Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:35:50 (3766)


[14:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan óska eftir því að hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. yrðu hér viðstaddir þar sem ég hef tekið það svo að hæstv. utanrrh. standi nú vaktina fyrir Alþfl. í landbúnaðarmálunum.
    Fyrst vil ég segja það, sem óþarft er svo sem að taka fram, að það hefur fátt sýnt betur erfiðleika þessa stjórnarsamstarfs og það hversu óstarfhæf þessi ríkisstjórn er heldur en sagan í landbúnaðarmálum. Þar er ósköp einfaldlega niðurstaðan sú að stjórnarstefnan, ef stefnu skyldi kalla, hefur mótast tilviljanakennt og handahófskennt af hrossakaupum stjórnarflokkanna í hverju einstöku tilviki en það liggur ekki fyrir nein heildstæð stefna enda stjórnarsáttmálinn afar fátæklegur hvað þetta snertir. Innflutningsmálin, innflutningur búvörunnar eins og það hefur gengið til á þessum mánuðum og árum sem stjórnin hefur setið hefur náttúrlega endurspeglað þetta alveg í hnotskurn. Í rauninni hafa verið uppi tvær stefnur í ríkisstjórninni sem tekist hafa á í fjölmiðlum og að því er virðist ekki talað mikið saman.
    Afleiðing þessa ástands er svo margvísleg. Hún er ekki bara hneisa og álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina sem slíka og viðkomandi stjórnmálamenn. Hún er líka því miður orðin að áfalli fyrir Alþingi og stjórnkerfið í heild sinni. Það hefur tæplega í annan tíma gerst að stjórnsýslan á Íslandi hafi staðið jafnberskjölduð frammi fyrir alþjóð eins og gerst hefur í þessu máli og svo sannarlega gagnrýnivert hvernig til hefur tekist.
    Í reynd má segja að meginniðurstaða þess máls sem við göngum hér til umræðna um felist í dómi Hæstaréttar sem féll nú á dögunum, þ.e. dómur Hæstaréttar hefur nú eytt óvissu hvað það snertir að í búvörulögunum felst ekki það sjálfstæða vald til takmörkunar á innflutningi búvöru sem menn hafa haldið um árabil. Ég vil taka það fram að ég sem landbrh. meðan ég fór með það starf var þeirrar skoðunar að í búvörulögunum fælist þetta vald. Það kom mér því jafnmikið á óvart og núv. landbrh. að dómsniðurstaðan yrði þessi. Ég minni t.d. á í því sambandi að í deilum sem ég stóð í við þáv. hæstv. viðskrh. um innflutning á ostlíki, þá var það aldrei deiluefni okkar á milli að landbrh. færi með innflutningstakmarkanir á búvörum. Deilan stóð um það hvort viðkomandi vara væri búvara eða ekki. Þess vegna endurtek ég að mér kom þessi niðurstaða á óvart. En hún er niðurstaða. Réttaróvissunni hefur verið eytt. Alþingi og aðrir verða að ganga út frá því að þetta séu núgildandi lög, gildandi réttur í landinu og það á ekki að tefja tímann með umræðum um annað.
    Síðan kem ég að því frv. sem ríkisstjórnin hefur hér lagt fram og segi: Því miður er málið ekki leyst með framlagningu þess. Ef Alþingi bætti því nú við allt sem á undan er gengið að mínu mati að lögfesta þetta frv. óbreytt, þá yrði það sér enn einu sinni til skammar. Vegna hvers? Vegna þess að frv. eyðir ekki óvissunni um aðalágreiningsmálið, það sem er undirliggjandi: Hver hefur hið almenna forræði á þessu sviði? Og ég þykist geta sannað það með tilvitnunum í önnur lög. Það er að vísu rétt að frv. veitir landbrh. vald til þess að takmarka eða leyfisbinda innflutning tiltekinna vöruflokka eins og þeir eru svo tíundaðir í tollskrá. En það er með öðrum orðum ekki gengið frá því í þessu frv. með skýrum og afdráttarlausum hætti hver fer með hið almenna forræði málaflokksins. Það er ekki gert. Og það er ótrúlegt að bjóða Alþingi upp á frv. af því tagi eftir allt sem á undan er gengið.
    Ef við förum yfir það, hæstv. forseti, hver eru helstu lagaákvæði sem hér koma til skoðunar, þá eru það í grófum dráttum eftirfarandi:
    1. Lög nr. 88/1992, um innflutning, en þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skal vera óheftur nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.``
    Og í 5. gr. segir: ,,Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara.``
    Með öðrum orðum er það alveg skýrt að allt almennt forræði varðandi innflutning og útflutning á vörum til og frá landinu heyrir undir viðskrh. nema annað sé sérstaklega tekið fram í öðrum lögum. Og er það þá gert nú með þessu frv. eða annars staðar í öðrum lögum, að taka skýrt og afdráttarlaust fram að forræði fyrir innflutningi og útflutningi búvöru sé annars staðar? Svarið er nei. Svarið er því miður nei vegna þess að í búvörulögunum er í fyrsta lagi það sem hér kemur til skoðunar, þ.e. 3. gr. en hún segir auðvitað samkvæmt venju að landbrh. fari með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. En dugar það? Nei, vegna þess að til þess þyrfti þetta að standa inni í lögunum aftar.
    Þá kemur til skoðunar 52. gr. laga nr. 99/1993. Tekur hún af vafann? Nei. Hún segir: ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar sem með þau mál fara leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.`` Það geta verið hvaða aðilar sem er. Það getur að sjálfsögðu verið viðskrh. Ef þetta væri almennt og ótakmarkað forræði landbrh. þá ætti þarna að standa landbrh. en ekki aðilar.
    Í 53. gr. er hins vegar tekið sérstaklega fram að landbrh. veiti leyfi til að flytja til landsins kartöflur, nýtt grænmeti, sveppi og blóm, en þar er um að ræða afmarkað vörusvið rétt eins og tilvísunin í tollskrána er líka afmörkuð. Þannig, hæstv. forseti, dugar því miður engin þessara lagagreina búvörulaganna

til þess að færa landbrh. í hendur almennt og ótakmarkað forræði á þessu sviði.
    Þá koma til skoðunar breytingarnar frá því í desember 1993. Færa þær landbrh. almennt og óskilyrt forræði á þessu sviði? Svarið er nei. Því miður ekki heldur því þar stendur: ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbrh. heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga.`` Þar er þetta aftur takmarkað, skilyrt og bundið því sem sérstaklega fellur undir milliríkjasamninga á þessu sviði.
    Þá er athyglisvert að taka til skoðunar og samanburðar stjfrv. frá sl. vori sem aldrei varð að lögum og bera það saman við þessa texta því þar stendur í upphafi 2. gr.: ,,Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum, og tilsvarandi vörum er háður samþykki landbúnaðarráðherra.``
    Þarna er á ferðinni ótakmarkað, óskilyrt forræði landbrh. á innflutningi á búvörum. Þarna vantar að vísu útflutningssviðið ef spurningin snýr að því hvað forræðið snertir, en þetta er þó í öllu falli ótakmarkað og óskilyrt forræði hvað leyfisveitingarvaldið á innflutningi snertir.
    Hæstv. forseti. Því miður duga hvorki 3., 52. og 53. gr. búvörulaganna til að færa landbrh. ótakmarkað stjórnsýslulegt forræði málaflokksins og breytingarnar frá því í desember gera það ekki heldur. Það hefði hins vegar stjfrv. frá því í vor og brtt. landbn. sömuleiðis gert hefði það verið lögfest, a.m.k. hvað innflutningshliðina snertir.
    Stjfrv. sem hér er á dagskrá og til umræðu, 341. mál, er því miður sama annmarka brennt. Þar segir í 1. gr.:
    ,,Innflutningur á`` --- hverju? ---,,þeim vörum`` --- ekki búvörum --- ,,þeim vörum`` --- sem svo eru taldar upp samkvæmt tollskrárnúmerum.
    Það er ekki almennt, það dugar ekki til að segja: Málaflokkurinn sem slíkur fellur undir landbrh. Því miður. Og menn skulu til að mynda hugleiða að þetta tengir hlutina þannig saman að breyting á tollskrárnúmerum getur fært forræði vara milli ráðuneyta. Fræðilega séð er mögulegt að breyting á tollskrárnúmerum eða upptaka nýs tollflokks geti fært vörurnar á milli ráðuneyta. Er það ásættanleg útkoma, frágangur í Stjórnarráðinu? Svarið er auðvitað nei.
    Þá kem ég að áttunda atriðinu og það er úrskurður forsrh. sem oft er nefndur hér. Að því er látið liggja að forsrh. Íslands hafi fellt úrskurð á grundvelli laganna um Stjórnarráð Íslands sem feli landbrh. þetta forræði. En ég spyr: Hvar er sá úrskurður? Hvar er hann skjalfestur? Er hann til í bréfi? Ég bið um hann. Því ég segi: Það er ekki boðlegt að ætla að selja mönnum það að forræði á þessum málaflokki hafi verið ráðstafað með úrskurði ef hann er hvergi til nema í hugum manna.
    8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar, er forseti Íslands setur samkvæmt tillögum forsætisráðherra, enda sé þess jafnan gætt, að ráðuneyti lúti málefni, sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima, sbr. 4. gr.
    Nú leikur vafi á undir hvert ráðuneyti málefni heyrir og sker þá forsætisráðherra úr.``
    Ég spyr um þennan úrskurð, ég vil fá hann skjalfestan eða ég vil fá reglugerð frá forsrh. þar sem það er skýrt að allt forræði búvöru heyri undir landbrh. Mér er að vísu tjáð og að mér er rétt bréf þar sem forsrh. lætur þessa skoðun sína koma fram. En ég held að það þurfi þá að ganga frá því með skýrari hætti en þarna hefur verið gert og ég spyr: Tekur einfaldur úrskurður með bréfi frá forsrh. af ákvæði laga? Því það er alveg ljóst að innflutningslögin gera ráð fyrir því að þessu verði ekki ráðstafað undan viðskrh. nema með sérstökum ákvæðum í lögum. Og reglugerð um Stjórnarráð Íslands eða sendibréf frá hæstv. forsrh., þó virðulegur sé, eru ekki landslög. Þannig að því miður sýnist mér að ekki einu sinni þetta haldi. Það er athyglisvert að í dómsorðum og rökstuðningi Hæstaréttar, bæði áliti meiri hluta og minni hluta, er ekki minnst einu orði á úrskurð forsrh., ekki frekar en hann sé ekki til. Hvers vegna er það ( Landbrh.: Af því að hann þykir svo sjálfsagður.) að Hæstiréttur lætur ekki svo mikið sem geta þess að forsrh. hafi stílað eitt lítið sendibréf á sl. vori? Það er væntanlega vegna þess að það er ekkert úrslitaatriði málsins að dómi Hæstaréttar og hefur ekki haft áhrif á réttarstöðuna þegar hann fellir sinn úrskurð.
    Ég vænti þess að minni hlutinn hefði notað sér þennan úrskurð, samanber rökstuðning hans að öðru leyti og dómsorð, ef hann hefði talið hann skipta máli.
    Því miður, hæstv. forseti, meginniðurstaða mín er því þessi: Þetta frv. eyðir ekki, a.m.k. engan veginn á fullnægjandi hátt, stjórnskipulegri óvissu þessa máls, þ.e. hver fari með almennt forræði innflutnings- og útflutningsmálefna landbúnaðarins. Þvert á móti er sú stefna sem hér er flutt í stjfrv., borin saman við stjfrv. frá sl. vori, greinilega afturhvarf frá því að treysta forræði landbrh. á þessu sviði. Greinilega. Það er alveg óhjákvæmilegt að í lögskýringargögnum framtíðarinnar yrðu þessi tvö frumvörp borin saman og sagt: Ríkisstjórnin hefur greinilega skipt þarna um stefnu og í verulegum mæli bakkað hvað varðar almennt forræði landbrh. því í frv. sl. vor sem Alþfl. virðist hafa samþykkt til framlagningar sem stjfrv. er þó hvað innflutninginn snertir með alveg ótvíræðum hætti tekið fram að hann skuli heyra undir landbrh. hvað allar búvörur varðar og vörur sem unnar eru úr þeim. Það er fullnægjandi að mínu mati og ótakmarkað, en ekki núverandi orðalag. Þegar það bætist svo við að hæstv. viðskrh., sem er auðvitað aðili að málinu af því að innflutningslögin heyra undir hann, segir í blaðagrein eða viðtali sama morgun og þetta

er hér til umræðu --- hvað segir hann, hæstv. forseti, með leyfi. Hann segir í raun og veru að þegar GATT-samkomulagið gengur í gildi verði bannað að banna og þá verði ekkert leyfisveitingarvald til lengur. Þá falli það úr gildi að landbrn. geti leyft eða bannað innflutning. Þá spyr ég: Hvar er forræði landbrn. ef þessi túlkun viðskrh. er rétt, sem fer með lögin um innflutning, nr. 88/1992? Ég sé ekki annað en að þá hrynji sú málsvörn að forræði sé hjá landbrh. hvað þetta snertir.
    Og þá er að því komið, hæstv. forseti, að svara spurningunni: Hvað á þá að gera ef menn vilja ganga frá þessu með skýrum og afdráttarlausum hætti í eitt skipti fyrir öll? Það er ekki hægt, það er ekki boðlegt að láta þingið og þjóðina standa í þessu þrasi áfram. Það verður að útkljá það í eitt skipti fyrir öll hver fer með almennt og ótakmarkað forræði á þessu málasviði, ef ekki vill betur til með atkvæðagreiðslu hér þar sem valdið liggur. Og það væri ósköp einfaldlega hægt að gera með eftirfarandi hætti, hæstv. forseti, að bæta málsgrein framan við þessa grein frv. sem hér er á dagskrá eða 52. gr. búvörulaganna, svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Landbúnaðarráðuneytið eða landbúnaðarráðherra fer með mál sem varða innflutning og útflutning búvöru og vörur sem unnar eru úr þeim.``
    Þar með væri það ákveðið. Þar með verða engin vafaatriði. Þar með verða engin grá svæði. Þar með getur tollstjóri ekki fært vörur milli ráðuneyta með því að breyta uppsetningu tollskrárinnar. Slíkt er auðvitað fáránlegt ástand og algjörlega óþolandi. E.t.v. væri enn betra, hæstv. forseti, í ljósi þess rökstuðnings sem ég hef hér flutt að ganga frá þessu með eftirfarandi hætti: Að segja í upphafi 52. gr. eða á öðrum völdum stað í búvörulögunum: Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 88/1992 þá fer landbrh. með mál sem varða innflutning og útflutning búvöru og vara sem unnar eru úr þeim. Það er að segja, taka það fram með beinum pósitífum hætti að þrátt fyrir lögin um innflutning þá fari landbrh. með þennan afmarkaða hluta verkefnisins. Þá eru menn að vinna vinnuna sína og ganga frá því með skýrum og afdráttarlausum hætti hvernig þetta á að vera. Menn geta svo verið pólitískt ósammála um það hvar þetta verkefni eigi að liggja, en um eitt geta menn ekki verið ósammála því þá væri þeim sæmst að segja af sér og það er að þetta megi vera óskýrt. Það getur enginn alþingismaður, eftir það sem á undan er gengið, staðið hér frammi fyrir mönnum og sagt að það sé bara í lagi að láta þetta ráðast og hafa þetta si svona og láta svo bara einhverja dóma eða reiptog á næstu árum ráða því hvorum megin hryggjar þetta liggur. Það gengur ekki. Við getum ekki unnið okkar löggjafarstörf með þeim hætti.
    Ef menn vilja ekki hafa þetta forræði almennt hvað varðar innflutnings- og útflutningssvið í heild sinni þá er til sú leið að binda þetta við leyfisveitingarvaldið vegna þess að auðvitað er það svo að mönnum er það kannski viðkvæmt mál að undanskilja embætti viðskrh., þennan hluta af hans hefðbundnu verkefnum, þ.e. hvað búvöruna snertir. Þá mætti auðvitað orða þetta svo, hæstv. forseti: Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 88/1992 veitir landbrh. leyfi fyrir innflutningi og útflutningi búvöru og vöru sem unnar eru úr þeim eftir því sem slíkt er takmörkunum háð --- eða eitthvað þar fram eftir götunum. Því nú erum við ekki endilega að tala um að leyfisbinda þetta allt, nema síður sé. En það eru í grófum dráttum bara þessar tvær leiðir að mínu mati sem eru færar og duga í þessum efnum. Og ég spyr að því, hv. þingmenn, ef stjórnsýslufræðingar eða sérfróðir ,,júristar`` á þessu sviði verða beðnir um úrskurð á því, á grundvelli þessara pappíra sem fyrir liggja: Hvar liggur hið almenna forræði? Þá óttast ég að þeir mundu svara: Það liggur hjá viðskrh. samkvæmt innflutningslögunum en afmarkaður hluti þess eins og hann birtist í tollskrá á hverjum tíma hefur verið færður til landbrh., þ.e. tiltekið afmarkað leyfisbindingarvald er með þessu fært á grundvelli tollskrárinnar til landbrh. Það er ekki fullnægjandi frágangur. Það er ekki boðlegt.
    Ég er ekki að segja, hæstv. forseti, að lokum, að þessi frágangur málsins geti ekki í grófum dráttum verið fullnægjandi hvað framkvæmdina snertir í reynd, í praxís, de facto, eins og stundum er sagt. En hann er það ekki lagalega, ekki de jure. Það er vonlaust að bjóða mönnum upp á það að þetta standist eðlileg og skýr vinnubrögð hvað lagasetningu snertir. Ég tek fram, eftir það sem á undan er gengið.
    Þess vegna tek ég að lokum, hæstv. forseti, undir það með hæstv. landbrh., sem ætti þess vegna ekki að þurfa að biðja um orðið í andsvari við mig, ég tek undir það sem hæstv. landbrh. sagði hér að lokum og ég vona að það viti á það að landbrh. er tilbúinn til að styðja að þetta mál verði unnið þannig í meðförum þingsins að allri óvissu verði eytt. Það er það verkefni sem við stöndum núna frammi fyrir. Það getur enginn alþingismaður farið heim með það á samviskunni að klúðra hér saman einhverjum hrossakaupum í óljósu orðalagi. Það gengur ekki. Þá væri mönnum skammar nær að segja af sér embætti og fara til síns heima og vinna við eitthvað annað heldur en að reyna að setja landinu lög.
    Hæstv. forseti, ég hef lokið máli mínu.