Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 11:12:13 (3741)


[11:12]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er ágætur siður sem tekinn hefur verið upp hér að ræða um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar, fjalla um einstök atriði í starfsemi stofnunarinnar og þann starfsramma sem henni er ætlaður og það sem frá henni kemur í meginefnisflokkum. Síðan er okkur ætlað að fjalla um þau mál sem frá Ríkisendurskoðun koma á öðrum vettvangi. Ýmist um skýrslur í nefndum, um ríkisreikninginn á hverjum tíma og athugasemdir við hann og í tengslum við umræðu um starfsskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.
    Ég tel því ekki út af fyrir sig ástæðu til þess á þessum vettvangi að fara að ræða almennt um stöðu Ríkisendurskoðunar nema ég vil segja að ég tel að staða Ríkisendurskoðunar hafi verið að styrkjast. Ég tel að hún hafi verið að batna að mörgu leyti en hún er viðkvæm og vandmeðfarin. Í raun og veru er það þannig að þeir sem eru þar í fyrirsvari þurfa að gæta þess mjög vandlega að niðurstöður þeirra séu skoðaðar eins og þær eru, þ.e. sem greining á vanda og ábendingar um úrbætur á hverjum tíma en hvorki dómur um sekt eða sýknu hjá viðkomandi aðilum. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hafa það í huga vegna þess að bæði hafa fjölmiðlar og eins alþingismenn sjálfir viljað taka skýrslu Ríkisendurskoðunar að þessu leytinu til í pólitískri umræðu óþarflega nákvæmlega að mínu mati þó það megi um leið gagnrýna þingið og þingmenn fyrir að hafa ekki tekið mark á sumu öðru sem frá Ríkisendurskoðun kemur að því er varðar leiðbeiningar um endurbætur á rekstri ríkisstofnana.
    Það er býsna mikið áhyggjuefni hvað það gengur oft seint að koma ábendingum Ríkisendurskoðunar í framkvæmd á vegum einstakra ríkisstofnana eða ráðuneyta. Þó er þetta allt í meginatriðum að þokast í réttan farveg. Það tekur að vísu tíma en við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru ekki nema örfá ár síðan að menn voru að afgreiða hér t.d. ríkisreikninga mörg ár aftur í tímann. Það eru ekki nema örfá ár síðan að menn fóru að taka hér til meðferðar með eðlilegum hætti, liggur mér við að segja, fjáraukalög jafnóðum og útgjöld falla til. Það er örstutt síðan að fjárln. t.d. gerði tillögur til þessarar virðulegu stofnunar um sérstakar nýjar lagareglur um greiðslur úr ríkissjóði sem hefur verið hér til meðferðar í mörg ár og eru líklega enn.
    Það er því mjög margt sem hefur verið að þróast og það er eðlilegt að það taki dálítinn tíma. Ég held að menn eigi ekkert að vera ósáttir við það í sjálfu sér ef Alþingi er örugglega á réttri leið. Við erum meira að segja svo illa stödd í þessu þjóðþingi að því er varðar ríkisreikninga að fjmrn. og Ríkisendurskoðun greinir á um grundvallaratriði í uppfærslu ríkisreiknings. Það hefur lengi verið til meðferðar og er svo sérkennilegt að ekki skuli vera hægt að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu að bestu manna yfirsýn vegna þess að þetta er ekki pólitík heldur fag. Maður skyldi því ætla að menn gætu komist að einhverri sæmilega víðsýnni niðurstöðu án þess að vera að smella sér í skotgrafirnar til að hjóla hver í annan. En af einhverjum ástæðum hefur það verið þannig að mönnum hefur ekki auðnast að lenda þessu máli. Ég hef tekið eftir því að fjmrn. er alltaf að vísa í einhverja ríkisreikningsnefnd sem leysir ekki neitt nema kannski framtíðina en ekki þær fortíðardeilur sem uppi hafa verið.
    Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. varðandi það að forsn. Alþingis hefur beint því til Ríkisendurskoðunar, ef ég skildi hann rétt, að skýrslur hennar eigi að fara til fagnefnda. Þó mönnum kannski finnist þetta ekki vera mikil tíðindi í sjálfu sér þá tel ég þetta faglegan áfanga í vinnu Alþingis Íslendinga. Ég tel það þakkarvert að forsn. skuli hafa tekið þessa ákvörðun.
    Ég tel hins vegar rétt eins og í tilefni af orðum hv. 6. þm. Vestf. áðan að benda á að auðvitað getur fjárln. óskað eftir því, eða hvað, að skýrslur eins og þær sem nefndar voru í framsöguræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. komi beint til umræðu á Alþingi. Ekki bara í nefndinni heldur á Alþingi. Og ég vil spyrja að því hvort það er ekki skilningur annarra hér sem hafa vélað um þessi mál að fjárln. geti óskað eftir því við forsn. að þessi mál séu tekin beinlínis á dagskrá. Hér standi á dagskránni einn góðan veðurdag: Skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi Landgræðslunnar, og þá er það rætt hér. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs, og þá er það rætt hér. Ég held að það gæti verið ágætur siður fyrir utan það að fagnefndir taki málið og fyrir utan það að fjárln. taki málið þá komi málið hérna aðeins til umræðu í þessari stofnun. Til þess m.a. að framkvæmdarvaldið átti sig á því hver eru hin pólitísku atriði sem einstakir þingmenn vilja draga fram úr þessum skýrslum.
    Þarna er ég ekki fyrst og fremst að hugsa um rekstrarskýrslurnar. Ég er fyrst og fremst að hugsa um stjórnsýsluathugunina. Vegna þess að um rekstrarskýrslurnar vilja menn rífast með nokkuð hefðbundnum hætti alltaf og kenna einlægt hver öðrum út og suður um alla hluti. En að því er varðar stjórnsýsluskýrslurnar horfir málið allt öðruvísi við. Hv. 6. þm. Vestf. minntist á það áðan að í sambandi við stjórnsýsluendurskoðunina ætti fjárln. e.t.v. að beita sér fyrir því að það yrði skipaður einhver starfshópur til að fara í málið. Ég sé ekki betur en að það sé hreinn óþarfi. Í rauninni getur fjárln. gert það sem henni sýnist í málinu enda sé þá meiri hluti fyrir því þar. Ég þekki ekki innviðina þar í einstökum atriðum. En auðvitað verður að vera einhver meiri hluti fyrir því þar. Þó fyndist mér hæpið af pólitískum meiri hluta fjárln. að neita minni hlutanum segjum um að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landgræðslu ríkisins ef menn vildu það. Ég held að það sé hlutur sem væri a.m.k. mjög erfiður fyrir forsn. að neita. Segjum að minni hluti fjárln. óskaði eftir því að þessar stjórnsýsluskýrslur yrðu ræddar þá held ég að menn mundu fallast á það og það yrði tekið fyrir.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, um leið og ég þakka fyrir þessa ágætu skýrslu og tel að við höfum átt í meginatriðum ágætt samstarf við Ríkisendurskoðun. Ég verð þó að segja það að Ríkisendurskoðun þarf aðeins að vanda sig. Það er ekki alveg sama hvernig hún umgengst framkvæmdarvaldið. Ég kann ekki að meta það að Ríkisendurskoðun sé að hjálpa framkvæmdarvaldinu við einstök útfærsluatriði í bráðabirgðalögum t.d. Ég kann ekki að meta það. Ég tel að það sé ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar. Ég tel að það sé heldur ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar endilega að sitja yfir fjárln. lon og don sem hún gerði hér í fornöld. Ég held hún sé hætt því í seinni tíð, annars veit ég það ekki. Vegna þess að það verða að vera skil þarna á milli. Ríkisendurskoðuna þarf að passa sig á því að láta ekki flækja sig í einstök atriði á vegum framkvæmdarvaldsins af því að hún getur þurft að gagnrýna hlutina á eftir. Þess vegna kunni ég ekkert að meta það fyrr á árum þegar Ríkisendurskoðun fannst mér stundum vera eins og til aðstoðar framkvæmdarvaldinu um einstök atriði. Ég hef ekki smekk fyrir það. Mér finnst að menn séu þar að rugla saman rullum og það sé betra að menn haldi sig innan tiltekinna faglegra marka. Það finnst mér allt vera í rétta átt hjá þessari stofnun vil ég segja um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu, virðulegur forseti.