Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:01:01 (3769)


[15:01]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef sennilega lesið bréfið illa upp. Því lýkur svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Yfirlýsingin hlýtur því að standa óhögguð og forræði málsins að vera áfram hjá landbrn. Þetta er tekið fram vegna ágreinings fjmrh. og landbrh. og með vísan til 8. gr. stjórnarráðslaga nr. 93/1969``. Þannig að þessu formsatriði er fullnægt.
    Ég hlýt í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að lýsa yfir undrun minni yfir því hversu sterk tilhneiging er til þess að lesa lög sem fjalla um landbúnaðarmál með öðru hugarfari heldur en önnur lög. Auðvitað er það alveg skýrt og afdráttarlaust að reglugerðir og annað sem gefið er út með heimild í búvörulögum heyrir undir landbrh. Það vald sem þar er gefið til þess að hafa áhrif á innflutnings- og útflutningsmál er í höndum landbrh., svo fremi sem ekki sé takmarkað með öðrum lögum. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Dómurinn frá því í haust er afdráttarlaust. Þar var ekki haggað við, og heldur ekki í hæstaréttardómnum, því skýlausa forræði sem bréf forsrh. úrskurðar um að skuli vera í höndum landbrh. Þannig að forræðisdeilan er úr sögunni.
    Hitt get ég vel skilið að fyrrv. landbrh. skuli hafa af því nokkrar áhyggjur með hliðsjón af þeirri reynslu og því óöryggi sem þá var í þessum málum, að þá skuli þeir hafa af því nokkrar áhyggjur hvort nógu vel sé um hnútana búið.