Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:12:55 (3799)


[17:12]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi ræða var athyglisverð í ljósi þess að hér talar fyrrv. landbrh., sá maður sem ber ábyrgð á lögunum frá 1985, sá maður sem bar það fram hér á hinu háa Alþingi að fyrri mgr. 41. gr. hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar sem með þau mál fara leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.``
    ,,Skulu aðilar sem með þau mál fara.`` Þessi setning hefur verið túlkuð á ýmsa vegu og þann tíma sem þessi hv. þm. var landbrh. kom aldrei neinn úrskurður um það að hann hefði forræði yfir þeim málum sem í þessum lögum fælust. Þessi deila stóð þangað til úrskurður kom um það frá núv. forsrh. í september sl.
    Ég vil líka tala um það vegna þess að hv. þm. er að tala um að ég hafi verið að gefa frá mér forræði yfir jöfnunargjöldum. Þann tíma sem hann var landbrh. og þann tíma sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon var landbrh. höfðu þeir ekki forræði jöfnunargjaldanna í sínum höndum. Þeir höfðu það ekki. Og hver er skýringin á því að ekki voru á þeim tíma lögð jöfnunargjöld t.d. á kjötinnihald í pasta yfir 20% o.s.frv.? Hvernig stóð á því að sá innflutningur var frjáls án jöfnunargjalda? Vegna þess að þeir sem landbúnaðarráðherrar náðu því ekki fram eða höfðu ekki hugsun á því að jöfnunargjöld yrðu lögð á slíkar vörur. Þetta kom mjög inn í umræðuna þegar við vorum að tala um samningana um hið Evrópska efnahagssvæði og veikti mjög málstað okkar Íslendinga.
    Í þriðja og síðasta lagi. Sá tollalisti sem fylgir þessu frv. er auðvitað ekki saminn í utanrrn. Þetta er sá tollalisti sem er í þeirri reglugerð sem gefin var út í landbrn. með nokkrum viðbótum sem teknar eru úr tveimur reglugerðum. Þetta er það sem við höfum talið nauðsynlegt að taka fram og það hefur ekki verið gagnrýnt af þessum þingmanni að inn í þennan lista vanti fleiri tollnúmer.