Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:43:01 (3777)


[15:43]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er býsna algengt hér á hinu háa Alþingi að menn tali af nokkurri drýldni um þekkingu sína á landbúnaðinum og eigni öðrum þar algera fáfræði og vanþekkingu og ástæðulaust að kippa sér upp við slíkt. Ég árétta það sem ég sagði að það skömmtunarkerfi sem ríkt hefur í landbúnaði allt of lengi hefur auðvitað hneppt þessa framleiðslugrein í viðjar og hefur haldið aftur af framförum og eðlilegri framleiðni í greininni. Þar með er ekki sagt að það hafi ríkt alger stöðnun. Frá þessu eru undantekningar. Og hugmyndin með búvörusamningnum og framsali á framleiðslurétti var náttúrlega sú að reyna að brjótast út úr þessum viðjum án þess að leggja sjálft kvótakerfið, skömmtunarkerfið og kotbúskaparstefnuna algerlega af. Þetta hefur skilað nokkrum árangri og ekki síst í mjólkurframleiðslu og reyndar mætti nefna ýmsar aðrar greinar. Það breytir hins vegar ekki því og það vita bændur á Íslandi allra manna best að fjöldi þeirra er hnepptur í svo þröngar skorður að því er varðar framleiðslu sinna búa að þeir geta ekki haft af þeirri framleiðslu eðlilega afkomu og standa jafnframt í þeim sporum að vera bundnir nánast af eignum sínum þannig að þetta kerfi hefur skapað fleiri vandamál heldur en jafnvel hinir góðviljuðustu meðal höfunda þeirra hafa viljað leysa. Þetta skömmtunarkerfi hefur reynst bændastéttinni og neytendum illa og það er smám saman að koma á daginn að gagnrýni þeirra sem hafa alla tíð gagnrýnt þetta kerfi er á réttum rökum reist og fyrr en síðar munu bændur á Íslandi gera sér grein fyrir því jafnvel fleiri en nú er.
    Hv. þm. vildi vita hvaða aðrar greinar hefðu skilað meiri framleiðni eða framleiðniaukningu á undanförnum árum. Þar með nefni ég náttúrlega fyrst og fremst til eina grein, sem heitir íslenskur sjávarútvegur, án þess að ég hafi þar samanburðartölur á reiðum höndum.