Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:23:53 (3787)


[16:23]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Búvörulögin voru engin sérstök eign framsóknarmanna enda sá ég að roði hljóp í kinnar hv. þm. Egils á Seljavöllum sem þykist gjarnan eiga sinn hlut í þeim lögum. Ég veit allt um það um hvað hæstaréttardómurinn fjallaði. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum hér núna í þriðja sinn í þessari baráttu að setja lög um þetta atriði vegna þess að það liggur ekki klárt fyrir hvar forræði landbúnaðarmálanna er og hver fer hér með tollígildi. Þess vegna erum við í þessari umræðu, hæstv. utanrrh.
    Hins vegar tekur því ekki að svara ómerkilegum skotum hæstv. utanrrh. að Framsfl. Hann má senda þau svo mörg sem hann vill. En eitt veit ég að samhliða því að fylgi og stuðningur við Framsfl. vex þá mælist Alþfl. vart lengur í skoðanakönnunum. Svo rúinn er þessi innflutningsflokkur trausti að menn vilja ekki hafa hann lengur við stjórnvöl á Íslandi.