Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:24:10 (3728)


[15:24]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins tvennt sem ég vil nefna af því sem kom fram í máli hv. frsm. minni hlutans. Í fyrsta lagi varðandi hlutafélög eða fyrirtæki sem hafnarsjóðir kunna að vera aðilar að. Það hefur auðvitað margkomið fram að slík fyrirtæki eru skattlögð í samræmi við það sem gerist um önnur slík fyrirtæki þrátt fyrir ákvæði sem eru um skattfrelsi hafnarsjóðanna sjálfra.
    Hitt atriðið varðar 9. brtt. um heimildir ráðherra til þess að setja reglugerð. Ég skýrði þetta áðan og tel að þær skýringar hafi verið fullnægjandi og þessi ákvæði séu fullnægjandi til þess að þjóna því sameiginlega sjónarmiði okkar að veita ekki slíkar opnar heimildir til reglugerðar ef EES-samningnum verður breytt. Það segir að vísu í bráðabirgðaákvæðinu, ef um einhverjar verulegar breytingar er að ræða. Það er auðvitað margt að því er snertir samgöngumál í þessum samningi sem ekki kemur við okkur Íslendinga og þó að reglugerðum væri breytt að því er lúti að slíkum ákvæðum þá tel ég ekki neina ástæðu til þess að það fari fyrir Alþingi ef það kemur ekkert við okkar hagsmuni á einn eða annan máta. En með tilliti til orða hv. þm. þá vil ég gjarnan bjóðast til þess að kalla þessa tillögu til baka til 3. umr. því ég hygg að það sé vilji okkar allra að þarna liggi alveg ljóst fyrir að okkar sameiginlega markmiði sé náð. Ég tel að það væri vel hægt að hugsa sér að það orðalag verði tekið upp sem hv. þm. nefndi, enda væri þá líka tekin upp tilvitnun í lögin um breytingu á lagaákvæði er varðar samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.