Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 11:37:06 (3744)

[11:37]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel á margan hátt óeðlilegt að ræða um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992 án þess að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir því það er hlutverk Ríkisendurskoðunar að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og þessi skýrsla er skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis um það eftirlitshlutverk sem Ríkisendurskoðun gegnir.
    Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi að þessi stofnun sé sem virkust og það gefist tækifæri til þess að ræða við hæstv. ráðherra um samskipti þeirra við Ríkisendurskoðun og það sem miður fer hjá framkvæmdarvaldinu. Það er því miður svo og hefur ávallt verið þannig að ýmislegt má betur fara og verður ávallt svo og þess vegna geri ég athugasemd við það að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir, sérstaklega hæstv. fjmrh.
    Ég ætla ekki að tala mikið um útgjaldahlið fjárlaganna og þær athugasemdir sem hafa komið frá Ríkisendurskoðun í því sambandi en vildi fyrst og fremst vekja athygli á því að ljós Ríkisendurskoðunar hefur fram til þessa beinst í mjög litlum mæli að tekjuhlið fjárlaga þótt nokkuð hafi verið fjallað um innheimtumál og ýmsar brotalamir sem eru á þeim vettvangi. Ég vænti þess hins vegar að eftir að Ríkisendurskoðun hefur tekið það að sér að fara ofan í þær skattbreytingar sem áttu sér stað á Alþingi fyrir áramótin þá beinist ljósið í ríkara mæli í framtíðinni að þessum hluta mála. Það er staðreynd að skattsvik eru mjög mikil hér á landi og Alþingi hefur ekki og framkvæmdarvaldið enn síður beint athyglinni nægilega að því að minnka þessi skattsvik. Lagagerð miðast ekki við það að skattsvik verði sem minnst og gert lítið úr því að það sé verið að koma skatttæknilegum málum þannig fyrir að það stuðli að sem bestum skilum á sköttum.
    Það vakti a.m.k. athygli mína þegar hæstv. forsrh. sagði í viðtali við sjónvarpið á gamlársdag að sá sem hér stendur hafi viljað stofna vinnufriðnum í landinu í hættu af skatttæknilegum ástæðum. Það er sannarlega ekki rétt. Ekki vildi ég stofna vinnufriðnum í hættu en það er því miður allt of algengt að gert er lítið úr því sem kallað er skatttæknilegar ástæður. Það sé eitthvert bókhald, einhver skrifstofumennska sem komi málinu ekki við. Þetta er því miður algengt bæði hjá framkvæmdarvaldinu og jafnvel hjá löggjafarvaldinu líka. Það er ekkert lítið mál hvort löggjöf er með þeim hætti að hún stuðli að skattsvikum og við hljótum að reyna að miða okkar löggjöf sem mest við það að innheimta teknanna sé sem best. Ég er þeirrar skoðunar að starfsemi Ríkisendurskoðunar þurfi að beinast í ríkara mæli að þessu verkefni þótt ég geri á engan hátt lítið úr því sem þeir hafa gert að því er varðar útgjaldahliðina.
    Það er svo mikið sem tapast og það er svo mikið sem svikið er undan að ég tel að starfsemi stofnunar þurfi að beinast í enn ríkara mæli að þessu sviði.
    Ekki meira um það í þessum fáu orðum sem ég ætlaði að koma á framfæri. Ég vildi þá aðeins víkja að sölu ríkisfyrirtækja.
    Ég tel að það hafi verið mikill losarabragur á því hvernig staðið hefur verið að sölu ríkisfyrirtækja hér á undanförnum árum og Alþingi hafi veitt allt of rúmar heimildir til ráðherra í þeim málum. Ég gæti nefnt ýmis dæmi í því sambandi en vildi nefna það að m.a. er nú í efh.- og viðskn. verið að fjalla um sölu á Lyfjaverslun ríkisins. Þannig hefur verið staðið að málum þar að þar er verið að fjárfesta fyrir u.þ.b. 300 millj. kr., þar af 250 millj. í framleiðsludeild fyrirtækisins, en vitað er að aðilar sem hugsanlega vildu kaupa Lyfjaverslun ríkisins hefðu hvað mestan áhuga fyrir því að flytja framleiðslu þessa fyrirtækis yfir í önnur fyrirtæki sem hafa getu til þess. Ég hlýt að spyrja: Hvað gengur framkvæmdarvaldi til sem hagar sér með þessum hætti? Hvernig má það vera að það er annars vegar stefna að selja ríkisfyrirtæki og hins vegar verið að fjárfesta þar fyrir hundruð milljóna króna og þar með komið í veg fyrir að hægt sé að selja það með sem hagkvæmustum hætti?
    Nú er ég ekki að mæla með því að þetta fyrirtæki verði selt. Ég hef ýmsar efasemdir um það að eigi að selja það en ég hlýt að gagnrýna að staðið skuli að málum eins og þar er gert. Það sýnir fram á að sala á ríkisfyrirtækjum er ekki með þeim hætti sem eðlilegt er og það er ekki hægt í ljósi reynslunnar að gefa opnar heimildir um sölu þessara eigna. Það er nauðsynlegt að áður en endanleg sala fer fram komi það til umfjöllunar á Alþingi annaðhvort við umræður og afgreiðslu eða a.m.k. í þeim nefndum þingsins sem fjalla um málið.
    Þetta kom líka berlega í ljós í sambandi við sölu á Síldarverksmiðjum ríkisins en risið hafa miklar deilur um sölu þess fyrirtækis og enginn vafi á því að þar er verið að selja fyrirtæki á lágu verði. Ég minni á í því sambandi að ríkið hefur nýlega yfirtekið miklar skuldir vegna þess fyrirtækis og eðlilegt hefði verið að bíða með sölu þess og sjá hvort ekki væri mögulegt að ná hærra verði fyrir það fyrirtæki.
    Það má vel vera að það sé fyrst og fremst markmið núv. hæstv. ríkisstjórnar að selja þessi fyrirtæki en það skipti litlu máli hvað fáist fyrir þau. Má í því sambandi minna á ummæli hæstv. fjmrh. um að það standi til að selja Búnaðarbankann en það eigi að selja hann ódýrt.
    Nú veit ég ekki hvernig það mál stendur en ég vil vekja sérstaka athygli á þeim þætti að það þarf

að styrkja eftirlit með sölu ríkisfyrirtækja, annaðhvort með því að gefa þar mun þrengri lagaheimildir, sem ég tel vera best, eða að hæstv. fjárln. fylgist betur með þessum þætti mála. Nú sýnist mér að hv. fjárln. hafi ekki gert það og hafi ekki haft neina möguleika til þess og e.t.v. ekki verið samstaða um það í nefndinni en ég geri athugasemd við þennan þátt mála í framkvæmdum hjá fjmrn. og tel að þetta þurfi að taka til endurskoðunar og það eigi sérstaklega að beina því til Ríkisendurskoðunar.
    Það voru þessi tvö atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi koma á framfæri, annars vegar tekjuhliðin og eftirlit með henni og hins vegar aukið eftirlit með sölu ríkisfyrirtækja.