Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:20:48 (3772)


[15:20]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram fyrst að það er misskilningur að í greinargerð eða athugasemdum með lagafrv. sé ekki tekið fram að hér sé um fleiri vörutegundir að ræða heldur en í þeim tveimur reglugerðum sem þar er vísað til. Þvert á móti er sérstaklega tekið fram að að auki séu nokkrar fleiri vörutegundir sem heyri undir milliríkja- eða fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að á þessum lista þannig að það er sérstaklega vakin athygli á því.
    Það er líka misskilningur að ekki sé gert ráð fyrir því að áfram sé haft samráð við bændur. Það er þvert á móti tekið fram í lögunum sjálfum. Framkvæmdanefnd búvörusamninga er að störfum o.s.frv. þannig að það er víðtækt samráð við bændur um framkvæmd þeirra laga. Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að í lögunum sjálfum, 3. gr. þeirra, er kveðið á um það að landbrh. fari með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til þannig að það er alveg tvímælalaust kveðið á um það hver skuli fara með forræði þessara mála.
    Að síðustu vil ég ítreka það sem ég sagði í frumræðu minni. Það er ekki stefnt að því að breyta þeirri framkvæmd sem verið hefur á búvörulögunum í sambandi við innflutning. Það stendur hvorki til að banna innflutning á fleiri vörutegundum en nú er gert eða breyta reglum um það og þó að nánari skilgreining komi á því hvernig með jöfnunargjöld skuli farið, þá stendur heldur ekki til að breyta þeirri framkvæmd sem verið hefur í þeim efnum.