Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:22:23 (3786)


[16:22]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég má til með að biðja hv. þm. að lesa aftur hæstaréttardóminn. Hæstaréttardómurinn hnekkti þeirri túlkun á tilteknum greinum búvörulaganna að þau hefðu að geyma sjálfstæða heimild fyrir banni á innflutningi. Það sem hv. þm. getur þess vegna kallað moðsuðu var sú kóróna á sköpunarverki framsóknarmanna sem þessi búvörulög voru. Um þau má segja að ef þau eru ekki sannanlega brot á stjórnarskránni þá ber lögfróðum mönnum a.m.k. lítt í milli um að þau eru það mestan part. Þessari moðsuðu hefur guði sé lof verið hnekkt með hæstaréttardómi. Hæstaréttardómurinn fjallaði ekkert um lögin frá því fyrir jól að öðru leyti en því að um leið og hnekkt hefur verið þeim skilningi að landbrh. hafi verið heimilt að banna þá náttúrlega var grundvellinum kippt undan þessum lögum. Samkomulag sem nú hefur tekist er að þrátt fyrir þennan hæstaréttardóm viljum við ekki taka þeim afleiðingum sem af hefðu hlotist: Óheftur innflutningur landbúnaðarvara.
    Með öðrum orðum er það eins skýrt og verið getur að moðsuðan sem Hæstiréttur hnekkti voru þessi búvörulög sem hingað til hefur verið biblía framsóknarmanna sem þeir lesa kvölds og morgna en er sem betur fer komin á ruslahauga.