greiðslukortaviðskiptin og varðandi debetkortaviðskiptin sérstaklega. Það er hlutverk Samkeppnisstofnunar að fylgjast með þessum ákvörðunum en ég mun að sjálfsögðu fylgjast með þeim einnig og ef ég tel vera óeðlilega að farið þá mun ég láta mína skoðun í ljósi eins og ég gerði varðandi debetkortaviðskiptin.