Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:24:05 (3774)


[15:24]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Út af fyrra atriðinu er það misskilningur að ekki sé samráð við bændur um innflutning landbúnaðarvara. Þvert á móti á það bæði við um innflutning og útflutning. Það er kveðið á um það í 52. gr. skýrlega að áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar sem með þau mál fara leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins en bændur eiga sína fulltrúa þar. Þar situr m.a. formaður Stéttarsambands bænda og er formaður þess ef ég man rétt.
    Um síðara atriðið er það að segja að ef sú aðferð er höfð að kveða á um tollnúmer nákvæmlega eins og gert er með þessu frv. þá var nauðsynlegt að taka tillit til þess að samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði taka senn gildi. Þá er auðvitað hægt að fara aðra leið. En aðalatriðið er að með þessu frv. er stefnt að því að tryggja það ástand sem lögunum frá 23. des. var ætlað að tryggja, það er sú grunnhugsun sem er á bak við lögin. ( KÁ: En pasta?) Og pasta var inni í gömlu lögunum, þ.e. með 20% kjötinnihaldi og það er ekki talað um að leggja verðjöfnunargjöld á pasta. Það eru lögð verðjöfnunargjöld á kjötinnihaldið nú, á kjötið en ekki pastað sem er í þeim rétti.