Launakjör bankastjóra ríkisbankanna

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:58:47 (3713)


[13:58]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Sumt af því sem hv. þm. gerði að umræðuefni hefði viðskiptaráðherra getað ráðið við ef hv. Alþingi fyrir tveimur árum síðan hefði fallist á þá tillögu þáv. viðskrh. að bankastjórum ríkisbankanna væri ekki heimilt að taka laun fyrir önnur störf en bankastjórastörfin nema með leyfi viðskrh. Alþingi hafnaði þeirri tillögu, felldi þessa tillögu út úr frv. um viðskiptabankana og tók þannig alfarið þá ákvörðun að það skyldu vera bankaráðin án afskipta viðskrh. sem tækju þessar ákvarðanir og bæru ábyrgð á þeim.
    Ég hef rætt við formenn bankaráðanna, þ.e. bankaráða ríkisviðskiptabankanna tveggja og Seðlabankans, og óskaði eftir því við þá þar sem þeir veita forstöðu þeim aðilum sem ákveða laun bankastjóranna og bera ábyrgð á þeim launagreiðslum að þeir skoðuðu hvort unnt væri bæði að samræma þessar launagreiðslur og breyta launaákvörðununum ef bankaráðin teldu rétt að gera það. Ég lét í ljós mína skoðun að ég teldi rétt að svo væri. Formenn bankaráðanna tóku að sér það verk að skoða þessi mál. Það var ákveðið að í byrjun febrúarmánaðar, eftir fyrstu viku febrúarmánaðar mundum við ræða saman aftur. Það munum við gera. Ég hef ekki fengið nein skilaboð eða vísbendingar frá formönnum bankaráðanna en vænti þess að fá hana þá, þ.e. hvað þeir telji rétt að gera og hvernig þeir telji rétt að halda á þessu máli. En ákvörðunin er samkvæmt tveggja ára gömlum lögum frá hinu háa Alþingi í höndum bankaráðanna en ekki viðskrh.