Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 13:36:10 (3756)


[13:36]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Aðdragandi þessa frv. og tilurð þess hefur verið langur og um margt sérkennilegur og einstakur. Ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt er að með dómi Hæstaréttar hinn 20. jan. sl. var kveðið svo á að innflutningur Hagkaups hf. á skinku frá sl. sumri hafi verið heimill þrátt fyrir ákvæði búvörulaga. Þar með var hrundið undirréttardómi frá því í haust. Þessi dómur, eins og margsinnis hefur komið fram, leysti ekki úr þeirri réttaróvissu sem hér hafði verið varðandi búvörulögin. Þvert á móti skapaði dómurinn nýja og kannski enn meiri réttaróvissu í stað þeirrar sem fyrir var eins og ég mun koma nánar að síðar.
    Ég tel óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, þar sem ég ber ábyrgð á þessum málaflokki, innflutningi og útflutningi á landbúnaðarvörum, að gera í upphafi máls míns stuttlega grein fyrir þeim rökum sem ég hafði fyrir því að 52. gr. búvörulaganna héldi varðandi innflutningsmálin. Ég veit ekki hvort ég má kannski skjóta því hér inn að það má segja að okkur hafi verið nokkur vandi á höndum þegar við fórum að velta því fyrir okkur hvernig ætti að gera það enn skýrar en gert er í lögunum að það skuli standa sem hér er í lögunum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.``
    Ég hafði orð á því við eitt þjóðkunnugt skáld hvernig mætti orða þessa hugsun skýrari en gert væri í lagatextanum. Hann tók sér einn sólarhring til umhugsunar en sagði mér á eftir að hann fyndi engin orð í íslenskri tungu sem gætu orðað þessa hugsun skýrar. Á þeim tíma datt mér því í hug hvort kannski væri ekki rétt að í stað þess að flytja það frv. sem ég flyt hér þá væri 1. gr. frv. svohljóðandi: Við 52. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi: Þau orð sem standa í 1. og 2. mgr. skulu skilin eins og þau standa. En sú varð ekki niðurstaðan og af þeim sökum er það frv. flutt sem ég geri hér grein fyrir.
    Þegar ég fór að velta því fyrir mér hvaða rök ég ætti að færa fyrir því því til skýringar að ég hafði haldið að þessi orð stæðust fyrir dómstólum komst ég að þeirri niðurstöðu að ég gæti ekki flutt þann rökstuðning betur en með því að flytja hér sératkvæði minni hluta Hæstaréttar sem skýrir í öllum megindráttum hvers vegna ég komst að þeirri niðurstöðu á sl. sumri að innflutningur á skinku Hagkaups hf. væri óheimill. En sératkvæði hæstaréttardómaranna Gunnars M. Magnússonar, Haralds Henryssonar og Péturs Kr. Hafsteins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þegar áfrýjandi sótti um heimild til innflutnings á soðinni svínaskinku og soðnum hamborgarhrygg 31. ágúst og 2. sept. 1993 voru í gildi lög nr. 88/1992 um innflutning. Samkvæmt 1. gr. þeirra skyldi innflutningur á vöru og þjónustu til landsins vera óheftur nema annað væri sérstaklega tekið fram í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Með lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem sett voru samtímis fyrrnefndum lögum, voru numin úr gildi lög nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Með reglugerð nr. 415/1992, um innflutning og innflutningsleyfi, féll úr gildi auglýsing nr.

313/1990, um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, sem gefin hafði verið út með stoð í lögum nr. 63/1979, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 312/1990, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í þessari auglýsingu og fyrri reglugerðum um sama efni, sem fyrir gildistöku laganna nr. 63/1979 höfðu verið settar á grundvelli laga nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála o.fl., voru ákvæði þess efnis að innflutningur annarra vara en þar voru greindar væri óheftur eða frjáls.
    Á þessum tíma voru og í gildi lög nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 5/1992 og lög nr. 112/1992. Samkvæmt 55. gr. laganna, upphaflega 41. gr., sbr. nú 52. gr. laga nr. 99/1993 um sama efni, skyldi leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins áður en ákvarðanir væru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Jafnframt var sagt að innflutningur landbúnaðarvara skyldi því aðeins leyfður að Framleiðsluráð landbúnaðarins staðfesti að innlend framleiðsla fullnægði ekki neysluþörfinni. Með innflutningslögunum frá 1992 var ekki hróflað við ákvæðum þessara laga. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að skýring þessarar lagagreinar hljóti að ráðast af greinargerð með henni í frumvarpi að lögunum þannig að merking hennar sé í reynd önnur og mun þrengri en orð hennar segja til um. Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt lögskýringarreglum víkur greinargerðin að því leyti sem hún samrýmist ekki skýru og afdráttarlausu orðalagi lagagreinarinnar og ótvíræðum vilja löggjafans.
    Af greinargerð með frv. til laga um innflutning nr. 88/1992 og meðferð þess á Alþingi verður örugglega ráðið að vilji löggjafans hefur ekki staðið til þess, að innflutningur landbúnaðarvara yrði svo að segja óheftur nema af heilbrigðisástæðum. Um það ber ekki síst glöggt vitni framsöguræða viðskiptaráðherra á Alþingi, 10. sept. 1992, sbr. og yfirlýsingu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, 13. sept. 1993, þar sem fram kemur sá skilningur að með lögum nr. 88/1992 hafi ,,engar efnislegar breytingar orðið á heimildum til innflutnings á búvörum``.
    Samkvæmt þessu eru engin efnisrök fyrir því að svo verði litið á að gildi áðurnefnds ákvæðis búvörulaga frá 1985 um atbeina Framleiðsluráðs landbúnaðarins og neysluþörf innan lands hafi á þeim tíma er hér skiptir máli einskorðast við ákvæði laga um skorður við innflutningi af heilbrigðisástæðum.``
    Ég vil aðeins skjóta því inn hér frá eigin brjósti að ég kom mjög að því á sínum tíma í landbn. að fjalla um búvörulögin þegar þau voru sett á árinu 1985 og ég minnist þess ekki að í eitt einasta skipti hafi sú hugsun komið fram að verið væri að fjalla um innflutning á landbúnaðarvörum af heilbrigðisástæðum.
    Dómurinn heldur svo áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innflutningur landbúnaðarvara sætti því í september 1993 þeim reglum sem fram komu í lögunum enda varð ekki annað ráðið af öðrum lögum eða milliríkjasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 88/1992. Ákvæði samnings um hið Evrópska efnahagssvæði um frjáls viðskipti með vöru og þjónustu sem ekki hafði öðlast gildi á þessum tíma getur ekki skipt máli við þessa lagatúlkun.
    Eigi verður talið að Framleiðsluráði landbúnaðarins hafi verið fengið ákvörðunarvald með fyrrgreindri 41. gr. búvörulaga. Því er einungis ætlað að staðfesta á grundvelli tiltækra upplýsinga hvort neysluþörf verði fullnægt með innlendri framleiðslu eða ekki. Ákvörðun um þá skipan hefur löggjafinn tekið. Þeir sem telja ályktanir ráðsins í þessu efni fara í bága við hagsmuni sína geta brugðist við með þeim úrræðum sem almenningi eru tryggð gagnvart stjórnvöldum samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar. Verður því ekki fallist á að í þessu lagaákvæði felist óheimilt framsal valds til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað málsins fyrir Hæstarétti.
    Í málinu voru lagðar fram af hálfu áfrýjanda lögfræðilegar álitsgerðir og blaðaúrklippur með fréttum og greinum þar sem fjallað er um þau álitaefni sem um er deilt. Framlagning slíkra gagna í dómsmáli er andstæð grundvallarreglum réttarfars um málatilbúnað og ber að átelja hana.``
    Svo mörg voru þau orð. Ég vil bæta því við að með þessum ummælum mínum er ég ekki að draga neitt úr því að okkur Íslendingum ber að hlíta dómi Hæstaréttar og skiptir í því efni ekki máli hvort okkur þykir hann réttlátur eða ranglátur fremur en þeir sem kváðu upp dóminn eða eru ánægðir með niðurstöðu hans geta komist hjá því að viðurkenna að meðal lögmanna og fræðimanna í lögfræði vekur ævinlega athygli þegar fjölskipaður dómur er í Hæstarétti. Það er nánast regla ef veltur á einu atkvæði um niðurstöðuna að slíkur dómur er tekinn til mjög rækilegrar efnislegrar athugunar af fræðimönnum og lögmönnum. Enda má færa fyrir því gild rök að undir slíkum kringumstæðum sé engan veginn einhlítt hver niðurstaðan verði. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera nokkur tilviljun þegar svo naumt er á munum um hvað æðsti réttur landsins telur vera hinn eina og sanna sannleik í þessum efnum.
    En einmitt út af því að okkur ber að hlíta lögum og taka þau alvarlega hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða áhrif þessi dómur hafi á búvörulögin og framkvæmd þeirra.
    Nú liggur það algerlega ljóst fyrir að þegar við hinn 21. des. sl. samþykktum lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þegar 72. gr. var bætt inn í búvörulögin, þá ríkti það réttarástand í landinu að undirréttur skipaður þrem dómendum hafði komist að þeirri niðurstöðu að búvörulögin héldu varðandi innflutning. Á þeim grundvelli og á þeim forsendum voru lögin 21. des. samþykkt. Af hálfu dómsmrn. og ég hygg líka í landbn. var reynt að hafa orðalag með þeim hætti að óyggjandi væri hvernig svo sem dómsniðurstaðan yrði í sambandi við Hagkaupsmálið.
    Það kom hins vegar í ljós eftir að dómur hafði verið kveðinn upp að lögmenn töluðu þar tveim röddum. Sumir töldu að með þessum dómi væru forsendum lagabreytingarinnar 21. des. sl. hrundið þó svo að dómur Hæstaréttar hafi ekki fjallað um það álitaefni.
    Það var af þeim ástæðum sem málið var tekið fyrir í ríkisstjórn þegar daginn eftir. Þar var samþykkt að hér á Alþingi skyldi lagt fram frv. sem fæli það í sér að sama réttarástand skapaðist og lögunum frá 21. des. var ætlað að tryggja. Ég vil raunar taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að þau lög standi eins og þau eru en ég tel að þeirri réttaróvissu sem er í landinu verði að eyða. Það gengur ekki að menn séu í vafa um það hvað séu lög í landinu.
    Það var af þeim sökum sem við höfðum gert okkur vonir um það í ríkisstjórninni að frágangi slíks frv. yrði unnt að ljúka þá þegar. Það komu upp ákveðin álitamál, m.a. í sambandi við verðjöfnunargjöld, sem óhjákvæmilegt var að leysa innan ríkisstjórnarinnar. Ég vil af því tilefni taka skýrt fram að það er mín skoðun að þá löggjöf sem nú er verið að efna til með þessu frv. verði að vanda sérstaklega. Það er óhjákvæmilegt að landbn. taki þau ákvæði sem við erum að fjalla um til rækilegrar athugunar og fái um það skoðun lögmanna hvort nokkur vafi geti leikið á því að lögin í heild sinni, breytingin sem samþykkt var 21. des. og það frv. sem ég er hér að fjalla um, að allt þetta þrennt sé orðað með þeim hætti að vilji Alþingis komi skýrt fram og ekki verði hægt að draga hann í efa. Það er alveg óhjákvæmilegt. Það er óþolandi fyrir Alþingi að fá lögin öðru sinni í höfuðið vegna þess að ekki hafi verið nægilega vel að þeim staðið. Ég vil að þessi skoðun mín sé alveg afdráttarlaus.
    Ég vil líka minna á að þegar ég mælti fyrir frv. í desember þá tók ég það sérstaklega fram einmitt það atriði að það væri mín skoðun að búvörulögin stæðu. Frv. var flutt á þeim forsendum. Það kom líka fram í máli mínu að réttur landbrn. til álagningar verðjöfnunargjalda væri afdráttarlaus sem er nauðsynlegt að fram komi líka vegna þess að frá ummælum mínum var ekki rétt skýrt í nál. minni hluta landbn. sem lagt var fram í sambandi við þau lög.
    Eins og hv. þm. sjá af frv. þessu er nú tekinn upp sá háttur að birta sérstakan viðauka um vörur þær sem háðar séu innflutningsleyfi landbrh. Auðvitað má um það deila hvort rétt sé að hafa þann hátt á eða annan. Það er ljóst að með því að hafa þennan hátt á geta engin eftirmál risið. En ég held að það sé líka alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir að með þessu frv. er ekki meiningin að breyta þeirri framkvæmd sem verið hefur á búvörulögunum. Við erum ekki að tala um það, þó hér sé verið að tala um bannlista, að fjölga þeim vörutegundum sem bannað er að flytja til landsins. Slík ályktun af þessu frv. væri útúrsnúningur. Það er heldur ekki verið að tala um það af hálfu landbrn., þó við segjum að við viljum hafa vald á innflutningi landbúnaðarvara, að við séum með þessu frv. og í kjölfar þess að efna til hækkunar á landbúnaðarvörum sem innfluttar eru. Það er ekki. Á hinn bóginn höfum við lagt á það áherslu í landbrn. að við viljum fella niður aðflutningsgjöld, skatta og tolla af vörum sem eru til landbúnaðarframleiðslu hér á landi. Er ég þá sérstaklega að tala um garðyrkjuna í þessu sambandi. Það hefur líka verið efst á blaði hjá mér að fella niður skatta á kjarnfóðri vegna hvíta kjötsins og mun sú framkvæmd ganga í gildi endanlega um næstu áramót en að hálfu leyti á þessu ári. Má segja að barátta mín fyrir því sé þess vegna að skila sér.
    Þetta tvennt er sem sagt ljóst: Við erum ekki að fjölga vörum á bannlista. Við erum heldur ekki að gefa eftir. Við erum ekki að efna til hækkunar á landbúnaðarvörum. Það erum við ekki að gera. En með þessu frv. er það líka staðfest að það er vilji ríkisstjórnarinnar að fara gætilega að þeim samningum sem við stöndum nú frammi fyrir í sambandi við frjálsari viðskiptahætti með landbúnaðarvörur. Ég vil í því sambandi leggja sérstaka áherslu á að það er ekki einungis í landbúnaðarvörunum sem við í ríkisstjórninni höfum áhyggjur af niðurgreiðslum erlendis, t.d. á blómum og garðávöxtum, svo er einnig um skipasmíðaiðnaðinn.
    Það er óhjákvæmilegt í lokin á þessari ræðu að láta í ljósi von um það að hv. þm. telji að sú niðurstaða sem hér er fengin sé tryggileg og nægileg. Við erum að tala um það að GATT-samningar gangi í gildi um næstu áramót, kannski á miðju næsta ári. Undirbúningur þeirrar löggjafar er auðvitað hafinn. Við erum þess vegna ekki með þessum lögum að skapa ástand sem eigi að vara til langs tíma heldur erum við að tala um skamman tíma. Ég er að tala um að ég telji að þessi lagaákvæði að þeim forsendum gefnum sem ég sagði hér áðan séu fullnægjandi.
    Nú er nauðsynlegt að okkur gefist tóm til þess að fara að ræða ýmsa aðra þætti í landbúnaðarmálunum, komast að öðrum hlutum sem varða bændur miklu og eru nauðsynlegir til að við getum réttilega brugðist við þeirri reynslu sem við höfum af búvörusamningunum eins og þeir liggja fyrir, bæði varðandi sauðfé og síðar mjólkurframleiðslu. Og við getum reynt að fara að gera okkur grein fyrir því hvernig við teljum að framhaldið eigi að vera eftir að búvörusamningarnir ganga úr gildi. Það eru slíkar áleitnar spurningar um gildi kvótans, hvort við eigum að breyta forsendum hans, hvort við verðum kannski alveg að fella hann niður á einhverju vissu árabili, og þá er ég að tala um kjötkvótann, og aðlögun landbúnaðarins í heild sinni að þeim breyttu aðstæðum og forsendum sem eru á markaðnum. Þetta eru mikil

viðfangsefni og þau kalla á athygli og lausnir.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til landbn. og tekið til 2. umr. eins og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar og þarf raunar ekki að biðja um. Það er nauðsynlegt að þingið gangi úr skugga um að þau lagaákvæði sem hér er efnt til séu fullnægjandi og ekki leiki vafi á hver verði framkvæmd búvörulaganna.