Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:26:23 (3729)


[15:26]

     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því og ég tel að þetta sé mjög vel ásættanlegt það sem hv. formaður nefndarinnar var að tala um áðan og ég býst við að það verði engin fyrirstaða frá hendi minni hlutans í því að koma þessu fyrir með þeim hætti sem hann nefndi.
    Um hlutafélögin vil ég segja það að auðvitað efast ég ekkert um að þau verða skattlögð með eðlilegum hætti, það er ekki um það að ræða. Gagnrýni okkar beinist að því að hafnir sem sérstakar stofnanir eru undanþegnar sköttum og skyldum og fá framlög frá ríkinu til framkvæmda, en síðan geti þessi fyrirtæki, þ.e. hafnirnar, í krafti síns styrks og hann getur orðið býsna mikill sem fyrirtækis ef menn fara að beita þeim sem slíkum --- mér er kunnugt um það að sumir hafnarsjóðir eru mjög sterkir fjárhagslega og ég tel að það sé ekki eðlilegt að þeir geti með peningum eða styrk sem þeir hafa fengið vegna framlaga ríkisins --- í samkeppni milli fyrirtækja með þeim hætti að leggja hlutafé til fyrirtækja sem standa í samkeppni á vinnumarkaðinum. Það er það sem ég er að gagnrýna og ég tel að það sé mjög vandasamt að finna einhverjar millileiðir í þessu sem hægt er að halda utan um.