Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:32:36 (3764)


[14:32]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað hv. þm. ætlaði að sanna eða afsanna. Það liggur fyrir í fyrsta lagi að frv. hér er afdráttarlaust um þau efni að valdið til að leggja á verðjöfnunargjald samkvæmt lögunum eins og þau eru og í sambandi við þetta frv. er í höndum landbrh. Það liggur fyrir afdráttarlaus úrskurður forsrh. um að innflutnings- og útflutningsmál landbúnaðarins eru í höndum landbrh. Hitt er ekkert nýtt og hann hvorki sannar né afsannar neitt með því að halda því fram að Sjálfstfl. og Alþfl. hafi ekki alltaf verið sammála um landbúnaðarmál. Það hefur alltaf legið fyrir og er einmitt eitt af því sem togast er á um í íslenskri pólitík.
    Ég er ekkert viss um það ef við horfum til síðustu landbrh. að þeir séu að öllu leyti ánægðir með þá málamiðlun sem þeir komust að við kratana á sínum tíma. Eða vill hv. þm. halda því fram að hann sé fyllilega ánægður með það hvernig utanrrh. í síðustu ríkisstjórn fór með samningamál landbúnaðarins á meðan sú ríkisstjórn sat? Er hann ánægður með þá úlfakreppu sem þeir voru í við stjórnarskiptin?
    Ég get kannski líka velt þessum málum við og sagt að það er undarlegt að hafa setið jafnlengi á þingi og hv. þm. og hafa ekki uppgötvað það fyrr en nú að Sjálfstfl. og Alþfl. eru ekki samstiga né sammála um landbúnaðarmálin.