Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 16:01:49 (3735)


[16:01]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki fannst mér fara mikið fyrir þessu andsvari hjá hæstv. samgrh. að þurfa að fara að minna á hafnargarðinn í Bolungarvík. Ég sagði ekki í minni ræðu að ég væri að telja það eftir sem gert hefði verið eða að það ætti að fara að leggja niður þær hafnir sem hingað til hafa verið úrskurðaðar nauðsynlegar um landið og það á ekki hvað síst við á Vestfjörðum. En ég benti á það að með því að auka styrkhæfni til ytri hafnarmannvirkja væri hætta á því að menn mundu jafnvel fara út í gerð nýrra hafna. Ekki þarf að skilja það svo að ég sé að segja að það þurfi ekki að halda við þeim höfnum sem hingað til hafa sinnt sínu hlutverki og verið nauðsynlegar og ekki síst við aðstæður eins og í Bolungarvík. En hitt er annað mál að það þarf að skoða þessi mál alveg að nýju. Það á ekkert síður við á Vestfjörðum en annars staðar.