Efling laxeldis

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 12:13:09 (3753)


[12:13]
     Flm. (Guðmundur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um eflingu laxeldis á þskj. 516. Auk mín eru flutningsmenn Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að tryggja stöðu laxeldis og stuðla að eflingu greinarinnar, m.a. með eftirfarandi hætti:
    1. Fiskeldi verði tryggt fjármagn til að bæta eldisaðstæður og tryggja betur árangur í eldinu.
    2. Fiskeldisstöðvar verði styrktar til kaupa á bóluefni, a.m.k. næstu 2--3 árin.
    3. Fiskeldisstöðvum verði heimilað að kaupa ótryggða orku.
    4. Tryggt verði að fiskeldisfyrirtæki njóti svipaðra afurðalána og með sambærilegum kjörum og aðrar útflutningsgreinar.
    5. Markaðar verði sérstakar leiðir til að auðvelda innflutning erfðaefnis í þeim tilgangi að auka og flýta fyrir kynbótum laxfiska.
    6. Mörkuð verði opinber heildarstefna, a.m.k. fram til næstu aldamóta, um málefni fiskeldis.
    7. Fjárskuldbindingar vegna stofnkostnaðar hjá þeim fiskeldisstöðvum, sem þegar hafa verið reistar, verði endurskoðaðar og þeim aflétt, a.m.k. tímabundið.``
    Fiskeldi er atvinnugrein sem ekki hefur allt of góðan orðstír, hvorki hjá almenningi né stjórnvöldum. Þó má merkja að það hefur orðið ákveðin hugarfarsbreyting enda hafa á undanförnum árum orðið miklar framfarir í fiskeldinu og það fiskeldi sem hér var fyrir fjórum til fimm árum er í rauninni að ýmsu leyti afar frábrugðið því fiskeldi sem nú er. Við höfum oft heyrt að möguleikar séu miklir í fiskeldi og það er sama hvort við lítum á heiminn eða aðeins okkar land, möguleikarnir eru vissulega miklir og m.a. er talið að fram til aldamóta muni verða mikil aukning í eldisframleiðslu í heiminum og hún muni jafnvel þrefaldast til fjórfaldast frá því sem nú er ef tekin eru næstu 20--30 ár.
    Framleiðsla eldisafurða hér á landi er u.þ.b. 3.000 tonn og framleiðsluverðmæti rétt tæpur milljarður. Það eru að langmestu leyti útflutningstekjur. Í Noregi, þar sem vagga laxeldisins stendur og langmestur hluti framleiðslu eldislax í heiminum fer fram, er framleiðslan um 165--180 þús. tonn á ári. Verðmæti þessar framleiðslu er 50--60 milljarðar ísl. kr. á ári. Ef okkar framleiðsla væri í hlutfalli við framleiðslu Norðmanna, t.d. miðað við höfðatölu, þá værum við að framleiða hér 8--9 þús. tonn af eldisfiski að verðmæti 2,5--3 milljarðar kr. En það eru 3--4% af útflutningsverðmætum sjávarafurða hér á landi. Það er e.t.v. ekki raunhæft að tala um 8--9 þús. tonn en miðað við fulla nýtingu núverandi mannvirkja þá er fyllilega raunhæft að tala um framleiðslu sem næmi um 6 þús. tonnum. Framleiðsluverðmæti þeirrar framleiðslu væri um tæpir 2 milljarðar og það er að langmestu leyti innlendur kostnaður sem er við þá framleiðslu eða um 80--90%. Bein störf við slíka framleiðslu væru um 400, 200 ný störf mundu sem sagt skapast og þá eru ekki talin nein margfeldisáhrif í því og ekki reiknað með að neitt verulegt magn af þessari framleiðsu væri unnið áfram hér á landi.
    Það kann vel að vera að þetta sé flokkað sem draumórar en ef betur er að gáð þá er þetta fyllilega raunhæft og má í því sambandi nefna kannski fyrst og fremst tvö atriði. Í fyrsta lagi að það er nauðsynlegt að afföll séu ekki óeðlilega mikil. Þar hefur þegar náðst góður árangur og miklar framfarir og má minna á að framleiðsla afurða, útsett seiði sem er í rauninni eðlilegur mælikvarði á þessa hluti, var árið 1992 nærri 90% meiri en árið 1991. Það liggja ekki fyrir tölur enn þá fyrir árið 1993.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að framleiðsla á einingu eldisrýmis sé sem mest og 1992 voru framleidd hér 27 kg á hvern rúmmetra eldislax en 20 kg á rúmmetra árið áður og þarna hefur árangur batnað um 35%. Þannig er það ljóst að hér eru að eiga sér stað stórstígar framfarir sem vert er að taka eftir og nauðsynlegt að taka með í reikninginn þegar þessi mál eru rædd.
    Rannsóknaráð ríkisins, sem er nú kannski sú opinbera stofnun sem mest hefur og best sinnt málefnum fiskeldisins, gaf út í desember sl. svokallaða markáætlun fyrir strandeldi þar sem fram kemur m.a. nákvæm markmiðasetning allt fram til ársins 2000. Niðurstaðan í þeirri skýrslu er m.a. að stefna beri að framleiðslu árið 1994 sem nemi 36 kg á rúmmetra, árið 1996 50 kg á rúmmetra og árið 2000 70 kg á rúmmetra. Nú þegar eru dæmi um að framleidd séu 40--50 kg og dæmi eru um ásetning allt upp að 75 kg, þannig að hér er um að ræða fyllilega raunhæf markmið og þau mumu gjörbreyta öllum forsendum fyrir rekstir fiskeldisstöðva.
    Í áðurnefndir markáætlun Rannsóknaráðs eru sett fram skilyrði sem uppfylla verður áður en hægt er að reikna með að þessi árangur náist. Þessi skilyrði eru einkum:
    1. Að rekstrarumhverfi verði viðunandi og sambærilegt því sem er hjá öðrum atvinnugreinum.
    2. Að notkun súrefnisíblöndunar í eldisstöðvum verði í góðu lagi.
    3. Að eingöngu verði unnið með kynbætta eldisstofna.
    4. Að unnið verði að aukinni nýtingu jarðvarma í eldisstöðvum, þ.e. þeim lykilþætti sem í upphafi átti að tryggja okkur forskot í fiskeldi.
    Hitt er svo auðvitað ekki síður mikilvægt að hér verði áfram eldisstöðvar starfandi enda er í rauninni beinlínis rangt að þær séu látnar standa auðar og ef svo fer þá er fyrst hægt að tala um að þeir mörgu milljarðar sem oft hefur verið minnst á hafi tapast. Þá fyrst hafa þeir tapast ef þessar mörgu eldisstöðvar verða ónýtar og ekki verður hægt að framleiða í þeim fisk í framtíðinni.
    Þótt ánægjulegar framfarir hafi orðið í fiskeldinu er rekstrarstaða flestra fiskeldisstöðva afar erfið og greinin býr hér á landi að ýmsu leyti við aðstæður sem eru með öllu óviðunandi. Ljóst er að margt er unnt að lagfæra strax ef vilji er fyrir hendi og verði það gert erum við Íslendingar að byggja upp atvinnugrein sem mun skipta afkomu þjóðarinnar miklu í framtíðinni.
    Hvað viðvíkur tölusettum greinum í þingsályktunartillögunni skal eftirfarandi tekið fram:
    1. Nauðsynlegt er að ljúka framkvæmdum í fiskeldisstöðvum þannig að þær geti í senn fullnýtt í rekstri sínum bæði nýjustu þekkingu um eldi og náttúrulegar aðstæður sem þær eiga kost á. Í þessu sambandi hefur einkum verið litið til bættrar vatnsöflunar, aukinnar nýtingar jarðvarma og súrefnisíblöndunar í eldisvatn. Hér á landi er einungis í einni fiskeldisstöð unnt að stjórna eldishita innan kjörhita fyrir eldi á laxi. Í öðrum stöðvum hefur hitastig yfirleitt verið of lágt stærstan hluta ársins og árangurinn því ekki eins góður og hann annars gæti orðið.
    Það má benda á í þessu sambandi að það hefur margt áunnist og m.a. hefur Rannsóknaráð ríkisins beitt sér fyrir rannsóknum á þessu sviði. Nú hefur verulegur árangur náðst í endurnýtingu varma úr frárennsli í Miklalaxi hf. og endurnýtingu eldisvatns hjá Sveinseyrarlaxi hf. Ef tekst að auka eldishita um 2--4 gráður er ljóst að auka má framleiðslu um a.m.k. 25% á ári og lækka um leið framleiðslukostnað. Þá hefur verið unnið að athyglisverðum tilraunum með súrefnisíblöndun í Íslandslaxi hf. og víðar og vatnsnotkun minnkuð um 25--30%, en slíkt skiptir miklu máli fyrir vatnsöflun fyrirtækjanna og sparar verulega fjármuni vegna minni dælingar.
    Ekki er ástæða til að ætla annað en að með áframhaldandi rannsóknum og þróunarstarfi megi enn bæta árangurinn verulega, bæði á þeim sviðum sem hér hafa verið nefnd og á öðrum sviðum. Það er því mikilvægt að nægilegt fé sé veitt til rannsókna en ekki síður að fiskeldisstöðvunum sé jafnóðum gert fjárhagslega kleift að nýta þá þekkingu sem aflað er. Eðlilegt er að litið sé á greinina sem þróunarverkefni enn um sinn og hið opinbera veiti til hennar fé þannig að nauðsynlegar framfarir verði og tryggt sé að uppbygging greinarinnar verði til frambúðar.
    Áætlað er að afföll í eldislaxi hafi verið um 10% af ársframleiðslunni árið 1992 en 15% árið 1991. Þessi bætti árangur stafar fyrst og fremst af betri forvörnum og bættri meðhöndlun á sjúkum fiski, en langstærstan hluta affalla má rekja til sjúkdóma. Árið 1992 er talið að afföll vegna slysa eða bilunar í búnaði hafi hvergi numið meira en 5% og að meðaltali um 3%. Miðað við meðalútflutningsverð á laxi árið 1992 má reikna með að verðmæti afurða, sem töpuðust vegna sjúkdóma, hafi numið um 57 millj. kr. og eru þá ekki talin önnur áhrif sjúkdóma, svo sem minni vöxtur. Þar sem flestar fiskeldisstöðvar eru í rekstrarörðugleikum er nauðsynlegt að stjórnvöld styrki þær tímabundið í baráttunni við sjúkdóma, en ef stöðvarnar fengju ókeypis bóluefni gæti það leitt til lækkunar framleiðslukostnaðar um a.m.k. 4% að meðaltali.
    Lengi hefur verið rætt um að lækka raforkukostnað fiskeldisstöðva án þess að það hafi komið til framkvæmda. Raforkukostnaður í strandeldisstöðvum er talinn um 10--15% af rekstrarkostnaði og því mikilvægt að á þessum málum sé tekið. Fiskeldisstöðvar eru stórir notendur raforku og notkun þeirra er tiltölulega jöfn árið um kring. Þær eru einnig búnar varaaflsstöðvum og því í stakk búnar til að bregðast við ef straumrof verður af einhverjum orsökum. Fiskeldisstöðvar geta því hæglega nýtt sér ótryggða orku, en þær hafa ekki fengið hana þó að eftir hafi verið leitað. Ef fiskeldisstöðvar fengju keypta ótryggða orku gæti það lækkað orkukostnað þeirra um 60--70%, en það svarar til 8--11% lækkunar rekstrarkostnaðar.
    Framleiðsluferli í fiskeldi er langt, 2--3 ár. Fjárbinding og þörf fyrir rekstrarfé er því mikil. Eftir mörg erfið ár í rekstri og mikil töp má segja að viðskiptabankarnir hafi lokað á alla rekstrarfyrirgreiðslu, en slíkt jafngildir í raun dauðadómi yfir greininni og háir allri framþróun í henni. Þetta er í raun óskiljanleg ákvörðun og óeðlilegt að bankarnir loki á heila grein því að eðlilegt er að bankarnir meti hvert fyrirtæki fyrir sig. Til að tryggja eldisstöðvunum rekstrarfjármagn hefur Ríkisábyrgðasjóður ábyrgst afurðalán til eldisstöðva en sú fyrirgreiðsla er með öllu óviðunandi og ófullnægjandi eins og hún hefur verið framkvæmd. Til þess að fá þessi afurðalán hafa stöðvarnar þurft að tryggja allan fiskinn og þótt sjálfsábyrgð hafi verið 50% sem að mestu leyti gerir trygginguna marklausa hafa iðgjöld numið 5% af tryggingarverðmæti. Vextir af afurðalánum nema 10--13% og lántökukostnaður um 3%. Stöð, sem á t.d. fisk sem metinn er á 80 millj. kr., verður því að greiða 4 millj. kr. í tryggingar til að fá afurðalán. Ef lánið nemur 20 millj. kr. er kostnaður við tryggingar því 20% af lánsfjárhæðinni auk 13--16% í vexti og kostnað. Heildarkostnaður stöðvarinnar er þannig 33--36% sem enginn löglegur atvinnurekstur í landinu fær staðið undir. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi og getur ekki gengið enda er þarna í rauninni bara verið að gera það sem kallað er að lengja í snörunni, þetta leysir engann vanda.
    Á ráðstefnu sem haldin var um fiskeldi á Akureyri í mars 1993 lýsti landbrh. því yfir að stefnumörkunar í fiskeldi væri að vænta fyrir páska árið 1993 en sú stefnumótun hefur ekki litið dagsins ljós. En það er auðvitað ein forsenda þess að fjármunir og vinna sem lögð eru í fiskeldi nýtist vel og árangur náist að hér sé ákveðin og skýr stefna stjórnvalda í málefnum greinarinnar og ég vænti þess vissulega að ráðherra muni nú taka á sig rögg og koma fram með þá stefnu sem allra fyrst.
    Á síðasta þingi flutti ég þáltill. svipaðs efnis sem því miður varð aldrei útrædd. Ég man sérstaklega í þeim umræðum sem þá fóru fram um málið að ég lét þau orð falla að ég treysti hæstv. ríkisstjórn til að taka röggsamlega á málinu. Í þeim umræðum sagði þáv. hv. þm. og núv. hæstv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, að hann treysti ríkisstjórninni alls ekki til að taka á þessu máli jafnvel þó málið væri vissulega brýnt.
    Nú hafa mál breyst. Málið er reyndar áfram álíka brýnt ef ekki brýnna en það var og möguleikarnir eru skýrari og betri en þeir voru þá. Það sem hefur breyst er að hv. þm. er orðinn hæstv. ráðherra og situr í ríkisstjórninni. Ég treysti því að hann muni nú beita sér fyrir þessu máli í ríkisstjórninni vegna þess að þetta mál þolir enga bið, það verður að taka á því strax annars verður það of seint.
    Ég vísa þessu máli hér með til síðari umræðu og hv. landbn.