Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:45:54 (3789)


[16:45]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er nú svo aldeilis hissa. Loksins undir lok ræðunnar þegar bóndinn í hv. þm. Agli Jónssyni tekur að tala þá segir hann skýrum rómi að lagatexti í stjórnarfrv. sé ekki sniðugur. Og hann bætir við: Þegar smákóngaveldið í Stjórnarráðinu fær nú allt þetta í hendur sem verið er að láta það hafa hér, það er fyrirkvíðanlegur tími. ( Landbrh.: Hver segir að lagatexti eigi að vera sniðugur?) Það er nákvæmlega það sem við erum að segja, hæstv. landbrh. og lögmenn segja. Textinn er ekki sniðugur. Hann er óljós. Hann eyðir ekki réttaróvissu. Hann er götóttur. Og í ofanálag segja þeir: Hann er arfavitlaus. Þetta segja færustu lögmenn landsins þannig að þetta er sérkennilegasta lagasetning sem hér hefur sést. ( Gripið fram í: Hvaða lögmenn eru það?) Það er hópur lögmanna sem fullyrðir þetta. Við hljótum að kalla þá til fundar í landbn. og þar fáum við tækifæri til að hlusta á þeirra mál.
    En hér kemur hv. þm. Egill Jónsson og fullyrðir að lögin í desember gangi lengra en það frv. sem hér hefur verið lagt fram af hálfu okkar framsóknarmanna og gerir lítið úr því frv. Þetta er alveg furðulegur málflutningur og furðuleg endaskipti sem hafa orðið hér á ágætum manni sem maður hélt að ætlaði að vera tröllvaxinn í vörn fyrir íslenskan landbúnað. ( Gripið fram í: Ég er sammála því.) En nú hafa orðið endaskipti á þessum ágæta hv. þm. (Gripið fram í.) Þegar hæstv. utanrrh. var að ræða við mig rétt áðan þá ætlaði hann að gabba mig á frv. frá því í vor, á 1. gr. sem ég las upp:
    ,,Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt`` o.s.frv. Hann segir: Þetta er úrelt. En í nákvæmlega sama frv. segir síðar til þess að hugsa bæði um nútíð og framtíð: ,,Ráðherra getur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum.``
    Hv. þm. Egill Jónsson. Frv. sem þingmaðurinn vann með landbn. í vor hefði eytt allri réttaróvissu. Það veit þingmaðurinn og hann hlýtur miðað við það sem seinni hluti ræðu hans fjallaði um að taka enn einn kollhnís og ná skynsamlegri niðurstöðu með landbn.