Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:37:29 (3733)


[15:37]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frsm. minni hluta samgn. rakti hér rækilega ýmis atriði sem við í minni hlutanum í samgn. höfum haft við þetta frv. að athuga alveg frá því að það var fyrst lagt fram til skoðunar á þinginu 1991--1992. Þá var það reyndar ekkert rætt en um það hefur verið fjallað frá því á 116. löggjafarþingi.
    Við teljum enn að frv. þarfnist miklu betri skoðunar en hefur komið fram. Það var einnig rakið í máli hv. frsm. Jóhanns Ársælssonar að það væru komnar fram allmargar brtt. frá því að frv. fyrst hóf sína göngu hér. Þó að fyrstu 16 brtt. sem komu fram á löggjafarþinginu í fyrra og fylgja sem skýringar með því frv. sem lagt var fram í haust hafi að mörgu leyti verið orðalagsbreytingar þá eru þær líka efnisbreytingar. Þær breytingartillögur sem eru lagðar fram núna eru í raun og veru eingöngu efnisbreytngar. Í því sambandi vil ég minna á að það var mikil áhersla lögð á það við lok þings í fyrravor að þessu frv. yrði lokið og það fengi stimpil á þinginu sem lög frá Alþingi og talið að það væri orðið alveg nægilega gott til að vera samþykkt sem lög frá Alþingi. Síðan hefur komið í ljós í meðförum samgn. frá því í haust að nú eru komnar fram 10 brtt. sem eru efnislegar brtt. og hv. formaður nefndarinnar hefur boðað nokkrar í viðbót. Þetta sýnir í hnotskurn að frv. er alls ekki nógu gott enn til þess að hljóta staðfestingu sem lög frá Alþingi.
    Það er búið að vinna eftir þeim lögum sem í gildi eru a.m.k. sl. 10 ár, frá 1984, með nokkrum breytingum síðan. Er raunar sagt í athugasemdum með frv. að ekki sé verið að gera neitt veigamiklar breytingar á lögunum með frv. heldur sé verið að sníða af ýmsa agnúa og breyta kostnaðarþátttöku ríkissjóðs, gefa heimild til þess að hafnir geti verið þátttakendur í hlutafélögum um annan rekstur og verið að festa í sessi 25% vörugjaldið og gefa fyrirheit um hafnasamlög. Þetta eru í raun veigamestu breytingarnar.
    Við skulum aðeins skoða þær breytingar sem á að fara að gera. Í fyrsta lagi að stofna hafnasamlög. Það er auðvitað ekki svo stórt mál að það þurfi lagabálk til þess að gera það. Það er hægt að gera, eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, að það þyrfti fyrst og fremst að vera samkomulag um það heima fyrir að hafnir vildu ganga til stofnunar hafnasamlags og ég hygg að ekki hefði þurft að búa til nýtt frv. þess vegna.
    Í öðru lagi er verið að breyta mjög kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í byggingu hafnarmannvirkja og ég held að það sé engan veginn til að sníða af agnúa á lögunum eins og þau eru í dag. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem sýnd er á fskj. II með frv. er fyrst og fremst verið að breyta því þannig að það sem kallað er náttúruaðstæður hafi í dag hærri styrkhæfni. Þær hafi 90% framlag frá ríkinu í stað þess að vera hæst með áður 75% styrkhæfni. En það sem þeir kalla rekstraraðstæður, og þar er fyrst og fremst átt við innri hafnirnar, lækkar í flestum tilfellum úr 75% í 60% framlag.
    Það hefur komið fram allmikil gagnrýni frá hafnarstjórnum og hafnarnefndum sveitarfélaga einmitt á þessa breytingu. Ef áætlunin hefur verið sú með þessu frv. að stefna að því að ríkið taki eitthvað minni þátt í þessum framkvæmdum í samræmi við það sem núv. ríkisstjórn hefur sett sér að reyna að lækka útgjöld ríkissjóðs, þá sýnist mér að þessar áætlanir gangi þvert á það. Með því að hækka framlög við það sem kallað er hér náttúruaðstæður, þ.e. ytri mannvirki, hafnargarðar, siglingamerki, dýpkanir o.fl., þá er fyrst og fremst verið að --- ég vildi segja örva til þess að hafnarstjórnir leiti eftir því að fara í slíkar framkvæmdir sem eru með svo háa styrkhæfni.
    Nú held ég að við verðum að viðurkenna það á Íslandi að við séum komin með nokkuð mikið af höfnum. Lega landsins og okkar atvinnuvegir útheimta það auðvitað að við höfum góðar hafnir. En er ástæða til þess með breytingu á stofnframlagi ríkisins að hvetja til þess að farið verði í gerð fleiri hafna og styrkja meira þær framkvæmdir þar sem styrkhæfnin er meiri, t.d. ytri hafnirnar? Það hlýtur að örva að farið sé í óhagkvæmar framkvæmdir sem eru mjög dýrar. Það er oft og tíðum mjög dýrt að vinna ytri hafnarmannvirki. Ég held að þetta markmið náist engan veginn. Og ef við skoðum það út frá stöðu hafnarnefnda og sveitarfélaganna þá finnst mér þetta vera alveg þveröfugt. Vegna þess að oft og tíðum eiga sveitarfélög og hafnarnefndir eftir að vinna ýmislegt sem kemur til með að flokkast undir innri hafnir og eiga þá samkvæmt þessu frv. að taka á sig meira við það og það getur gert þeim mjög erfitt fyrir. Sérstaklega finnst mér einkennilegt að hér skuli vera lækkað framlag til mengunarbúnaðar í höfnum. Styrkhlutfall búnaðar til mengunar og slysavarna er lækkað úr 75% í 60%. Það finnst mér vera mjög sérkennileg aðstaða ekki hvað síst á þessum tímum þegar mengunarslys í sjó hafa heldur aukist en hitt og með því nauðsynlegasta að slíkar varnir séu fyrir hendi í höfnum.
    Eins og ég sagði í upphafi þá finnst mér vanta að fara betur í þá vinnu sem ætti að koma fram í nýju frv. til hafnalaga. Það er ekki verið að fara inn á neinar nýjar brautir nema í sambandi við kostnaðarskiptingu og hafnasamlög reyndar líka en ekki verið að fara inn á nýjar brautir og setja upp eitthvert heildarskipulag á höfnum landsins, flokka þær t.d. niður vegna þess að hlutverk þeirra er mjög mismunandi og þær eru mjög mismunandi stórar. Það eru fiskihafnir. Það eru sérstakar vöruhafnir, smábátahafnir og hvað við viljum telja upp. Ég teldi mjög eðlilegt að byrja á því að flokka hafnirnar eitthvað niður með tilliti til þess hvaða hlutverki þær gegna.
    Mér finnst einnig hafa vantað í undirbúningsvinnuna við frv. að hafa yfirlit yfir framkvæmdir síðustu ára og með tilliti til þess hverju þær hafa skilað í tekjum til viðkomandi hafnarstjórna og hafnarnefnda. Hverju það hefur skilað til sveitarfélagsins og einnig hvaða áhrif það hefur haft á atvinnumöguleika viðkomandi sveitarfélaga. Mér finnst alveg nauðsynlegt að skoða það líka til þess að vita hvar við stöndum og setja sér síðan eitthvert markmið með heildarskipulag á höfnum og flokka þær niður eftir stærð, notkun og hlutverki.
    Það fara miklir fjármunir í hafnir hér á landi eins og ég sagði áðan. Staðhættir okkar, lega landsins og okkar atvinnuvegir hafa útheimt að mikið fjármagni fari af hálfu ríkisins til þessa málaflokks. Það fara í kringum 830 millj. kr., þó að ég sé ekki með fjárlögin hérna hjá mér, í þetta á yfirstandandi ári fyrir utan ýmsar lántökur sem eru til viðbótar. Það er því allmikil fjárhæð sem fer í þetta og alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvernig hún skilar sér best og hvernig hún vinnur að þeirri uppbyggingu sem við viljum að gerð sé.
    Ég óttast það t.d. að með því að breyta þessari kostnaðarskiptingu þar sem farið er í hærri styrkveitingu til ytri hafna muni geta kallað á það að enn fleiri óski eftir því að koma upp ytri hafnargörðum. Það eru mjög dýrar framkvæmdir en ef það er styrkt með hærra framlagi en verið hefur mun það frekar kalla á að fara í þær framkvæmdir. Það er einu sinni tilhneiging til þess ef ríkisstyrkurinn er hærri.
    Hér hefur mjög verið gagnrýnt þetta 25% viðbótarvörugjald á vörugjald í höfnum og raunar búið að gera mjög vel grein fyrir því hér. Það er rétt að spyrja í framhaldi af því hvort menn hafa gert sér grein fyrir því í sambandi við það 25% vörugjald sem nú á að bætast ofan á gjaldstofn vörugjalda í höfnum hverjir bera skaðann af því ef gjaldið innheimtist ekki. Nú getur verið búið að leggja gjaldið á samkvæmt þeirri umferð sem er um höfnina og þeim flutningum sem þar fara um og gera skil á því til Hafnabótasjóðs. Svo getur komið upp sú staða að það fyrirtæki sem átti að greiða 25% gjaldið geti það ekki eða gjaldið náist ekki af einhverjum ástæðum. Það er þá hægt að velta því fyrir sér hvort Hafnabótasjóður muni endurgreiða þetta gjald. Eða hvernig fer með það?
    Það er líka alveg nauðsynlegt að halda því til haga að hér er verið að leggja á byggðaskatt. Hér er verið að leggja á margfeldisskatt. Þegar við vorum að ræða síðustu fjárlög fyrir jólin var nokkuð rætt um landsbyggðarskatt sem verið var að leggja á þá landsmenn sem byggju lengst í burtu frá höfuðborginni og þyrftu að sækja ýmsa þjónustu til höfuðborgarinnar. Það var rætt um þetta í sambandi við að setja virðisaukaskatt á innanlandsfargjöld. Menn sáu það með umræðu og ýmsum athugunum að þetta var mjög svo óréttlátur skattur. Í umræðum var hann felldur niður þannig að það kom ekki til framkvæmda að leggja þennan landsbyggðarskatt á innanlandsflugið.
    En mér sýnist að þarna sé einmitt verið að leggja á landsbyggðarskatt. Þarna er verið að leggja skatt á þá flutninga sem landsbyggðin þarf að fá til sín og það eru dæmi um það að þetta 25% gjald getur verið lagt á allt að þrisvar og kannski oftar ef ekki fæst leiðrétting á því að ferjurnar eigi nú að fara að greiða þetta líka bæði við lestun og losun á bílunum. Þetta er svo sannarlega landsbyggðarskattur líka sem ekki hvað síst verður til að hækka vöruverð úti á landi.

    Raunar hefur þessi gagnrýni iðulega komið fram frá því að fyrst var byrjað að ræða um þetta 25% vörugjald sem tekjuauka fyrir ríkissjóð eins og það var fyrst. Hér er það raunar orðinn tekjustofn fyrir Hafnabótasjóð.
    Ég held að þetta þyrfti að endurskoða upp á nýtt og leggja það niður fyrir sér a.m.k., eins og lögmenn segja stundum, til vara ef haldið verður til streitu þessu 25% vörugjaldi að það sé ekki lagt nema einu sinni á sömu vöruna.
    Annað í sambandi við breytta greiðsluþátttöku ríkissjóðs til hafnarmannvirkja. Sérstaklega minni sveitarfélögin hafa gagnrýnt það mjög að nú skuli vera tekin út 40% styrkveiting samkvæmt gildandi lögum til hafnarvoga, hafnsögubáta og fastra krana til löndunar. En þetta er samkvæmt núgildandi lögum 40% styrkhæft en á samkvæmt frv. ekki að vera það lengur.
    Þess er vert að minnast í því sambandi að ríkið leggur þær skyldur á hafnir landsins að eiga og reka hafnarvogir. Það er oft á tíðum dýr póstur sérstaklega hjá minni höfnum að hafa þær vogir sem þær reka í sæmilegu ástandi og að sjá til þess að þær svari þeim kröfum sem gerðar eru. Mér finnst það skjóta mjög skökku við þar sem ríkið er að leggja þessar skyldur á hafnir landsins að eiga og reka hafnarvogir að nú skuli eiga að fella algerlega niður þátttöku ríkisins í því að koma því upp. Á þetta hefur verið mjög mikið bent sérstaklega frá minni höfnum í landinu.
    Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu mjög. Ég held að við séum búin að koma á framfæri því sem okkur finnst sérstaklega athugavert við frv. Ég held að það sé mjög margt enn þá sem þyrfti að skoða. Eins og það að hafnir geti verið þátttakendur í hlutafélögum sem tengjast rekstri þeirra. Það hefur engan veginn fengist skilgreint. Fiskmarkaðir hafa verið nefndir í athugasemdum með frv. og komið fram í umræðum í samgöngunefnd líka. En það hefur í raun og veru ekki verið skilgreint nægilega og það getur verið spurning hvað er átt við. Hvaða fyrirtæki mundu falla undir það? Eru það ekki bara öll fyrirtæki sem að einhverju leyti gætu nýtt sér höfnina á einhvern hátt, eins og olíufélög eða skipafélög? Það getur verið miklu fleira en fiskmarkaðir þó að þeir séu nefndir í athugasemdum. Það er mjög vafasamt að ætla höfnum að fara að taka þátt í hlutafélögum því að hafnirnar eru byggðar upp fyrir opinbert framlag og það hlýtur að koma til þess að það stangist á við samkeppnislög þar sem samkeppnisaðstaða fyrirtækja á að vera sem jöfnust, a.m.k. byggjast á réttlæti. En það getur varla gert það ef hafnir sem eru byggðar fyrir opinber framlög geta síðan verið þátttakendur í hlutafélögum um annan rekstur sem er svo í samkeppni við einhver önnur fyrirtæki.
    Mér fannst það athyglisvert að áðan kom einn stjórnarliði og spurði um skýringar á þessu frv. Það bendir enn og aftur til þess að ekki sé búið að vinna frv. nægilega vel. Það hefði, eins og ég sagði í upphafi, þurft rækilegrar endurskoðunar við og raunverulega að semja alveg nýtt frv. sem hefði önnur markmið en þetta. Þess vegna líka leggjum við í minni hluta samgn. til að frv. sé vísað til ríkisstjórnarinnar og það verði endurskoðað. Það liggur ekkert á að samþykkja það nú.
    Að síðustu þá vil ég geta um, ég veit ekki hvort ég á að segja fáránleikann í þessu öllu saman, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var skipting fjármuna til hafna miðuð við þetta frv. sem við erum að ræða hér, frv. sem ekki er orðið að lögum. Það er ekki skipt í fjárlögum eftir lögunum eins og þau gilda í dag heldur eftir frv. sem enn þá er verið að smíða.