Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 10:33:38 (3738)

[10:33]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd forsætisnefndar fyrir starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992.
    Samkvæmt 12. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, ber stofnuninni árlega að semja heildarskýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Í samræmi við þessa lagaskyldu tók Ríkisendurskoðun saman skýrslu um starfsemi sína á árinu 1992 og birti í maímánuði síðastliðnum. Ég mun hér á eftir gera grein fyrir þessari skýrslu í stórum dráttum.
    Eins og nafn skýrslunnar gefur til kynna er tilgangur hennar fyrst og fremst sá að lýsa störfum stofnunarinnar og verkefnum á árinu 1992, svo og starfsmannahaldi og reikningsskilum á því ári. Í starfsskýrslu eins og þessari eru einstök verkefni sem stofnunin tók að sér að vinna ekki tekin fyrir eða brotin til mergjar. Það er gert í sérstökum skýrslum frá stofnuninni sem hver um sig fjalla um afmörkuð verkefni og nægir að vísa til þeirra vilji menn kynna sér þær nánar.
    Forsætisnefnd hefur rætt það á fundum sínum hvaða vinnulag skuli viðhafa varðandi hinar ýmsu skýrslur Ríkisendurskoðunar. Þar hefur verið mótuð sú stefna að skýrslum Ríkisendurskoðunar verði eftir eðli máls hverju sinni vísað til þingnefnda þar sem þær verði teknar til athugunar og síðar ræddar hér á hv. Alþingi ef tilefni þykir til. Skýrslur af þessum toga eru t.d. skýrslur um framkvæmd fjárlaga og aðrar þær er lúta að fjármálum ríkisins og vísað er yfirleitt til hv. fjárln. og svo aftur skýrslur um fagleg efni sem vísað er til hinna einstöku fagnefnda Alþingis eftir því sem efni stendur til. Niðurstöður slíkra skýrslna og umræður um þær eiga því eðli málsins samkvæmt tæpast heima undir þessum dagskrárlið sem ætlaður er til þess að ræða starfsskýrslu stofnunarinnar og annað er lýtur að heildarstörfum hennar.
    Þann 1. júlí 1992 lét Halldór V. Sigurðsson af starfi ríkisendurskoðanda sem hann hafði þá gegnt um 23 ára skeið. Hann hafði þá verið skipaður í endurskoðunarráð NATO í Brussel. Við starfi hans tók Sigurður Þórðarson og var hann skipaður ríkisendurskoðandi til sex ára, sem er í samræmi við ákvæði laga um skipunartíma ríkisendurskoðanda.
    Halldór V. Sigurðsson andaðist þann 27. október sl. Hann átti óskorað traust og virðingu samstarfsmanna sinna og annarra þeirra sem honum kynntust. Öllum ber saman um að störf sín hafi hann unnið af mikilli þekkingu og vandvirkni en jafnframt af þeim myndugleik sem stöðu hans hæfði. Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að flytja sérstakar þakkir forsætisnefndar og Alþingis fyrir þau störf sem Halldór V. Sigurðsson vann á vegum Alþingis sem ríkisendurskoðandi.
    Svo sem fram kemur í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar voru störf stofnunarinnar með hefðbundnum hætti á árinu 1992. Auk hinnar almennu fjárlagaendurskoðunar stóð stofnunin fyrir stjórnsýsluathugunum og sinnti ýmiss konar lögbundinni upplýsingaöflun og upplýsingagjöf um fjárhagsmálefni ríkisins. Litlar breytingar urðu á starfsmannahaldi stofnunarinnar á því ári. Í árslok 1992 voru fastráðnir starfsmenn alls 38, þar af voru tveir í hlutastarfi. Stöðuheimildir voru 40 og tvær þeirra voru því ónotaðar.

    Svo sem áður hafði tíðkast keypti Ríkisendurskoðun þjónustu af löggiltum endurskoðendum vegna reikningsskila ýmissa ríkisfyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins, enda beinlínis gert ráð fyrir því í lögum um stofnunina að störfum sé hagað á þann hátt. Þetta helgast af því að stofnunin býr hvorki yfir mannafla né aðstöðu til að sinna að fullu lögbundnum verkefnum á sviði fjárhagsendurskoðunar. Í árslok 1992 voru í gildi samningar við 25 löggilta endurskoðendur eða endurskoðunarskrifstofur um endurskoðun 88 ríkisfyrirtækja og stofnana. Einkum var hér um að ræða sjúkrastofnanir, svo og fyrirtæki og sjóði í B-hluta ríkisreiknings.
    Svo sem fram kemur í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar skiptist starfsemi stofnunarinnar í eftirfarandi meginþætti:
    Að annast endurskoðun hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.
    Að annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.
    Að vera þingnefndum og yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.
    Að framkvæma stjórnsýsluendurskoðun hjá ríkisfyrirtækjum.
    Endurskoðun ríkisreiknings skal á hverjum tíma einkum miða að eftirfarandi:
    Að reikningsskilin gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við reikningsskilavenjur.
    Að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli og starfsvenjur.
    Samkvæmt 43. gr. stjórnarskrárlaga skipar Alþingi þrjá yfirskoðunarmenn ríkisreiknings og endurskoðar Ríkisendurskoðun ríkisreikning í nánu samráði við þá.
    Í kjölfar framlagningar fjmrh. á ríkisreikningi fyrir hvert fjárhagsár er endurskoðunarskýrsla yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar lögð fram á Alþingi.
    Eins og að framan greinir er endurskoðunarskýrslan unnin í nánu samstarfi yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar. Áður en lög um Ríkisendurskoðun tóku gildi voru það eingöngu yfirskoðunarmenn sem létu Alþingi í té álit sitt á ríkisreikningi.
    Á árinu 1992 birtist skýrsla um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1990, auk þess sem unnið var að skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1991, en sú skýrsla birtist í febrúar sl. Endurskoðunarskýrsla vegna ársins 1992 var birt í nóvember sl. og hafði þá í fyrsta sinn um áratuga skeið tekist að birta endurskoðunarskýrslu vegna ríkisreiknings á næsta ári eftir að reikningsári er lokið. Þetta er að mínum dómi markverður áfangi sem mikilvægt er að kosta kapps um að festist í sessi. Í tengslum við endurskoðunarskýrslu ríkisreiknings birtist jafnframt skýrsla yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og hefur stofnunin jafnan lagt fram verulegt starf til aðstoðar yfirskoðunarmönnum svo sem fyrr segir.
    Auk þessa birti stofnunin á árinu 1992 eina skýrslu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1991 og tvær um framkvæmd fjárlaga á árinu 1992 en eins og kunnugt er ber stofnuninni meðal annars að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga.
    Á sviði stjórnsýsluendurskoðunar lauk stofnunin við tvö verkefni. Annað var um starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs en hitt var um úttekt á bifreiðamálum ríkisins. Jafnframt var á árinu 1992 unnið að stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins og kom sú skýrsla út í janúar 1993.
    Á árinu 1992 var endurskoðun ársreikninga EFTA í umsjá Íslands og Finnlands og sá Ríkisendurskoðun um þátt Íslands í því starfi. Þá var og sett á stofn svokallað endurskoðunarráð í tengslum við EES-samninga, sem í eiga sæti einn fulltrúi frá hverju aðildarríkja EFTA. Af hálfu Íslands situr fulltrúi Ríkisendurskoðunar í ráðinu. Til fróðleiks skal þess og getið að frá og með 1. jan. 1993 var fulltrúi Ríkisendurskoðunar skipaður til setu í endurskoðunarráði OECD til næstu fjögurra ára, en ráðið hefur yfirumsjón með ársreikningi skrifstofu OECD í París.
    Loks er þess að geta að á árinu 1992 varð stofnunin við mörgum erindum og beiðnum, bæði frá forsætisnefnd, fjárln. og landbn. Alþingis, svo og frá ráðuneytum, um úttekt á einstökum málum.
    Ýmis smærri atriði er að finna í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992, sem hér verða eigi upp talin en eru þó þáttur í því starfi sem stofnunin hefur unnið að á því ári.
    Ríkisendurskoðun er gert skylt að halda skrá yfir heildartekjur og gjöld sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, svo og gera athugasemdir við framlagða reikninga þeirra.
    Eins og á liðnum árum vann stofnunin í náinni samvinnu við dómsmrn. markvisst að því á árinu 1992 að leggja niður sjóði sem áttu óverulegar eignir, þ.e. 50 þús. kr. eða minna, eða sameina þá öðrum sjóðum. Þannig voru 238 sjóðir lagðir niður á árinu en 17 nýir bættust við. Í árslok 1992 voru á skrá 756 sjóðir og stofnanir sem starfa á grundvelli staðfestrar skipulagsskrár.
    Fjárheimildir stofnunarinnar á árinu 1992 námu samtals 158,1 millj. kr. Útgjöld hennar urðu á hinn bóginn einungis 141,2 millj. kr. Reikningar Ríkisendurskoðunar eru endurskoðaðir af Guðmundi Skaftasyni, löggiltum endurskoðanda, en hann var skipaður til starfans af forseta Alþingis á árinu 1989, sbr. 5. gr. laga um stofnunina.
    Rekstraryfirlit Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992 er birt í starfsskýrslunni.
    Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir helstu atriðum sem birtast í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992. Með lögum nr. 12/1986 var stöðu Ríkisendurskoðunar breytt í núverandi horf. Þá var m.a. gerð sú breyting að stofnunin skyldi starfa á vegum Alþingis en áður starfaði hún í nánum tengslum við og undir yfirstjórn fjmrn.
    Þrátt fyrir að ekki sé kunnugt um afskipti einstakra fjármálaráðherra á fyrri tíð af starfi ríkisendurskoðanda eða Ríkisendurskoðunar var sjálfstæði hennar ekki tryggt í lögum gagnvart handhöfum framkvæmdarvaldsins. Breytingin með lögunum 1986 var því bæði tímabær og nauðsynleg. Stofnunin starfar nú sem eftirlitsstofnun á vegum Alþingis og sjálfstæði hennar gagnvart handhöfum framkvæmdarvaldsins er tryggt.
    Meginhlutverk stofnunarinnar er, eins og fram hefur komið, eftirlit og endurskoðun á meðferð ríkis og ríkisstofnana á opinberu fé. Þetta hlutverk er vandasamt og gífurlega viðamikið og við það verk er grundvallaratriði að eftirlitsaðilinn hafi óskorað sjálfstæði gagnvart þeim sem eftirlitið og endurskoðunin beinist að. Á sama hátt beinist starf Ríkisendurskoðunar að því að fylgjast með því að handhafar framkvæmdarvaldsins fari ekki út fyrir þær heimildir til ráðstöfunar á fjármunum sem Alþingi hefur veitt og gera athugasemdir ef út af er brugðið. Þetta hlutverk er afar mikilvægt til þess að styrkja stöðu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og skýrir þetta enn mikilvægi þess að Ríkisendurskoðun starfi á vegum Alþingis en ekki á vegum framkvæmdarvaldsins og undir forsjá tiltekins ráðherra.
    Það er afdráttarlaus skoðun mín að störf Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum hafi sannað nauðsyn breytinganna sem gerðar voru á lögunum um stofnunina árið 1986. Starfsemin hefur orðið umfangsmeiri en áður vegna aukinna verkefna og niðurstöður í skýrslum stofnunarinnar í mörgum tilvikum markvissari en áður tíðkaðist.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lok máls míns fyrir hönd forsætisnefndar og væntanlega allra hv. alþm. flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á árinu 1992.