Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:23:20 (3760)


[14:23]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Það fór ekki fram hjá neinum sem hlýddi á umræðuna um Evrópskt efnahagssvæði á síðasta þingi hver var afstaða hv. þm. og fimm annarra þingmanna Framsfl. sem studdu í raun EES-samninginn þegar um hann var fjallað og hann kom hér til afgreiðslu. Og það var hörmuleg niðurstaða, og hörmulegt að sjá þann flokk sem hefur reynt að telja sig í forsvari fyrir dreifbýlið í landinu öðrum fremur í tveimur nærri jafnstórum fylkingum þegar tekist var á um grundvallarhagsmuni sem vörðuðu dreifbýlið í landinu, einnig íslenskan landbúnað.
    Frv. sem hér er um að ræða er endurflutningur á frv. sem deilt var um hér harðast á síðasta degi þings í fyrravor. Og það segir í athugasemdum með því lagafrv., með leyfi forseta, þar sem vikið er að lagagrein sem tekin er upp í frv. sem hv. þm. flytur hér ásamt hv. þm. Guðna Ágústssyni. Þar segir:
    ,,Í 2. mgr. 2. gr. frv. er landbrh. heimilað að leyfa innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Þetta ákvæði er nýmæli og er fyrst og fremst tekið mið af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Þetta segir þarna í athugasemdum. Síðan er hv. þm. að reyna að flýja aftur í bókun 6 með samningi sem var gerður 1972 við Evrópubandalagið. Ja, stórmannlegt er það. Ég held hann ætti að huga að sínum gerðum í þessu.
    En ég verð því miður að segja að ég fæ ekki séð að það sé öll lausn fengin með því að skipta á ákveðnum talsmönnum hér við þá ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands ef þeir átta sig ekki betur á aðalatriðum og aukaatriðum í málum. En því miður finnst mér hér verið að þvæla málið þannig og fela í rauninni grundvallarágreininginn, spurninguna um það hversu langt menn eiga að ganga í sambandi við að hleypa hér inn erlendum landbúnaðarafurðum.