Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 13:59:07 (3757)


[13:59]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Við höfum hlustað á framsögu hæstv. landbrh. fyrir því frv. sem við höfum beðið eftir í tíu daga. Það vakti athygli að hæstv. ráðherra forðaðist eins og heitan eldinn að ræða um frv. sem slíkt og gaf til kynna að nú yrði landbn. að fara vel ofan í málið. Ég gat ekki skilið ráðherrann öðruvísi en svo að hann mundi ekki gráta það að landbn. kæmist að annarri niðurstöðu en ríkisstjórnin gerði og leggur hér fram í frumvarpsformi.
    Landbúnaðurinn er að ganga í gegnum mikið breytingaskeið á þessum árum og hefur sýnt það að hann er tilbúinn til að takast á við það. Hann hefur gert það m.a. með að semja um og framkvæma verulegar verðlækkanir á búvörum. Það kom m.a. fram í ræðu hæstv. forsrh. í svari við fsp. á mánudaginn var að á meðan almennt verðlag var að hækka um sem hann taldi 6--9% þá hafði verðlag á innlendri matvöru lækkað um 1%. Það þýðir á almennu máli að það hefur orðið veruleg lækkun á íslenskum búvörum. Þetta sjá þeir sem ferðast til nálægra landa og bera saman verðlag þar í dag við það sem var fyrir nokkrum árum. Á meðan landbúnaðurinn stendur í þessari baráttu sinni, m.a. til að takast á við breytt starfsskilyrði, þá búum við við það ástand að hér situr ríkisstjórn sem er ófær, ég endurtek, ófær um að taka á þessum málaflokki og aðstoða þessa atvinnugrein við þá aðlögun sína.
    Við höfum orðið vitni að því hvað eftir annað í þessu máli að Alþingi hefur staðið frammi fyrir því að binda í lög pólitísk hrossakaup ráðherra Alþfl. og Sjálfstfl. um landbúnaðarmál í lagatexta sem er illskiljanlegur og það er ekki von að dómstólar geti unnið eftir lögum frá Alþingi þegar þannig er unnið. Lögfræðingar sem hafa komið til okkar í landbn. og eru þaulkunnugir þessum málum segja: Það er enginn vandi að búa til skýran lagatexta sem tekur af öll tvímæli ef þeir sem eiga að búa til lagatextann vita hvað á að gera, ef framkvæmdarvaldið veit og getur komið frá sér hvað það ætlast til að Alþingi samþykki. En það hefur ekki gerst í þessu máli heldur var fyrir jólin samþykktur lagatexti sem hver gat túlkað sem hann vildi.
    Þetta er öldungis óviðunandi fyrir atvinnugrein sem er að berjast fyrir tilveru sinni í breyttum aðstæðum að búa við ríkisstjórn eins og hér er. Og til þess að kóróna þetta allt saman þá erum við komin með lagafrv. þar sem ekki á að lögfesta málamiðlun heldur á að setja ósamkomulagið í lög. Við eigum að lögfesta ósamkomulag stjórnarflokkanna með þeim viðauka sem hér er lagt til að verði settur við búvörulögin.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að í grundvallaratriðum með þessari breytingu er ekki verið að færa landbrh. vald, það er verið að taka af honum valdið til að setja reglugerðir varðandi þetta atriði. Menn geta deilt um það hvort allt falli þarna undir þessa upptalningu en í grundvallaratriðum er hluturinn þannig.
    Hver fer með tollskrá? Er það landbrh.? Hver getur breytt síðustu tveim númerum í tollskrá? Er það landbrh.? Nei, það er fjmrh.
    Í öðru lagi er það svo að varðandi GATT-samningana þá er búið að setja forræði þess í nefnd fjögurra eða fimm ráðuneyta. Okkur var sagt fyrir jólin að það væri orðið samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að það væri landbrh. sem færi með forræði varðandi innflutning búvara.
    Hæstv. umhvrh. sagði í umræðunni í síðustu viku að e.t.v. væri að skapast fyrir því hefð, sú venja, að landbrh. færi með þetta forræði og það mundi e.t.v. ganga eftir þegar kæmi að GATT. ( Gripið fram í: Þú verður nú að fara rétt með.) En hvað kemur svo í ljós þegar við lesum Morgunblaðið í morgun? Þar heldur landbrh. því enn fram að samkvæmt samkomulagi frá því í desember sé forræðið hans varðandi innflutninginn og varðandi jöfnunargjöldin. ( Landbrh.: Það er úrskurður forsrh.) Það er úrskurður forsrh., grípur hæstv. landbrh. inn í. En hvað skyldi síðan hæstv. viðskrh. segja í sömu frétt? Með leyfi hæstv. forseta, þá segir viðskrh.:
    ,,Þegar GATT-samkomulagið gengur í gildi verður bannað að banna og þá verður ekkert leyfisveitingarvald til lengur. Þá fellur það úr gildi að landbrn. geti leyft eða bannað innflutning. GATT er um það að menn geti lagt á tolla til þess að jafna upp misgengi og samkvæmt tollalögum eru þeir ákvarðaðir í fjmrn.`` --- Hvað segir þetta? Það er og verður ekkert hlé á þessari deilu.
    Hæstv. landbrh. fær ekkert hlé til þess að sinna öðrum málefnum landbúnaðarins. Deilan heldur áfram af fullum krafti, það er einfaldlega ekkert samkomulag milli stjórnarflokkanna. Það verður áfram sú staða sem verið hefur það sem af er þessu kjörtímabili að hæstv. landbrh. hefur ekki tekist að ná samstöðu um nokkurt einasta mál innan ríkisstjórnarinnar nema í pólitískum hrossakaupum að undangengnum miklum og löngum deilum. Það er öldungis óviðunandi niðurstaða. ( Gripið fram í: Það þarf að fá þig í

ríkisstjórnina.) Ráðherra sem nær ekki samstöðu um nokkurt einasta mál sem þarf að flytja innan sinnar ríkisstjórnar er ekki til neins. Hann kemur engum málum fram sem horfa til heilla fyrir þá atvinnugrein sem honum hefur verið trúað fyrir.
    Hæstv. landbrh. hélt áfram í lok sinnar ræðu hér áðan að tala um það að e.t.v. þyrfti að endurskoða búvörusamninginn. Hæstv. ráðherra er búinn að tala um það í tvö ár. En hvar eru efndirnar? Hvar eru framkvæmdirnar? Hvað er verið að vinna í málinu? Ekki neitt. Það er ekkert verið að vinna í málinu vegna þess að öll orka ríkisstjórnarinnar varðandi landbúnaðarmál hefur farið í innbyrðis deilur.
    Virðulegur forseti. Við tveir þingmenn Framsfl., ég ásamt 5. þm. Suðurl., lögðum hér fram frv. í síðustu viku sem við teljum að geti höggvið á þennan hnút. Nú tel ég víst að umræðan um þessi mál muni mjög fara fram undir þessum lið sem hér er nú í gangi og ég reikna því með ef annað kemur ekki fram eða vilji til annars að leggja til þegar að því kemur hér á eftir að frv. okkar verði vísað beint til landbn. og við getum hafið umfjöllun um þessi mál samhliða þar. En þar leggjum við til að farið verði með þessi mál á þann hátt að Alþingi ákvarði hvaða ráðherra hefur forræðið og það fari síðan eftir almennum stjórnskipunarvenjum. Það verði viðkomandi ráðherra sem fari þá með málið en reglugerðirnar séu ekki settar inn í lagatexta eins og verið er að leggja til hér. En hvers vegna er þetta ekki gert? Hvers vegna er ekki farið eftir almennum og venjulegum stjórnskipunarvenjum hvað þetta snertir? Það er vegna þess, eins og ég nefndi áðan, að það er ekki samkomulag um það. Það er ekkert traust og enginn trúnaður milli ráðherra og stjórnarflokka í þessari ríkisstjórn og þá vil ég koma að einu atriði sem kannski hefur farið nokkuð lágt í umræðunni. Það hefur alltaf verið rætt um að deilan stæði á milli Alþfl. og Sjálfstfl., á milli utanrrh. og landbrh. En ætli það sé ekki þannig ef grannt er skoðað að það er ekkert síður fjmrh. sem hefur staðið í vegi fyrir því að um þessi mál gæti orðið samkomulag.
    Virðulegur forseti. Hvers vegna leggjum við það til að með þessi mál sé farið á þann hátt að landbrh., hið stjórnskipulega vald landbúnaðarins, fari með forræði innflutnings og álagningu jöfnunargjalda? Hvers vegna lýtur það ekki sömu lögmálum og annar innflutningur? Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er sú að í öllum okkar nágrannalöndum er þessu þannig farið að það er landbrh. sem hefur með þessi mál að gera, einfaldlega vegna þess að viðskipti með landbúnaðarvörur lúta allt öðrum lögmálum heldur en önnur viðskipti í heiminum. En, virðulegur forseti, það er önnur veigamikil ástæða fyrir því að við flm. þess frv. sem hér er á dagskrá á eftir viljum fara þessa leið. Hún er sú að okkur sýnist að það sé ekki góð reynsla af því þar sem viðskipta- og fjmrn. hafa farið með heimildir til ráðstafana til þess að mæta niðurgreiddum innflutningi. Hér á ég við skipasmíðaiðnaðinn. Þar er svo komið að hann er ekki að hrynja, hann er hruninn, þrátt fyrir það að í íslenska Stjórnarráðinu, hjá viðskrn. og hjá fjmrn., hafi allan tímann verið allar þær heimildir sem til þurfti til að stöðva þessa þróun. Hér er um mikla hliðstæðu að ræða, við erum að tala um atvinnugrein þar sem er landbúnaðurinn, þar sem svo háttar til að við erum að keppa við niðurgreidda framleiðslu erlendis frá. Við höfum ekki þá reynslu af viðskipta- og fjármálaráðuneytum á Íslandi að þeim sé treystandi til þess að fara með þennan málaflokk.
    Virðulegur forseti. Ég hafði ætlað mér að leggja spurningu fyrir hæstv. utanrrh., ég sá að hann sat hér áðan, málið er honum nokkuð skylt og ég býst við að hann sé hér fyrir framan og heyri mál mitt. En ég ætla að koma aftur að því sem ég nefndi hér áðan og það er hvernig við stöndum að framkvæmd GATT-samkomulagsins. Það er í raun GATT-samkomulagið sem skiptir langsamlega mestu máli og hvernig þar verður staðið að málum. Þar eru yfirlýsingar misvísandi eins og ég nefndi áðan, bæði milli landbrh. og ráðherra Alþfl. og einnig milli einstakra ráðherra Alþfl. Ég hlýt því að varpa þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. --- og baulaðu nú Búkolla mín, hvar sem þú kannt að vera --- ég hlýt að varpa þeirri spurningu til hæstv. utanrrh.: Hver er hans túlkun á því hvernig framkvæma eigi GATT-samninginn og jöfnunartollana sem þar er heimild til að beita?
    Hæstv. umhvrh. sagði hér í umræðu í vikunni sem leið að það væri ekki ólíklegt, ef sú hefð skapaðist gagnvart EES og öðrum samningum að landbrh. færi með jöfnunargjöldin þar, að það yrði eins varðandi GATT. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. eftir þessu, hvort þetta sé hans skoðun og hvernig hann telji að við eigum að beita tollígildunum gagnvart GATT-samningnum.
    Það er mín skoðun að ef um það væri samstaða og menn legðu í það vinnu þá væri hægt að ganga þannig frá þeim lagabreytingum sem við stöndum frammi fyrir núna að það gæti tekið á GATT-samningnum líka. Það virðist vera svo að hjá flestum þeim löndum sem koma til með að vinna undir GATT-samningnum hvað snertir landbúnaðinn, þá túlki menn það þannig að það verði viðhaldið því jöfnunargjaldakerfi sem verið hafi en tollígildin myndi það hámark sem leyfilegt sé að nota. Ef það er þessi túlkun sem ræður þá getum við gengið frá þessu í lagatexta núna á þann hátt að við getum hafið aðlögun okkar vegna GATT án þess að fara út í fleiri og meiri lagabreytingar. Og óskaplega væri það nú miklu betra fyrir þá atvinnugrein sem heitir landbúnaður ef hægt væri að ganga frá lagasetningu núna og það gætu legið fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnar nú á næstu vikum um það hvernig ríkisstjórnin hyggist beita tollígildunum samkvæmt GATT.
    Það er algjörlega óviðunandi ástand fyrir landbúnaðinn sem þarf að fara að starfa eftir GATT-samningnum, og eins og ég sagði áður mun GATT-samningurinn mynda starfsumgjörð landbúnaðarins á næstu

árum og það hvernig íslensk stjórnvöld beita þeim heimildum sem við þar höfum ef það á að taka gildi um næstu áramót og enginn veit fyrr en e.t.v. á síðustu dögum fyrir jól hvernig að þessu á að standa. En, virðulegur forseti, því miður, greinin í Morgunblaðinu í morgun staðfestir að það er engin sátt hjá ríkisstjórninni, það er engin lausn á deilumálunum og landbúnaðurinn og matvælaiðnaðurinn er engu nær um það starfsumhverfi sem bíður okkar e.t.v. innan árs.
    Ég hlýt að gera þá kröfu til þeirra tveggja ráðherra sem hér sitja, aðalleikaranna í því sjónarspili sem hefur farið fram um nokkurra vikna skeið, að þeir geri Alþingi grein fyrir því í þessari umræðu í dag hver sé stefna ríkisstjórnarinnar varðandi beitingu tollígilda vegna GATT. Það er enginn tími til stefnu. Við erum að tala um víðtækan alþjóðlegan samning sem tekur gildi annaðhvort um næstu áramót eða um mitt næsta ár. Ég vil hafa það sem mín lokaorð að ítreka þá spurningu til hæstv. landbrh. og til hæstv. utanrrh. hver sé stefna ríkisstjórnarinnar varðandi beitingu tollígilda vegna GATT. Mér finnst að við alþingismenn eigum kröfu til þess að þessu sé svarað hér þar sem við erum að ræða, eins og ég sagði áðan, um samning sem er að taka gildi á næstu mánuðum. Ég segi á næstu mánuðum þó það séu e.t.v. 11 mánuðir í það.
    Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég reikna með því að efnislega umræðan um þetta mál fari fram undir þessum lið hér og hef þess vegna reiknað með því ef ekki verða beiðnir um annað frá þingmönnum að biðja um það að 4. máli á dagskrá verði síðan vísað til nefndar án umræðna ef þannig verkast.