Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:44:35 (3727)


[14:44]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta samgn.
    Nefndin hefur í umfjöllun sinni um málið skoðað umsagnir hafnar- og sveitarstjórna víðs vegar að af landinu. Einnig lágu fyrir umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hafnasambandi sveitarfélaga og Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.

    Í mörgum af þessum umsögnum komu fram alvarlegar athugasemdir og tillögur um breytingar og ákveðin tilmæli um að fresta málinu svo að betri tími gæfist til að ræða hin ýmsu ágreiningsefni. Mikill ágreiningur er um þá skipan sem gert er ráð fyrir í frv., þ.e. að hafnir geti átt í hlutafélögum og megi taka þátt í öðrum atvinnurekstri þrátt fyrir að þær hafi verið byggðar upp fyrir opinber framlög. Þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar leggi til að fallið verði frá fyrirmælunum um að eigendur hafna sem njóta styrks frá hinu opinbera geti verið hlutafélög er enn gert ráð fyrir að hafnir geti orðið hluthafar í ýmissi starfsemi sem tengist rekstri þeirra. Þannig geta framlög hins opinbera orðið til að skekkja samkeppnisaðstöðu fyrirtækja í framtíðinni. Þá er mjög mikill ágreiningur um þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í hafnarmannvirkjum.
    Ákvæði um 25% álag á vörugjöld sem renni í Hafnabótasjóð er mótmælt kröftuglega af mörgum aðilum. Þarna er á ferðinni mjög óheppilegur gjaldstofn og dæmi eru um að þetta gjald sé lagt þrisvar sinnum á sömu vöru. Þessu til viðbótar er fjölmörgum atriðum mótmælt í umsögnunum. Þá er ráðherra í 40. gr. falið víðtækt reglugerðarvald og sjálfdæmi gagnvart öllum breytingum sem í framtíðinni kunna að verða á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Minni hlutinn er sammála mörgu af því sem fram kemur í umsögnum og hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá fram breytingar á ákvæðum frv. Á fundum nefndarinnar hefur komi í ljós að ekki er nægur vilji til staðar hjá meiri hlutanum til að koma til móts við sjónarmið minni hlutans.
    Minni hlutinn telur að þetta mál sé ekki nógu vel undirbúið þótt vissulega hefði átt að vera til þess nógur tími þar sem málið var lagt fram á síðasta þingi. Minni hlutinn gerði þá strax miklar athugasemdir við frv.
    Meiri hlutinn hefur ekki viljað taka nægilegt tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið og stefnir að því að afgreiða málið með breytingum sem ekki eru nægar að mati minni hlutans.
    Minni hlutinn mótmælir þessum fyrirætlunum harðlega. Ágreiningur er um mörg og stór atriði í frv. Telur minni hlutinn að gera þurfi grundvallarbreytingar á því og að ekki þjóni tilgangi að flytja breytingartillögur við frumvarpið og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Áður en ég fer að ræða almennt um frv. vil ég segja að ég tel að þetta mál sé ekki nálægt því nógu vel undirbúið og síðustu dagarnir sanna það. Við vorum á fundi þangað til klukkan var langt gengin í eitt í morgun að fara yfir þetta frv. að síðustu og þess vegna eru menn ekki allt of vel undirbúnir undir þessa umræðu. Ég tel að það hefði átt að fresta þessari umræðu. Ég fór fram á það við hv. formann nefndarinnar en hann vildi ekki verða við því að skoða þessi mál betur áður en farið yrði í 2. umr. um frv. Það hefði verið affarasælla að mínu viti. Það mun lengja þessa umræðu í þinginu að það var ekki gert.
    Hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir því að hann ætlaði að beita sér fyrir því að það yrði umræða milli 2. og 3. umr. um málið til að skoða þrjú mál sem hann nefndi. Fyrsta málið var heimild til að setja upp tollafgreiðslu fyrir ferjusiglingar. Það er allt gott um það mál að segja og sjálfsagt að skoða það. Það er nýtt í þessu og er ekki eitt af því sem við erum að gagnrýna að komi inn til viðbótar því það hafa ekki komið upplýsingar um það mál fyrr en þetta.
    Hins vegar vil ég leiðrétta það að það hafi fyrst orðið ljóst í janúar að það kæmi fyrir að þetta vörugjaldsálag legðist oftar en einu sinni á vöruna. Það annað af þeim atriðum sem hv. formaður nefndarinnar nefndi áðan að við mundum taka til umræðu. (Gripið fram í.) Þá hef ég misheyrt ef þannig er. En það hefur auðvitað legið fyrir að þessi hætta væri fyrir hendi og komið fram í nefndinni að menn hefðu upplýsingar um að slíkt hafi gerst.
    Það hefur hins vegar nýlega komið upp mál vegna ferjusiglinganna einfaldlega vegna þess að þar hafa menn ekki fylgt lögunum eftir fram að þessu. Ferjurnar, t.d. Akraborgin, hafa ekki innheimt vörugjald af þeim farmi sem hefur verið á bílum sem hafa farið með því skipi en nú hefur hafnarstjórnin í Reykjavík skrifað Skalla-Grími sem rekur Akraborgina og gert forráðamönnum hans grein fyrir því að nú verði þetta vörugjald innheimt og vegna þrýstings frá að mér skilst samgrn. muni eiga að fylgja þessu máli eftir núna. Ég býst við því að það verði hvort sem er ekkert um annað að ræða. Lögin segja einfaldlega að það eigi að innheimta þetta gjald og þetta gjald á að innheimta, samkvæmt orðanna hljóðan í þessu frv., bæði við lestun og losun skipa þannig að ef á að fara eftir lagabókstafnum ætti að innheimta vörugjald bæði þegar bílarnir keyra um borð í Akraborgina og þegar þeir keyra í land aftur hinum megin. Eins er það með Baldur og fyrirtæki eins og Herjólf. Það hefur komið í ljós við umfjöllun nefndarinnar að þetta hefur gerst með ýmsum hætti. Hjá Herjólfi t.d. munu menn hafa rækt þetta þannig að þeir hafa talið að það ætti ekki að innheimta vörugjöld af nauðsynjavörum og síðan vissi enginn í nefndinni hvers konar skilgreining það væri, hvað Vestmanneyingar teldu vera nauðsynjavörur eða þeir sem rækju eða réðu ferðinni hjá Herjólfi.
    Hjá flóabátnum Baldri hefur verið önnur aðferð. Þar hafa menn notað einhverja ákvarðaða tölu, notað einhvers konar jöfnunartölu í þessu sambandi þannig að þetta er út og suður. Hjá Akraborginni hefur þetta eins og ég sagði áðan ekki verið innheimt þannig að það er auðvitað ófært að svona svona skuli vera staðið að málunum. En við í minni hluta samgn. höfum gagnrýnt álagningu þessa 25% álags á vörugjöld alveg sérstaklega allan tímann alveg frá því að þessar hugmyndir komu fram í upphafi og ég tel að það sé ekki um annað að gera fyrir okkur en að flytja brtt. við 3. umr. ef ekki verður komið til móts við okkur í þessu efni.
    Niðurstaðan hjá okkur í minni hlutanum varð sú að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar einfaldlega vegna þess að við höfum svo margt við það að athuga. Við teljum að það eigi að taka þetta mál og skoða það alveg upp á nýtt. Á fund nefndarinnar núna fyrir hádegið mættu forsvarsmenn Hafnasambands sveitarfélaga og þeir voru með margar athugasemdir við þetta frv. og lögðu í raun og veru til að málið yrði tekið til skoðunar upp á nýtt. Og ég held að það væri affarasælla að menn gerðu það heldur en fara að lögfesta mál sem er það mikill ágreiningur um.
    Ég held að það sé rétt að nefna hér til þess að rifja upp að einhverju leyti það sem menn hafa verið að setja út á í sambandi við þetta frv., þá vildi ég nefna úrdráttinn sem var gerður á þeim athugasemdum sem komu til nefndarinnar í fyrra. Það fyrsta er um breytingu á hafnaráði. Það kom fram að tilnefning fulltrúa Hafnasambands ætti að vera árlega og varamenn vantaði, hugsanlega væri valdsvið of mikið.
    Um hafnasamlögin komu fram mjög mismunandi skoðanir. Margir töldu hugmyndina jákvæða en aðrir að hún væri of lítið þróuð og ætti e.t.v. að tengja betur við almenna þróunaráætlun fyrir sveitarfélög á stóru svæði. Það sjónarmið kom fram að stofnun hafnasamlaga gæti rúmast innan sveitarstjórnarlaga. Forsenda væri að tengja þau við ákvæði 29. gr. um forgangsröð verkefna, þ.e. breytt vinnubrögð. Þá voru auðvitað athugasemdir við hlutafélög. Meiri hlutinn hefur reyndar fallið frá því að hafnir geti orðið að hlutafélögum en heldur inni ákvæði um það að hafnir geti tekið þátt í starfsemi sem tengist starfsemi hafnarinnar en þau tengsl þurfa samkvæmt skilgreiningunni ekki að vera önnur en að það þurfi að flytja efni eða vörur um hafnasvæðið. Það er ekki merkilegri tenging á þessari skilgreiningu en þetta.
    Það lá t.d. fyrir þegar verið var að tala um að hafnir gætu orðið hlutafélög að menn skilgreindu það þannig að síðan gætu þessi hlutafélög um hafnirnar tekið þátt í að reka fiskmarkaði og samkvæmt því hljóta menn að meina það enn að hafnirnar geti átt í fiskmörkuðum eða öðrum rekstri sem tengist ekki meira höfnunum en það að kaupa af höfnunum þjónustu.
    Um 25% álagið voru t.d. athugasemdir eins og þær að hafnirnar væru sammála um að mótmæla þessu álagi og í morgun var það ítrekað af forustumönnum Hafnasambandsins að af grundvallarástæðum væru þeir á móti þessu gjaldi. Þeir töldu að það ætti að taka upp aflagjald eða einhvers konar slíkt gjald í staðinn sem rynni þá beint til hafnanna og þær gætu ráðið sjálfar hvernig þær ráðstöfuðu þeim peningum. Þetta er auðvitað skattur og út af fyrir sig ekkert athugavert við það að menn velji einhverja leið til að skattleggja, en ég tel að þessi skattur sé mjög óheppilegur og komi mjög ójafnt niður. Ég tel einnig mjög nauðsynlegt ef menn fallast ekki á að fella hann niður að það verði gerðar þær endurbætur á innheimtunni að það sé ekki lagt nema einu sinni og það sé ekki verið að leggja þetta á starfsemi sem óeðlilegt er að leggja skatt á, t.d. flutningastarfsemi með bílum. Þessar athugasemdir um 25% álagið voru t.d. þær að það ætti ekki að nota tekjustofna hafna til skattlagningar, það ætti ekki að skylda hafnirnar til að innheimta skatta og að álagið væri byggðaskattur og hækkaði vöruverðið. Hann yki á millifærslur og treysti ekki rekstur hafnanna, hann yki á misvægi landflutninga og sjóflutninga. Síðan voru athugasemdir um að breyta þessum mismunandi styrkjum sem eru núna samkvæmt lögum úr ríkissjóði til hafnargerðar og þar var afstaðan auðvitað mismunandi af eðlilegum ástæðum. Þetta kemur misjafnlega niður eftir því hvaða höfn er um að ræða og hvaða starfsemi fer fram í viðkomandi höfnum. Almennt voru hafnarstjórnir samt á móti því að hafnsögubátar og kranar væru felldir út og bent var á að það ætti að auka styrk til ytri mannvirkja og það væri verið að hvetja til uppbyggingar hafna þar sem aðstæður væru slæmar í stað þess að innrétta hafnir sem væru hagkvæmar til uppbyggingar. Þetta voru ábendingar og t.d. var hvatt til að stefnumörkun um styrki úr ríkissjóði væri markvissari og ætti að tengjast betur ákvæði 29. gr. um að við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skuli leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild. Og það ætti að flokka hafnir og meta frekar þörf á uppbygging í málaflokkum eins og fiskihöfnum, flutningahöfnum og skipaviðgerðum frekar en taka afstöðu til einstakra byggingarhluta hafna. Það eru svona grundvallaratriði sem þessir aðilar hafa verið að benda á að þyrfti að fjalla betur um áður en menn gengju endanlega frá þessum hlutum.
    Eins og ég sagði áðan ákváðum við að flytja ekki brtt. núna við 2. umr. málsins, líka vegna þess að okkur var kunnugt um það að hv. formaður ætlaði að kalla nefndina saman á milli umræðna. Við vorum búnir að skoða brtt. þó við værum ekki búnir að taka endanlega ákvörðun um að flytja þær af ýmsu tagi og ég vil vekja athygli á því til þess að hv. þingmenn átti sig á því hvernig þetta mál liggur að frá því að málið var lagt fram til umræðu hér hafa komið fram brtt. frá meiri hlutanum. Meiri hlutinn hefur fallist á að breyta frv. Í fyrra var meiri hlutinn með 16 brtt. og núna er meiri hlutinn búinn að leggja fram 10 brtt. og er að boða fleiri og vonandi mun hann fallast á að þessar tillögur verði enn fleiri en þetta þannig að við sjáum að það er um að ræða a.m.k. hátt í 30 brtt. við frv. frá því að það var lagt fram í upphafi. Samt eru við það svona athugasemdir eins og ég var að fara hér yfir. Ég held að menn verði að gera sér vel grein fyrir því að undirbúningur þessa máls hefur ekki verið nægilega góður og þrátt fyrir það að svona margar brtt. hafi komið fram þá er ástæða til að halda að það þurfi að doka við og gefa sér betri tíma til að vinna þetta mál.
    Það hagar þannig til að það mun ekki valda neinum verulegum erfiðleikum einfaldlega vegna þess að þetta breytir ekki fjárhagsáætlunum að neinu marki sem liggja fyrir fyrir þetta ár. Það er t.d. búið að ákveða 25% vörugjaldið fyrir þetta ár með öðrum lögum þannig að sá tekjustofn er ekki í hættu þó að þetta

frv. fari ekki í gegn núna. Þó að breyting verði á skiptingunni á prósentunni, þ.e. hve styrkirnir eru háir við einstaka hluta hafnanna, þá held ég að það væri út af fyrir sig ekki nema bara af því góða einfaldlega vegna þess að það er á þessu hinn mesti ruglingur á þessu ári og hefði verið nær að menn hefðu haldið sig við það að úthluta til hafnanna samkvæmt lögunum eins og þau liggja fyrir heldur en vera að gefa mönnum til kynna að þeir fái úthlutanir til hafnabóta samkvæmt einhverju frv. sem ekki er búið að samþykkja í hv. Alþingi.
    Ég vil gera þá athugasemd við 2. gr. frv. að ég tel að það sé óeðlilegt úr því að menn eru þarna með ákvæði um það að hæstv. ráðherra eigi að skipa eða megi skipa nýja menn í stjórn, það stendur hér, með leyfi forseta: ,,Samgönguráðherra skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál`` o.s.frv. Síðan kemur í síðari hluta greinarinnar: ,,Þrír fulltrúar eru skipaðir af samgönguráðherra, og skal einn þeirra vera starfsmaður samgrn. og er hann jafnframt formaður ráðsins og skipaður til fjögurra ára í senn. Tvo fulltrúa samgrh. skal skipa að nýju við ráðherraskipti.
    Þóknun til hafnaráðsmanna greiðist úr ríkissjóði.``
    Ég tel að það sé óeðlilegt, úr því að ráðherra er á annað borð ætlað að skipta um eða ákveða eftir aðstæðum að hafa áfram þá sem voru fyrir í hafnaráði þegar hann tekur við sínu embætti, að hann hafi ekki áhrif á það hver er formaður ráðsins. Ég tel að úr því að menn eru með þetta ákvæði svona á annað borð þá sé langeðlilegast að ráðherra skipi bara alla sína þrjá í einu og hann hafi þá ráð á þessum þremur mönnum því að ekki síst þarf hann þá að ráða því hver er formaður ráðsins ef á annað borð er verið að gefa honum vald til þess að skipta um þegar hann tekur við starfi í sínu ráðuneyti.
    Við 8. gr. frv. hef ég það að athuga þrátt fyrir að búið sé að taka út þarna möguleikann á því að hafnir geti verið hlutafélög sem ég fagna vegna þess að þetta var auðvitað hið fáránlegasta mál eins og það var lagt fyrir og ég ætla ekki að fara að endurtaka umræðurnar um það. Það væri þó ástæða til að rifja það upp fyrir þingmönnum, og kannski gerir það einhver hér á eftir, hvers konar rugl þetta var, sem hér var borið á borð fyrir menn, og hefur auðvitað ekki verið sársaukalaust fyrir þá sem sömdu þetta frv. að þurfa að taka þetta hugarfóstur út úr því, því að lengi var a.m.k. á því hangið og þetta er nú búið að vera eitt af stærri ágreiningsefnunum um þetta mál. En eftir sem áður er í 8. gr. gert ráð fyrir því að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra og ég segi það alveg eins og er að ég tel að Alþingi þurfi að vanda sig betur en þetta. Ég ætla að lesa til samhengis fyrir hv. þm. Það stendur eins og ég sagði áðan í 8. gr.:
    ,,Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra.`` Í 14. gr. stendur líka: ,,Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar. Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða.``
    Þetta þýðir með öðrum orðum að fyrirtæki, sem er undanþegið sköttum og skyldum til sveitarsjóða og fyrirtæki sem hefur þau fyrirmæli að tekjum og eignum þess eigi eingöngu að ráðstafa í þágu þess, er síðan í 2. gr. laganna gefið leyfi til þess að taka þátt í rekstri fyrirtækja, vera hluthafi í öðrum fyrirtækjum. Ég segi það alveg eins og er að þetta gengur ekki upp og mér finnst að Alþingi megi ekki setja lög sem eru með þessum hætti ósamkvæm sjálfum sér.
    Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði fluttar nema fáar brtt. við 3. umr. Við sjáum ekki að það hafi mikinn tilgang. Við munum auðvitað flytja brtt. við þessi aðalatriði sem ég hef verið að nefna. Við höfðum hugsað okkur að flytja breytingartillögur sem miðuðu að því að losa þetta sérstaka vörugjald út úr frv. en það kann vel að vera að við 3. umr. verðum við að flytja brtt. sem feli í sér breytingar á sjálfu vörugjaldinu ef ekki verður samkomulag um það í nefndinni og það var m.a. það sem við vildum fá að ræða við nefndina áður en málið kæmi til 2. umr., hvort það væri ekki hægt að ná samkomulagi um að gera þessar breytingar. Einmitt þau mál sem hv. formaður var að ræða áðan um vörugjaldið og ferjusiglingarnar, hvort það væri ekki hægt að ná samkomulagi um að það færi þó alla vega inn í frv. þannig að það þyrfti þá ekki að gera brtt. um það efni, en það munum við auðvitað gera ef á þarf að halda.
    Síðasta mgr. í 11. gr. frv. er um aðila sem eiga mannvirkin á hafnarsvæði og er svona, með leyfi forseta:
    ,,Nú á annar aðili en hafnarsjóður bryggjur innan hafnarsvæðisins og skal þá greiða vörugjöld í hafnarsjóð af þeim farmi er um þá bryggju fer. Eiganda slíkrar bryggju er óheimilt að innheimta til sín vörugjöld af vörum er fara um bryggjuna nema hafnastjórn samþykki.``
    Ég vil meina það að þessi satning sé í raun og veru óeðlileg. Það er ekki hægt að setja að mínu viti lög þar sem öðrum aðilanum sem á hlut að máli er gefið algert sjálfdæmi um það sem um er að ræða eins og þarna. Þarna er um að ræða not af bryggjum sem eru í eigu annarra aðila en hafnarinnar og höfninni er gefið með þessari lagasetningu algert alræðisvald yfir því hvort hún samþykkir að sá sem á mannvirki fái eitthvert endurgjald fyrir notin af þessu mannvirki. Ég tel að þetta sé mjög óeðlilegt og tel að það sé ástæða til þess að flytja við þetta brtt. við 3. umr.
    Við 12. gr. munum við að sjálfsögðu flytja brtt. um 25% vörugjaldið ef þannig veltur eins og ég lýsti hér áðan.
    Það hlýtur að vera til umhugsunar, finnst mér, fyrir meiri hlutann ef hann ætlar að hafa áfram

ákvæðið inni í 8. gr. um það að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum, hvort hann þarf ekki að hugsa sig um og flytja brtt. við 14. gr. um það að tekjum hafnarsjóðs megi einungis verja í þágu hafnarinnar til þess að það verði nú samræmi í löggjöfinni. Ekki hef ég áhuga fyrir að flytja þá brtt. en ég tel að það sé vinsamleg ábending til meiri hlutans að hann reyni að hafa samræmi í því sem hann er að gera og þá eins að hafnarsjóðir verði ekki undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða nema því aðeins að þeir séu þá alerlega fríir af annarri starfsemi en þeirri sem fer fram á vegum hafnarinnar sjálfrar.
    Síðan ætla ég að fara fáeinum orðum um 26. gr. frv. en hún fjallar um þessa kostnaðarskiptingu í höfnunum, hafnamannvirkjunum. Það er kannski ástæða til þess að vekja athygli þingmanna á samanburðinum sem er á þessari tillögu sem er í frv. og því sem nú er í lögunum en þessi samanburður er á bls. 15 í þessu skjali. Þar kemur fram að það eru verulegar breytingar sem þarna er verið að leggja til að gera. T.d. eru hafnargarðar og öldubrjótar hækkaðir í kostnaðarþátttöku upp í 90% úr 75%. Hafna- og innsiglingaþátttakan er jöfn og áður, 90%, siglingamerki eru hækkuð upp í 90%. Ekjuskip og ferjur er líka sett á 90%. Bryggjur og viðlegukantar er lækkað úr 75% í 60%. Uppfyllingar og umferðaræðar á hafnarsvæðum voru 75% en eiga að vera 60%. Upptökumannvirki fyrir skip er hækkað úr 40% í 60%. Það kann einhverjum þingmanni að þykja undarlegt í tengslum við þá umræðu sem hefur farið fram núna undanfarið um það að hér séu of margir aðilar að reka skipasmíðastöðvar og þjónustu við flotann, að menn skuli ætla að fara að hækka þetta framlag. Ekki ætla ég svo sem að fara að halda því fram eða taka þátt í þeirri umræðu að það sé of mikið af skipasmíðastöðvum í landinu, ég er á annarri skoðun. Ég tel að það eigi að reka allar þær skipasmíðastöðvar áfram sem eru í landinu og tel að það sé mikið meira en nóg af verkefnum fyrir þær ef þær fá eðlilega þátttöku í því að þjónusta flotann og menn hætti að fara til útlanda til þess að láta smíða og gera við skipin sín.
    En ég held að það sé umhugsunarefni hvort við eigum að fara að ákveða það að hækka úr 40% í 60% þátttöku ríkisins í upptökumannvirkjum. Ég tel að það sé kannski ekki alveg í takt við tímann og í sjálfu sér kannski ekki endilega heldur neitt ,,aktúelt`` í dag að gera þessa breytingu þannig að ég get fallist á það sem hefur komið fram hjá þeim sem hafa gagnrýnt þetta yfirleitt að það sé ástæða til þess að doka við og hafa þetta óbreytt þangað til menn eru búnir að fara betur yfir þetta allt saman.
    Það sem flestir hafa gagnrýnt mest er t.d. að það er ákveðið að hætta algjörlega að styrkja ákveðna kostnaðarþætti við rekstur hafnanna, það eru t.d. hafnarvogirnar og hafnsögubátarnir og fastir kranar til löndunar. Þetta á allt saman að falla niður.
    Síðan eru þrír nýir liðir þarna inni, það er að skipulag hafna og hafnasvæða skuli samkvæmt frv. vera borgað 60% og niðurrif hafnarmannvirkja líka 60%. En ég vek enn og aftur athygli á því að þeir sem hér hafa gefið umsagnir og ættu að vita um þetta gerst, þ.e. sveitarfélögin og Hafnasambandið og þeir aðilar sem hafa sent okkur umsagnir, hafa yfirleitt lagst gegn þessum breytingum og verið með miklar athugasemdir þannig að það þarf auðvitað að skoða alla þessa hluti betur.
    Það er eitt sem hv. formaður sagði áðan sem ég þarf að gera athugasemd við, það var að í sambandi við reglugerðirnar. Það er gert ráð fyrir því í frv. að það sé hægt að setja reglugerð um hafnir og á fundinum í morgun kom athugasemd frá þeim sem þar voru mættir til þess að ræða við okkur um þetta. Þeir bentu á að með þessu væri verið að tala um að setja eina reglugerð fyrir allar hafnir í landinu og það var gagnrýnt og talið óeðlilegt og mundi ekki vera hægt vegna mjög mismunandi starfsemi og staðhátta á hverjum stað. Formaður svaraði því og sagði það einmitt hér og það er þess vegna sem ég vek athygli á þessu máli núna í minni ræðu, að formaður sagði þá og sagði aftur núna áðan í ræðu sinni, að það hefði ekki verið hugmyndin að setja eina reglugerð. En það er í bréfi frá ráðuneytinu greinilega hugmyndin að setja eina reglugerð og ég vil, til þess að menn átti sig á því hvað er þar á ferðinni, lesa athugasemdina sem kom frá samgrn. til samgn. Í henni stendur, með leyfi forseta:
    ,,Nú eru í gildi alls 67 hafnarreglugerðir fyrir hverja einstaka höfn en þeim reglugerðum hefur verið breytt 40 sinnum. Á undanförnum árum hafa komið fram tillögur um að sameina þessar hafnarreglugerðir í eina og hafa sérákvæði í þeirri reglugerð um mörk einstakra hafna og önnur ákvæði um einstakar hafnir ef nauðsyn krefur. Slík sameining horfir mjög til einföldunar fyrir alla aðila. Eins og orðalag 10. gr. er nú í frv. virðist ekki vera heimilt að ganga til slíks verks og er því lagt til að opna fyrir þann möguleika.``
    Þannig var það skilningur þeirra í ráðuneytinu þegar þeir sömdu uppkastið að breytingunni sem er á undan, þ.e. að 1. málsliður 10. gr. orðist svo, segir þar: ,,Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum og fengnum tillögum eigenda hafnarreglugerð fyrir hafnir.``
    Þeir voru sem sagt með þennan skilning á málinu sem gestir okkar á fundinum í morgun höfðu og voru að gagnrýna. Ég tel aftur á móti að það sé ekkert athugavert við það að reyna að setja reglugerð sem geti staðið fyrir sem flestar hafnir og mér finnst að það sé sjálfsagt að hafa það þannig í frv. að það sé hægt en síðan sé það í valdi ráðherra að velja þá aðferð að setja sérstaka reglugerð fyrir einstaka höfn ef hann telur að þannig hátti til að það sé orðið óeðlilegt og of viðamikið að taka inn ákvæði í aðalreglugerðina, sem mundi þá gilda fyrir flestar hafnir, einhver sérákvæði fyrir viðkomandi höfn sem þyrfti á sérstakri meðhöndlun að halda.

    Mig langar að spyrja hv. formann nefndarinnar, einfaldlega vegna þess að ég gleymdi því á fundi nefndarinnar í morgun um það sem kemur fram í athugasemdum á bls. 16, í fylgiskjali II frá fjmrn. Þar kemur fram neðst á bls. 16:
    ,,Ákvæðum um starfsemi Hafnabótasjóðs er einnig breytt. Hið sérstaka vörugjaldsálag er lækkað úr 25% í 20% og rennur nú til starfsemi Hafnabótasjóðs sem er ætlað að létta kostnaðarhluta hafnarsjóða og -samlaga, í stað þess að koma til hækkunar á framlagi ríkisins eins og núverandi lög kveða á um.``
    Mig langar að spyrja hv. formann að því, af því að hæstv. ráðherra er ekki hér í salnum, hvernig á þessu standi. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þarna væri verið að tala um 25% álagið sem er inni í frv. og það hefur farið fram hjá mér ef það hefur lækkað niður í 20% en í umfjöllun ráðuneytisins virðist, ef ég er ekki að misskilja málið, vera gert ráð fyrir því að það yrði á þessu veruleg lækkun ef þetta er rétt skilið sem þarna stendur.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann lengur um þetta mál, það kann vel að vera að ég taki til máls aftur. Það er einungis eitt mál til viðbótar sem ég vil ræða hér að lokum og það er að í brtt. meiri hlutans er ákvæði sem varðar möguleikann til að setja reglugerðir og þar ætlar meiri hlutinn að leggja til að ráðherra geti sett reglugerðir vegna breytinga á reglum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ef minni háttar breytingar verði á reglum á hinu Evrópska efnahagssvæði þá geti ráðherra ákveðið að breyta reglugerðum í samræmi við það. Ég vil segja það, þrátt fyrir orð hv. formanns nefndarinnar um það sem hér gerðist á liðnu þingi um þetta efni, að ég man ekki betur en það hafi orðið nokkur breyting á orðalagi á því ákvæði sem sett var inn í sambandi við umfjöllun um lögin um hið Evrópska efnahagssvæði, þ.e. bandorminn um samgöngumál sem var samþykktur á síðasta þingi, frá því sem var rætt í upphafi í nefndinni þegar við í minni hlutanum tókum undir að það væri til bóta að gera þessar breytingar, þá man ég ekki betur en það hafi verið lengra og ítarlegra sem þá var til umræðu heldur en það sem að lokum kom. Ég vil samt ekki gera lítið úr því að hv. formaður leggur það til að hér verði bætt við, en ég tel að það sé miklu skýrara að gera það með svipuðum hætti og gerðist við umfjöllun um almannatryggingalögin um daginn þar sem kom upp ágreiningur á lokastigi meðferðar málsins, einmitt um þetta atriði, reglugerðarvald ráðherra. Þá varð samkomulag í nefndinni um að bæta við 66. gr. laganna um almannatryggingar þessum orðum: ,,Við greinina bætist ,,enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.````
    Við munum flytja brtt. við 3. umr. með þessum hætti ef við náum ekki samkomulagi um orðalag á þessum hlutum á milli umræðna.
    Ég hef nú talað lengra mál en ég hefði annars gert en ég sagði það í upphafi ræðu minnar að vegna þess að okkur tókst ekki að fá málinu frestað og fá tækifæri til þess að fara yfir það í nefndinni betur en gert var eftir að við lukum við að tala við þá sem kallaðir voru á fund nefndarinnar og eftir að komin voru upp ný mál til umfjöllunar í tengslum við þetta mál, þá hef ég sem sagt talið mig þurfa að koma því á framfæri sem ég hef gert og hefur því miður ekki verið nægilega skipulega fram sett, einfaldlega vegna þess að ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig undir þessa umræðu eftir að fundi lauk í nefndinni í morgun. Ég hafði vonast til þess og talið að það væru nokkur rök til að gera ráð fyrir því að við fengjum betri umfjöllun í nefndinni en komið var vegna þess hvernig málin lágu þá fyrir.