Samkomulag stjórnarflokka um sjávarútvegsmál

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:07:01 (3718)


[14:07]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég verð að játa að mér er nokkuð rórra að vita það að hæstv. viðskrh. er ekki að fara í stríð. En það sem hann sagði hér er þá einfaldlega að að það sé samkomulag um þetta mál í ríkisstjórninni, samkomulag um það milli flokkanna að afgreiða þessi mál með þeim hætti sem þau eru flutt hér á Alþingi. Ég vek á því athygli að stjórnarandstaðan hefur ekki komið að því máli og þá er þessi samþykkt Alþfl., sem hér birtist með stríðsletri, samþykkt sem ekki á að taka neitt mark á því ég veit ekki betur en að allir forustumenn Alþfl. standi að þessari samþykkt sem gengur þvert á það sem þeir hafa samið um í ríkisstjórn. Það hlýtur að þýða á mæltu máli að það á ekki að taka neitt mark á þessu og það á kannski ekki lengur að taka mark á Alþfl. sem eru út af fyrir sig góð tíðindi.