Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:21:33 (3759)


[14:21]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig rétt að það þarf ekki mikið til að gera betur en núverandi ríkisstjórn. En ég vil benda hv. þm. á það að í umræðunni um þetta mál í fyrravor gerði ég rækilega grein fyrir afstöðu minni til EES og tengingu við þetta mál. Ég vil reyndar einnig benda hv. þm. á að það er sáralítið nýtt varðandi innflutning landbúnaðarvara í EES. Það sem við erum að glíma við varðandi innflutning landbúnaðarvara í dag er tilkomið vegna EFTA-samningsins og vegna bókunar 6 við Evrópubandalagið sem, ef ég man rétt, Alþb. hefur a.m.k. stundum verið að hreykja sér af að hafa staðið að.
    Ég hef sagt það margoft úr þessum ræðustól að okkur beri að standa við þá samninga sem við gerum á alþjóðavettvangi. En ég hef einnig sagt það að við eigum að gera skýlausa kröfu til þess í landbúnaðarmálum --- sem eru í raun sérkapítuli í þessu og eins og þingmaðurinn veit þá fjallar EES-samningurinn ekki um landbúnaðarmál --- við eigum að gera þá skýlausu kröfu til okkar ráðamanna og okkar ráðherra að þeir standi þar á okkar rétti. Ég hef sagt að það hvaða áhrif samningarnir við EFTA, bókun 6 við EB, samningurinn um EES og GATT hafi á íslenskan landbúnað, sé ekki utanríkismál. Það er innanríkismál og það ræðst af því hvaða vilji er hjá íslenskum stjórnvöldum til þess að standa á þeim heimildum sem við höfum til varnar fyrir okkar atvinnulíf.