Launakjör bankastjóra ríkisbankanna

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:02:01 (3715)


[14:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er e.t.v. auðveldara um að tala en í að komast. En nýlega hafa verið gerðar tvær kannanir á vegum Ríkisendurskoðunar á hvernig þetta launakerfi virkar gagnvart tveimur stéttum. Annars vegar læknum og hins vegar bankastjórum. Þar kom í ljós að grunnlaun viðkomandi starfsstétta eru um eða innan við helmingur af raunverulegum útborguðum launum. Ég þekki það af setu minni sem formaður fjárveitinganefndar á sinni tíð þar sem ég sat með nokkrum hv. þm. að það kom í ljós við yfirheyrslur yfir forstöðumönnum stofnana að það væri mjög algengt í ríkiskerfinu að þannig væri að farið, þ.e. að það væri borguð föst yfirvinna, fastar aukagreiðslur ofan á grunnlaun þannig að grunnlaun segðu aðeins hálfa söguna. Bankastjórar eru því engin undantekning frá reglunni í þessu sambandi. Það er hins vegar að sjálfsögðu ekki viðskiptaráðherra að finna svarið við þessu en svarið hlýtur að vera það að aðilar kjarasamnings komi sér saman um það að raunverulegar launagreiðslur skuli teknar upp á borðið og samið um þær en ekki eitthvað allt annað.