Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:34:06 (3765)


[14:34]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að Sjálfstfl. og Alþfl. eru ekki að fullu leyti sammála um landbúnaðarmál og ég velti því stundum fyrir mér varðandi stefnu Alþfl. síðustu vikur og mánuði hvort hann sé yfir höfuð búinn að taka þá ákvörðun að hætta í pólitík og leggja sig niður en það er aftur annað mál. Flokkar sem hafa ólík sjónarmið starfa saman í ríkisstjórn en ef einhver heilindi og einhver trúnaður er á milli þá koma menn sér saman um mál, þá standa menn ekki í eilífum illdeilum um einstaka málaflokka.
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. sagði að öll óvissa hefði verið tekin af með það 21. des. hver færi með forræðið varðandi jöfnunargjöld á innflutning búvara. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig á því standi að þegar reglugerðirnar byggðar á þessum lögum fóru að streyma inn eftir áramótin þá kom reglugerð varðandi 10 tollnúmer frá landbrn. en varðandi 36 frá fjmrn. Og mér er fullkunnugt um að það var ekkert mikil hamingja hjá þeim starfsmönnum landbrn. sem fara með þessi mál varðandi þessa framkvæmd. Þeim fannst ekki mikil heilindi á bak við það hvernig ríkisstjórnin ætlaði að standa að framkvæmd þessara mála.