Efling laxeldis

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 12:34:27 (3755)


[12:34]
     Flm. (Guðmundur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Vestf. fyrir hans jákvæðu orð um þessa tillögu. Í sjálfu sér get ég tekið undir allt það sem hann sagði og ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega. En ég vil samt ítreka það sem sagt var hér áðan og hv. þm. kom inn á að fiskeldi á framtíð fyrir sér. Og þó tillagan fjalli eingöngu um laxeldi þá mun hún samt sem áður hafa líka áhrif á annað fiskeldi sem er í landinu. Við höfum nú þegar talsvert bleikjueldi og við erum að vinna að mjög athyglisverðum rannsóknum á lúðueldi norður í Eyjafirði og víðar um land reyndar. Það er unnið að tilraunaeldi á hlýsjávartegundum norður á Sauðárkróki og það eru ákveðin rannsóknaverkefni í gangi með aðrar tegundir suður á Reykjanesi og þannig mætti áfram telja.
    Við erum því fyrst og fremst að tala um fiskeldið. Ástæðan fyrir því að þessi þáltill. fjallar eingöngu um laxeldið er fyrst og fremst sú að það fiskeldi sem er í landinu núna er að langmestu leyti laxeldi og það verður einhvers staðar að byrja. Það verður alltaf að byrja. Þrátt fyrir bættan og miklu betri árangur núna í laxeldi en nokkurn tímann hefur verið í landinu og ágætar horfur, eins og fram kemur í skýrslum Rannsóknaráðs ríkisins, þá gæti farið svo ef greininni verður ekki sinnt að hún lognast út af og þá verður heldur ekki byggt á þeirri reynslu því að hún mun á örskömmum tíma hverfa úr landinu. Fiskeldismenn munu snúa sér að öðrum verkefnum og við verðum að byrja upp á nýtt. Það er alveg sama hvort við tölum um lúðueldi eða hlýsjávartegundir eða skeldýr eða hvað við tölum um það verður alltaf að byrja. Ef berjumst því ekki fyrir því að koma þessari grein almennilega á rekspöl þá munum við bara þurfa að greiða byrjunarkostnaðinn aftur seinna. Ég minni á að þegar Norðmenn eru að framleiða eldislax fyrir verðmæti sem nemur 50--60 milljörðum íslenskra króna gerðist það ekki á einni nóttu. Það tók 20 ár að þróa laxeldið í Noregi þangað til að það sprakk út og varð að þeim stóra atvinnuvegi sem það er núna.
    Hér á landi erum við reyndar búin að vinna í þessu í 10 ár má segja en sl. tvö ár sérstaklega hefur komið í ljós að þekkingin er til staðar, árangurinn batnar og allar þær rannsóknir og athuganir sem gerðar hafa verið undanfarin ár benda á að það er raunhæft að reikna með að fiskeldi geti orðið arðbær atvinnugrein hér á landi. Annars þakka ég hv. þm. Jónu Valgerði fyrir hennar mál og geri ráð fyrir að við getum barist saman í þessum málum í framtíðinni.